Atvinnulífið

Starfsumhverfi fyrirtækja skiptir máli
Ítarefni

Starfsumhverfi fyrirtækja skiptir máli

Atvinnulífið þarf að búa við skýrar leikreglur. Óþarflega flókið og íþyngjandi regluverk, þunglamaleg stjórnsýsla og óskilvirkt eftirlit eykur kostnað og dregur úr hvata til fjárfestinga. Það eru hins vegar fjárfestingar í atvinnulífi og innviðum sem skapa  þau verðmæti og störf sem standa fyrir skatttekjum ríkis og sveitarfélaga og grunnþjónustunni sem þau veita.

Horfur eru á að aukið langtímaatvinnuleysi sé óvelkominn fylgifiskur kórónukreppunnar. Ef við leyfum því að festast í sessi munu dýrmæt þekking, færni og reynsla glatast sem kemur niður á hagvexti og lífskjörum til langs tíma. Mikið langtímaatvinnuleysi er því kostnaðarsamt fyrir samfélagið jafnt sem einstaklinga og miklir hagmunir fólgnir í því að vinna bug á því með réttum hvötum.

Umfang nýsköpunar og frumkvöðlastarfsemi er minna hér en í öðrum iðnríkjum sem gefur til kynna að starfsumhverfi fyrirtækja sé ábótavant, hvort sem það snýr að fjármögnun, regluverki eða skattkerfi. Að sama skapi þýðir þetta að tækifæri séu til sóknar á þessum sviðum. Afnema ætti þær hindranir í starfsumhverfi íslenskra fyrirtækja sem eru umfram þær sem þekkjast hjá nágrannaþjóðum. Skert samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja þýðir skert lífskjör almennings.

Áskorun:  Þunglamaleg stjórnsýsla flækist fyrir framþróun

Leyfisskylda er íþyngjandi hér á landi og mörg dæmi eru um að fyrirtæki þurfi að sækja um starfsleyfi og rekstrarleyfi á marga staði. Mikið hefur borið á kvörtunum atvinnurekenda um ósveigjanleg opinber kerfi, flókin og úrelt leyfisveitingarferli og óvinveitt umhverfi til rekstrar sem óháður alþjóðlegur samanburður staðfestir. Slíkt umhverfi hefur hamlandi áhrif á frumkvöðlastarfsemi. Betra væri ef frumkvöðlar gætu nýtt krafta sína í annað en að útfylla opinber plögg með tilheyrandi kostnaði. Reglubyrðin hefur að auki þróast í öfuga átt við það sem vera skyldi og hefur þyngst jafnt og þétt. Óþarfa flækjustig og íþyngjandi kvaðir draga úr hvata til fyrirtækjarekstrar og hindra framþróun.

Lausn: Draga ætti úr hömlum í regluverki sem ekki þjóna skýrum tilgangi og auðvelda mætti samskipti fyrirtækja við hið opinbera með einni samráðsgátt

Regluverk í þjónustutengdri starfsemi er stífara hér en í flestum öðrum OECD löndum og mun strangara en á hinum Norðurlöndunum.

Dæmi eru um að þjónustuveitendur þurfi jafnvel að afla sér leyfa á nokkrum mismunandi sviðum. Erlendir sérfræðingar, jafnvel frá EES, þurfa að auki að standast próf í íslensku. Slíkt fyrirkomulag torveldar atvinnurekstur og nýliðun og er ekki réttlætanlegt nema skýr ávinningur sé til staðar.

Yfirvöld eiga að einfalda regluverk og afnema reglur sem þjóna ekki skýrum tilgangi eða þegar unnt væri að ná fram markmiðum þeirra með skilvirkari hætti. Á þetta ekki síst við í byggingariðnaði og ferðaþjónustu eins og OECD hefur nýlega gert ítarlega úttekt á en þar fundust meira en 670 tækifæri til einföldunar regluverks. Hvetur OECD til þess að svipaðar úttektir fari fram í öðrum atvinnugreinum, sérstaklega landbúnaði og orkugeiranum, svo afnema megi óþarflega hamlandi regluverk.

Einfalda mætti alla stjórnsýslu – unnt  væri að fækka skrefum og auka rafræn samskipti við yfirvöld til muna. Leiðbeiningar til atvinnurekenda þurfa að vera skýrar. Ein samráðsgátt þar sem öll samskipti fyrirtækja fara fram myndi leysa margar óþarfa flækjur og draga úr kostnaði fyrirtækja, viðskiptavina og skattgreiðenda.

Áskorun: Eftirlit er óskilvirkt

Hlutfall stjórnenda í opinberri stjórnsýslu er nær tvöfalt hærra en á almennum markaði sem gefur til kynna tækifæri til að sameina stofnanir og ábyrgðasvið í stjórnsýslunni. Lengi hefur verið kallað eftir sameiningu eftirlitsstofnana enda ljóst að mikið óhagræði er fólgið í því að reka og halda úti fjölmörgum stofnunum þar sem verkefni skarast og kröfur eru misjafnar jafnvel landshluta á milli. Óskilvirkt eftirlit veldur óþarfa kostnaði fyrir atvinnulífið og þar með neytendur.

Lausn: Sameinumeftirlitsstofnanir og aukum getu þeirra til að sinna leiðbeiningarhlutverkisínu betur.

Tíu heilbrigðiseftirlitsumdæmi eru starfandi sem æskilegt væri að sameina í eina stofnun. Við getum ekki gert mismunandi kröfur til fyrirtækja eftir því hvar þau eru staðsett á landinu. Auk þess er sameining stofnana til þess fallin að styrkja þær til að sinna leiðbeiningarhlutverki sínu betur. Sameining stofnana hér á landi hefur gefist vel og víða eru tækifæri til sameiningar.

Áskorun: Langtímaatvinnuleysi fer vaxandi

Mikil og hröð aukning atvinnuleysis er ein alvarlegasta efnahagslega birtingarmynd heimsfaraldursins. Sú hætta er til staðar að þrálátt langtímaatvinnuleysi muni draga úr hagvexti til langs tíma. Langvarandi dregur úr færni fólks á vinnumarkaði og mikilvæg þekking getur glatast. Kostnaðurinn fyrir samfélagið er því mikið.

Lausn: Festum ráðningastyrki af atvinnuleysisskrá í sessi

Mikilvægt er að skapa rétta hvata til að sporna gegn langtímaatvinnuleysi. Átakið Hefjum störf er eitt af úrræðum stjórnvalda vegna heimsfaraldursins. Þaðfelst í því að veita ráðningarstyrk til fyrirtækja til að ráða fólk af atvinnuleysisskrá sem hefur verið lengi í atvinnuleit.  Svipað úrræði mætti festa í sessi til frambúðar sem fyrst og fremst miðast að því að skapa hvata atvinnurekenda til að ráða inn einstakling sem hefur verið á atvinnuleysisskrá í tólf mánuði eða lengur. Þannig er atvinnurekendum gert kleift að ráða inn starfsfólk með minni tilkostnaði en ella, en atvinnuleitendur fá tækifæri til að sækja sér þekkingar og reynslu sem þeir hefðu e.t.v. ekki fengið ella. Ávinningurinn er því gagnkvæmur.

Áskorun: Nýsköpun mælist minni en í öðrum iðnríkjum

Nýsköpun á sér stað í öllum greinum atvinnulífsins og gegnir lykilhlutverki í að sækja fram, auka verðmæti og hagvöxt. Til að fyrirtæki sjái hag sinn í því að fjárfesta og auka útgjöld til rannsóknar og þróunar þarf nýsköpunarvænt rekstrarumhverfi að vera til staðar. Mörg jákvæð skref hafa verið stigin í þá átt hérlendis að undanförnu en gögnin sýna að við þurfum að gera mun betur. Útgjöld til rannsóknar og þróunar eru minni hér en í mörgum iðnríkjum. Þá eru einkaleyfisumsóknir einnig færri hér en annars staðar þó leiðrétt sé fyrir íbúafjölda. Báðir þessi mælikvarðar bera vott um að umfang nýsköpunar og framþróunar sé minna á Íslandi en í þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við.

Lausn: Auðveldum aðgengi fyrirtækja að fjármagni og hæfu starfsfólki

Samkeppnishæft rekstrarumhverfi er forsenda nýsköpunar. Ryðja þarf úr vegi öllum óþarfa hindrunum sem eru til þess fallnar að draga úr hvata til fjárfestingar. Vaxtastig er almennt hærra en í nágrannaríkjum og aðgengi að lánsfjármagni oft erfitt. Þá er aðgengi að hlutafé einnig takmarkað m.a. því sparnaður landsmanna er að verulegu leyti bundinn í lífeyrissjóðum sem hafa takmarkaðar heimildir til áhættufjárfestinga. Þó að fjármagnsmarkaður hér á landi sé smár hefur Ísland engu að síður sett meiri hömlur á beina erlenda fjárfestingu en önnur lönd innan OECD. Ef við viljum státa af gróskumiklu frumkvöðlaumhverfi hér á landi verðum við að auðvelda aðgengi að hentugu fjármagni og hæfu starfsfólki. Aukin bein erlend fjárfesting gæti bætt úr hvoru tveggja. Eistland hefur þá yfirlýstu stefnu að hlúa að samkeppnishæfu fjárfestingarumhverfi með einföldu regluverki, hóflegri skattheimtu, stafrænni stjórnsýslu og litlum hömlum á erlenda fjárfestingu. Þar hefur bein erlend fjárfesting verið meiri en í öðrum ríkjum Evrópu.

Stofnun hópfjármögnunarvettvangs sem auðveldar þátttöku almennings í fjármögnun fyrirtækja, án þess að þau þurfi að undirgangast ströng skilyrði sem gilda um skráningu stærri og þroskaðari fyrirtækja á markað, myndi bæta verulega fjármögnunarumhverfi sprota. Slíkan vettvang má finna í Eistlandi og hann fer ört vaxandi.

Til að skilja betur þær áskoranir sem nýsköpunarfyrirtæki standa frammi fyrir mætti fylgja eftir tillögum um mælaborð nýsköpunar þar sem mælikvarðar á árangur nýsköpunarstarfs eru skilgreindir, teknir saman og birtir.

Þá geta samkeppnissjóðir eins og Tækniþróunarsjóður skipt sköpum fyrir frumkvöðla sem þurfa fjármagn og er mikilvægt að efla þá áfram. Að sama skapi væri jákvætt skref að festa í sessi hækkun á hlutfalli og þaki á endurgreiðslum vegna rannsókna og þróunar.