Heilbrigðismál

Notandann í fyrsta sæti
Ítarefni

Notandann í fyrsta sæti

Lífskjarasókn, hraðar tækniframfarir og breytt aldurssamsetning þjóðarinnar leiða af sér nýjar áskoranir í heilbrigðiskerfinu.

Nýta verður fjárframlög ríkisins með sem hagkvæmustum hætti með því að nýta samkeppni um veitingu sjúkraþjónustu að uppfylltum kröfum um magn, gæði og verð. Sjúkratryggingar Íslands og Embætti landlæknis ber að hafa eftirlit með gæðum og fylgjast með að heilbrigðiskerfið sé skilvirkt. Tryggja þarf að greiðslukerfi mismuni ekki rekstrarformum, þ.e. að fyrirtæki og stofnanir sitji við sama borð. Nú þegar eru heilbrigðisgjöld hins opinbera á Íslandi einna hæst á Norðurlöndunum þegar leiðrétt hefur verið fyrir aldurssamsetningu og því er krafan um betri nýtingu fjárframlaga ríkisins afar brýn. Langtímaáætlun ríkisfjármála gerir ráð fyrir að þessi kostnaður muni aðeins koma til með að aukast á komandi árum og áratugum.

Áskoranir næstu áratuga munu snúa að því hvernig íslenskt samfélag getur lagað sig að breyttum aðstæðum, boðið upp á framúrskarandi heilbrigðisþjónustu án þess að skerða þjónustu eða stórauka kostnað almennings af því að njóta hennar. Þessi þróun er þegar hafin og ýmsar jákvæðar breytingar að raungerast nú þegar. SA leggja til nýja nálgun með breyttum áherslum í íslensku heilbrigðiskerfi.  Í tillögunum felast fimm stef sem eru:  

  • Notandann í fyrsta sæti. Skýr réttur og fjármögnun.  
  • Samningar um alla heilbrigðisþjónustu
  • Einstaklingsmiðuð heilbrigðisþjónusta við hæfi
  • Stafræn heilbrigðisþjónusta
  • Forvarnir í fyrirrúmi
Í öllum tillögum og hugmyndavinnu er gengið út frá eftirfarandi þáttum:
  • Sambærileg fjármögnun. Sambærileg fjármögnun fyrir sömu tegund heilbrigðisþjónustu
  • Jafnt aðgengi: Tryggja þarf jafnt aðgengi allra sjúkratryggðra að heilbrigðisþjónustu óháð efnahag.
  • Gæðaviðmið: Skýr og mælanleg viðmið um gæði og öryggi allra veitenda heilbrigðisþjónustu
  • Markviss innkaup: Markviss kaup ríkisins á heilbrigðisþjónustu
Almennar áskoranir þegar kemur að heilbrigðismálum eru einkum tvær:
  • Lýðfræðilegar áskoranir: Breytt aldurssamsetning þjóðarinnar
  • Lýðheilsuáskoranir: Breyttir lifnaðarhættir og lýðheilsuógnir

Áskorun: Óljóst er hvaða heilbrigðisþjónustu hið opinbera fjármagnar. Ósamræmi er í fjármögnun og samningagerð.

Óskýr markmið og viðmið hins opinbera um hvaða heilbrigðisþjónustu skuli niðurgreiða og hver megi veita þjónustuna koma niður á þjónustu við notendur. Kostnaður og fjárveitingar í heilbrigðiskerfinu eru oft ógagnsæjar og órökréttar. Ekki er samið um alla þjónustu og ósamræmi er í því hvernig fjármunum er úthlutað til ólíkra rekstraraðila. Þar sem gagnsæi er lítið er samanburður erfiður.Litlir hvatar eru til hagræðingar í starfsemi hjá opinberum aðilum sem ekki fá úthlutað fjármagni á verkefnabundnum grunni.

Lausn: Leyfum fjármagni ávallt að fylgja notanda. Skýrir samningar tryggja gæðaþjónustu með skilvirkum hætti.

Þarfir notenda heilbrigðisþjónustu þurfa ávallt að vera í forgrunni við stefnumótun yfirvalda. Stjórnvöld eiga að ákveða og leiða í lög hvaða heilbrigðisþjónustu skuli tryggja. Þá þarf að gera Sjúkratryggingum Íslands kleift að ráðast reglulega  í umfangsmiklar kostnaðar- og þarfagreiningar á þeirri heilbrigðisþjónustu sem stjórnvöld tryggja, sem og hafa virkt eftirlit með framkvæmd þeirra samninga sem til staðar eru.   Semja þarf um alla heilbrigðisþjónustu við þá sem hana veita óháð rekstrarformi þjónustuaðila, enda sé notandinn ávallt í forgrunni. Þannig eru sambærileg fjármögnun og jafnt aðgengi notenda tryggð fyrir sömu tegund heilbrigðisþjónustu. Mikilvægt er að heilbrigðisráðuneytið fylgi því eftir að veitendur heilbrigðisþjónustu uppfylli skýr viðmið um gæði og öryggi þjónustunnar og að sömu viðmið eigi við um alla rekstraraðila.

Áskorun: Óvissa ríkir um eðlileg viðmið varðandi biðtíma sjúklinga

Engin skýr viðmið eru til staðar um ásættanlegan biðtíma eftir heilbrigðisþjónustu. Viðmiðunarmörk um biðtíma sem Embætti landlæknis setti á árinu 2016 hafa ekki lagalegt gildi og engar upplýsingar hafa verið birtar um hvernig veitendum heilbrigðisþjónustu hefur tekist til að standast þessi viðmið.

Lausn: Lögfestum viðmiðunarmörk biðtíma með þjónustutryggingu

Til að tryggja ásættanlegan biðtíma eftir þjónustu þarf að lögfesta viðmiðunarmörk líkt og gert hefur verið í Svíþjóð. Jafnframt er mikilvægt að leiða í lög að ef þjónustuveitandi sjái sér ekki kleift að veita þjónustu innan þessa tímamarka beri honum að tilkynna notandanum það og bjóða honum þjónustu hjá öðrum aðila án viðbótarkostnaðar fyrir notandann. Setja þarf á laggirnar gagnvirkan gagnagrunn þar sem almenningi stendur til boða að afla sér upplýsinga um biðtíma hjá öllum veitendum heilbrigðisþjónustu. Gagnagrunnurinn yrði samtengdur við Heilsuveru þar sem notandanum stæði til boða að sjá biðtíma eftir þjónustu og að bóka tíma hjá þeim veitanda heilbrigðisþjónustu sem honum hugnast.

Áskorun: Óskilgreind viðmið leiða af sér óhagræði og sóun

Óljós skilaboð og skortur á skilgreindum viðmiðum leiða of oft til þess heilbrigðisþjónusta er ekki veitt á viðeigandi þjónustustigi. Í því getur falist óhagræði og sóun auk þess sem hætta skapast á því að notendur þjónustu falli á milli í kerfinu. Eftirsóknarvert er að veita ætíð þjónustu við hæfi, á viðeigandi þjónustustigi, byggt á heilsufari, sjúkdómsástandi og réttindum.

Lausnir: Höggvum á hnúta í heilbrigðiskerfinu, þróum ný úrræði, eflum heimahjúkrun og notkun á stafrænum lausnum.

Mikilvægt er að halda áfram að efla og bæta heilsugæsluna svo sjúklingar leiti til hennar fremur en bráðamóttökunnar (aðflæðisvandinn). Tryggja þarf að sjúklingur fái þjónustu við hæfi að lokinni sjúkrahúsvist til að endurhæfing geti hafist sem fyrst (fráflæðisvandinn). Með því að stórefla heimaþjónustu og heimahjúkrun þá geta sjúklingar búið sjálfstætt eins lengi og þeir geta. Mikilvægt er að tryggja að eldri borgarar fái þjónustu við hæfi. Stórauka þarf áherslu á þróun stafrænna lausna sem nái til allra kima heilbrigðiskerfisins. Tryggja þarf samræmd kerfi eftir því sem kostur er og gott flæði upplýsinga. Sameina Heilsuveru og gáttir Sjúkratrygginga í eina gátt með yfirliti yfir sjúkrasögu, réttindi, lyfseðla o.s.frv. Á slíkri gátt ættu sjúklingar að hafa fullt yfirlit yfir alla heilbrigðisþjónustu sem þeir hafa sótt og hversu mikið er greitt af hinu opinbera.