Sjálfbær þróun

Efnahagur og umhverfi eru órjúfanleg heild

Sjálfbær þróun felst í ,,að mæta þörfum nútímans án þess að aftra kynslóðum framtíðar að mæta sínum eigin þörfum.“ – Brundtland skýrslan, 1987.  

Auðlindir eru takmarkaðar og jafnvægi á milli samfélags, náttúru og efnahags er forsenda fyrir áframhaldandi hagsæld. Staðsetning, saga, menning og náttúruímynd Íslands, auk grunninnviða orkuframleiðslu setja okkur í kjörstöðu til þess að ná árangri þegar kemur að sjálfbærum lifnaðar- og atvinnuháttum. Aðkoma atvinnulífsins skiptir hér sköpum þar sem horfa þarf til nýsköpunar og fjárfestingatækifæra. Með sjálfbæra þróun að leiðarljósi getur íslenskt atvinnulíf verið leiðandi afl á heimsvísu á þessum sviðum.

Til að tryggja næga græna orku til atvinnuuppbyggingar framtíðar þarf hins vegar skýrari stefnu yfirvalda þegar kemur að nýtingu orkukosta og uppbyggingu innviða. Til að stuðla að mikilvægum umbótum hjá fyrirtækjum nútímans þarf hagræna hvata til fjárfestinga í grænum lausnum.

Áskorun: Skortur á grænni orku kemur niður á tækifærum til sjálfbærrar þróunar

Ísland er í öfundsverðri stöðu þegar kemur að orkuframleiðslu sem byggir á sjálfbærri nýtingu vatnsafls og jarðvarma auk möguleika til nýtingar vindorku. Orkuskipti, fólksfjölgun og ný atvinnustarfsemi mun krefjast aukinnar orkuframleiðslu þegar fram í sækir. Auðvelt er að sjá fyrir sér framtíð þar sem endurnýjanlegir orkugjafar knýja allar samgöngur, en innviði skortir til að sú framtíðarsýn megi raungerast. Horfa þarf á heildarmyndina svo Ísland geti tileinkað sér hringrásarhagkerfi sem stuðlar að endurnýtingu auðlinda og grænum hagvexti.

Lausn: Tryggjum uppbyggingu innviða fyrir græna orku til atvinnuuppbyggingar um allt land

Sjónarmið yfirvalda um náttúruvernd mega ekki leiða til þess að möguleikar til grænnar orkuframleiðslu séu takmarkaðir um of. Slíkt ynni gegn markmiði um vernd náttúrunnar til lengri tíma litið. Sérstaða landsins í orkumálum býður upp á margvísleg tækifæri til að setja fram aðgerðaráætlun sem styður við hringrásarhagkerfi, náttúruvernd og markmið um kolefnishlutleysi. Innviðafjárfestingar, með auknum samvinnuverkefnum hins opinbera og einkaaðila svo þörfum atvinnulífs sé betur mætt, stuðla að skilvirkari nýtingu auðlinda og aukinni verðmætasköpun.

Áskorun: Loftlagsvandinn verður ekki leystur með frekari skattlagningu

Grænir skattar eru hannaðir með það eitt að leiðarljósi að hvetja til breyttrar hegðunar en ekki til tekjuöflunar fyrir hið opinbera, enda skila þeir takmörkuðum skatttekjum til framtíðar ef tilætluðum árangri er náð. Árlega innheimtir ríkissjóður um 60 milljarða króna í græna skatta, tekjur sem ekki eru markaðar ákveðnum útgjaldaliðum tengt umhverfismálum. Loftslagsvandinn verður ekki leystur með aukinni skattlagningu og sektum. Takmarka þarf bæði íþyngjandi kvaðir og samkeppnishamlandi regluverk en um leið endurskoða eftirlit og leyfisveitingar á þessu sviði.

Lausn: Sköpum hagræna hvata þannig að fjármagn leiti í grænar og sjálfbærar lausnir.

Tryggja þarf aukið gagnsæi og birta bókhald yfir tekjur og ráðstöfun grænna skatta til að tilgangur og markmið skattheimtunnar sé skýr. Hagrænir hvatar þurfa að koma til þar sem aðkoma atvinnulífsins leikur lykilhlutverk. Mikilvægt er að fjármagn rati í réttan farveg. Ný löggjöf, breyttir framleiðsluhættir og auknar kröfur um vistvænar vörur og þjónustu, sem styðja markmið um hringrás hráefna er í mikilli sókn um allan heim og einkennir nýjan raunveruleika fyrirtækja. Þröskuldurinn getur reynst hár og breytingar kostnaðarsamar fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki og því er mikilvægt að stjórnvöld styðji atvinnulífið í aðgerðum sínum í átt að sjálfbærni. Þá þurfa yfirvöld að sinna leiðbeiningarhlutverki sínu af kostgæfni svo fyrirtæki eigi auðveldara með að aðlaga sig að nýjum veruleika sem snýr að lögum og regluverki. Mikilvægt er að lög og reglur taki mið af aðstæðum hér á landi og skerði ekki samkeppnisskilyrði íslensk atvinnulífs . Stjórnvöld hafa einnig tækifæri til að draga úr kostnaðarsömu opinberu eftirliti samhliða auknu innra gæðastarfi fyrirtækja.

Hanna þarf skynsamlega hvata til að fjárfestar og lánveitendur setji fjármuni í grænar og sjálfbærar lausnir með það að markmiði að ýta undir kolefnishlutlaust hagkerfi. Þessu er hægt að ná fram meðal annars með hvötum til útgáfu grænna verðbréfa.

Heimild