Menntamál

Ný nálgun í breyttu samfélagi

Þróun samfélagsins og ör tækniþróun krefjast nýrrar nálgunar í menntamálum. Kröfur um þekkingu og færni í atvinnulífinu taka því sífelldum breytingum. Þessum kröfum verður að mæta á sama tíma og almenn grunnfærni þarf að vera til staðar. Þróun menntakerfisins verður að taka til efnis námsins ekki síður en til formsins; draga þarf úr miðstýringu í rekstri menntakerfisins svo virkja megi krafta samkeppni og nýsköpunar betur í skólastarfi. Framlög hins opinbera til málaflokksins í heild eru hlutfallslega meiri hér en annars staðar á Norðurlöndum en árangurinn er ekki eftir því miðað við niðurstöður staðlaðra prófa.

Öllu heilli hefur lífaldur lengst samhliða aukinni velmegun og virðist óhjákvæmileg afleiðing þess vera lengri starfsævi. Ekki síst þess vegna verða fjölbreyttir möguleikar til endurmenntunar stöðugt mikilvægari. Ljóst er að leita þarf annarra lausna en eingöngu aukins fjármagns frá hinu opinbera til þess að öflugt og framsækið menntakerfi verði rekið hér á landi sem skilar hæfum og vel undirbúnum einstaklingum út í atvinnulífið.

Áskorun: Of mikil miðstýring er í íslensku skólakerfi

Mikil miðstýring skólakerfisins hér á landi aftrar mikilvægu nýsköpunarstarfi þegar kemur að hönnun námsefnis. Ör tækniþróun hefur leitt til gjörbreytts umhverfis nemenda sem hefur ekki endurspeglast með sama hraða í skólastarfi og námsefni. Takmarkað sjálfstæði skóla dregur úr fjölbreytni, samkeppni og möguleikum stjórnenda og kennara til að beita skapandi nálgunum í kennslu.

Lausn: Leyfum fjármagni að fylgja nemanda. Aukum sjálfstæði og sveigjanleika skóla og stuðlum að aukinni fjölbreytni og valfrelsi.

Með auknu valfrelsi nemenda og svigrúmi stjórnenda öðlumst við möguleika til að prófa okkur áfram til að sjá hvers konar aðferðir henta mismunandi hópum nemenda best. Skapa þarf umgjörð um íslenskt menntakerfi sem hvetur til skapandi nálgunar og fjölbreytileika í skólastarfi.

„Námsárangur nemenda er betri og auðveldara er að fá hæfa kennara í krefjandi bekki þar sem stjórnendur hafa meira svigrúm til að semja um ábyrgð, vinnuskilyrði og laun kennara.“

Þetta er meðal þess sem kemur fram í skýrslu OECD þar sem niðurstöður kennarakannana PISA 2006 og 2015 voru greindar. Opinberir skólar lenda að lokum á vegg gagnvart kjarasamningum kennara, lagaumhverfinu eða sveitarfélögunum á sama tíma og sjálfstætt starfandi skólar hafa svigrúm til annarrar nálgunar varðandi marga þætti sem þessu tengjast. Aukið sjálfstæði skóla bætir gæði náms og eykur fjölbreytni í atvinnumöguleikum kennara.

Með hliðsjón af þessum tækifærum þarf að auka áherslu á fjölbreytt rekstrarform í skólastarfi þar sem grundvallarreglan er að fjármagn fylgir nemenda. Þá er mikilvægt að ríkið, sveitarfélögin og Kennarasamband Íslands skoði leiðir til að auka megi sjálfstæði opinberra skóla. Aukinn sveigjanleiki í  vinnutímaskilgreiningum og öðrum þáttum í kjarasamningum kennara skapa grundvöll fyrir öflugara þróunarstarfi, t.d. hvað varðar starfshætti kennara og skipulag í skólastarfi.

Áskorun: Þróun menntakerfisins endurspeglar ekki færniþarfir framtíðar

Með aukinni stafvæðingu á öllum sviðum samfélagsins gera fyrirtæki auknar kröfur um svokallaða STEM-færni (e. Science, Technology, Engineering and Mathematics). Um 90% starfa þarfnast stafrænnar færni, en í Evrópu er áætlað að aðeins 63% vinnuaflsins búi yfir slíkri færni.  Reynslan sýnir að hlutfall þeirra sem starfa á vinnumarkaði með bakgrunn í STEM greinum hefur forspárgildi um það hvernig þjóðir munu standa sig í nýsköpun. Geta þjóðarbúsins til að nýta krafta nýsköpunar á komandi árum og áratugum mun því meðal annars ráðast af aðgengi fyrirtækja að sérfræðiþekkingu en skortur á henni getur hindrað vöxt þeirra.

Lausn: Uppfærum áherslur á öllum skólastigum í takt við þarfir nútímans með auknu framboði menntunar á sviði tækni og nýsköpunar og möguleikum á starfsnámi

Auka mætti áherslu á raun- og tæknigreinar í grunnskólum og efla nýsköpunar- og frumkvöðlamenntun á öllum skólastigum. Aukin tengsl menntakerfis og atvinnulífs, svo sem með möguleikum á starfsnámi hjá hátækni- og nýsköpunarfyrirtækjum, fæli í sér gagnkvæman ávinning nemenda og fyrirtækja. Sýnileiki skóla varðandi frammistöðu á öllum námssviðum myndi leiða til aukinnar samkeppni milli skóla byggða á gæðum náms. Slíkur sýnileiki myndi einnig gagnast í mati á því hvers konar kennsluaðferðir gefast best á hverju sviði. Þá er mikilvægt að stuðla að auknu svigrúmi skóla til að bjóða blandaðar leiðir í námi, til að mynda í tengslum við starfsnám.

Áskorun: Ekki er komið nægilega vel til móts við breytta samfélagsgerð, svo sem stækkandi hóp aðfluttra

Með breyttri samfélagsgerð verða til nýjar áskoranir í menntakerfinu. Árangur nemenda í íslensku menntakerfi verður ekki bættur ef stórir hópar sitja eftir, en hlutfall nemenda í leik- og grunnskóla með erlent móðurmál fer sífellt hækkandi. Löng sumarleyfi hafa komið sérstaklega illa við þá sem höllum fæti standa varðandi námsárangur, þá sem ekki hafa íslensku sem móðurmál og þá sem ekki hafa tök á að sækja námskeið eða annað skipulagt starf yfir sumartímann.

Einnig ber að hafa í huga að umönnunarbilið eftir að fæðingarorlofi lýkur og þar til börn fá inngöngu í leikskóla getur varað í allt að 18 mánuði. Dagvistunarúrræði sem í boði eru áður en leikskólaganga hefst eru jafnframt mismunandi milli sveitarfélaga. Dæmi eru um að ekki séu neinir dagforeldrar í boði í einhverjum sveitarfélögum.

Þrátt fyrir að sífellt fleiri sveitarfélög veiti börnum aðgang að leikskólum við 12 mánaða aldur þurfa sum börn í mörgum stærstu sveitarfélögunum að bíða til 24 mánaða aldurs og jafnvel lengur. Þessi vandi kemur sérstaklega illa við aðflutta, aðra með takmarkað stuðningsnet og tekjulága foreldra.  

Lausn: Bætum þjónustu við þá sem eru með takmarkað stuðningsnet með því að efla íslenskukennslu, stytta sumarfrí og brúa umönnunarbilið

Til að stuðla megi að jöfnum tækifærum óháð efnahag, móðurmáli og félagslegum aðstæðum þarf að efla íslenskukennslu á öllum skólastigum og brúa umönnunarbilið sem myndast þegar fæðingarorlofi lýkur.

Börn aðfluttra eiga takmarkaða möguleika á stuðningi með íslenskunám heima fyrir en aukin færni í íslensku gagnast bæði nemendum til frekara náms og fólki á vinnumarkaði sem vill auka möguleika á framþróun í starfi.

Þar sem frídagar skóla eru jafnan fleiri en fjöldi orlofsdaga í atvinnulífinu þurfa foreldrar oft að gera sérstakar ráðstafanir til að brúa bilið. Með fjölgun kennsludaga um 17 á ári, án lengingar skóladagsins, kæmust íslenskir nemendur á svipað ról og norrænir jafnaldrar þeirra hvað fjölda kennsludaga varðar. Sumarfríið, sem nú er um 10,5 vikur, yrði þá 7 vikur sem myndi leysa þennan vanda að hluta.

Þá hefur umönnunarbilið sem myndast oft í kjölfar fæðingarorlofs verið úrlausnarefni um nokkra hríð. Enn er úrbóta krafist þar sem biðlistar eru enn langir og of mörg dæmi þess að börn fái ekki leikskólavistun fyrr en við tveggja ára aldur. Farsæl úrlausn slíkra mála myndi stuðla að jafnari tækifærum foreldra til náms og vinnu, sem væri börnum, foreldrum og atvinnulífinu til hagsbóta.