Vinnumarkaðurinn

Hornsteinn hagstjórnar
Ítarefni

Hornsteinn hagstjórnar

Laun og tengd gjöld eru ríflega 60% af allri verðmætasköpun í landinu og hvergi innan OECD er hlutfallið hærra. Samningar um kaup og kjör gegna mikilvægu hlutverki um þróun efnahagsmála. Launahækkanir umfram aukningu verðmæta í atvinnulífinu leiða til verðbólgu, veikingu gengis krónunnar og hærri vaxta.

Ábyrg hagstjórn er forsenda efnahagslegs stöðugleika og betri lífskjara. Vinnumarkaðurinn sem þriðji armur hagstjórnar verður að sýna ábyrgð og festu því annars er stefnu ríkisfjármála og peningamála ógnað. Endurbætur þurfa að eiga sér stað á kjarasamningslíkaninu sem stuðlar að þjóðhagslegum stöðugleika.

Mikið er í húfi enda hvergi hærra hlutfall launafólks í stéttarfélögum en á Íslandi, eða rúmlega 90%. Næst komast önnur Norðurlönd þar sem samsvarandi hlutfall er 50-65%, en í flestum öðrum ríkjum er hlutfallið mun lægra. Það hlýtur að vera sameiginlegt markmið aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda að betri lífskjör hvíli á efnahagslegum stöðugleika og samkeppnishæfu atvinnulífi. Nýtt vinnumarkaðslíkan er almannagæði.

Áskorun: Íslensk launastefna ógnar stöðugleika

Á síðustu tveimur áratugum hafa launahækkanir hér á landi verið allt að þrefalt meiri en annars staðar á Norðurlöndum, verðbólga fjórfalt meiri og vaxtastig fimmfalt hærra. Árangri sem náðst hefur til að bæta lífskjör launafólks hefði verið hægt að ná með mun minni launahækkunum sem skapað hefðu aðstæður fyrir mun minni verðbólgu og þar af leiðandi lægra vaxtastig. Minna hefði orðið meira.

Lausn: Útflutningsgreinar ættu að leiða launastefnuna

Mikilvægt er að við samningagerð sé gengið út frá stöðu útflutningsgreina þannig að staðinn sé vörður um samkeppnishæfni þjóðarbúsins. Á Norðurlöndunum byggja kjarasamningar á því að útflutningsgreinar gefi merkið, sem felst í því að óformlegt samkomulag er meðal aðila vinnumarkaðar og stjórnmála um að samningsaðilar í útflutningsgreinum geri fyrstu kjarasamninga í hverri samningalotu. Önnur samningssvið fylgja tóninum sem þar er sleginn.

Áskorun: Óskilvirk kjarasamningsgerð skapar tjón í samfélaginu

Á Íslandi er nær óþekkt að kjarasamningar séu endurnýjaðir strax í kjölfar þess síðasta. Algengt er að allt að hálft ár frá því stefnumarkandi samningar á almennum vinnumarkaði renna út þar til samkomulag næst um endurnýjun þeirra.

Lausn: Skilvirk vinnubrögð við gerð kjarasamninga draga úr óvissu og kostnaði

Nauðsynlegt er að setja vinnubrögðum við kjarasamningsgerð fastari skorður  til að draga úr miklum og óþörfum samfélagskostnaði sem samningsgerðinni fylgir. Á Norðurlöndunum eru stefnumótandi kjarasamningar endurnýjaðir skömmu áður en þeir renna út og í kjölfar þeirra eru langflestir aðrir kjarasamningar endurnýjaðir á örfáum vikum. Fjöldi kjarasamninga og fjöldi mála sem vísað er til ríkissáttasemjara er áþekkur á Íslandi og í Noregi, en norski vinnumarkaðurinn er 15 sinnum fjölmennari en sá íslenski.

Áskorun: Höfrungahlaup einkennir íslenska vinnumarkaðinn

Undanfarna áratugi hefur reglan verið sú að í upphafi  hverrar lotu hafa Samtök atvinnulífsins og landssambönd ASÍ gert stefnumarkandi kjarasamninga, sem ná til flestra atvinnugreina, og mótað launastefnu sem gengið hefur verið út frá að aðrir samningsaðilar fylgi. Í framhaldinu hefur hins vegar tekið við langt tímabil þar sem mikill fjöldi stéttarfélaga, einkum opinberra starfsmanna, reynir með öllum ráðum að knýja fram meiri launahækkanir en felast í markaðri launastefnu.

Lausn: Eflum embætti ríkissáttasemjara og tryggjum samstöðu um að fylgja launastefnunni

Ríkissáttasemjari á Íslandi hefur ekki þau úrræði sem sáttasemjarar í Danmörku, Noregi eða Svíþjóð hafa til að tengja hópa saman eða fresta aðgerðum. Slík úrræði eru mikilvægur þáttur í stöðugleika á norrænum vinnumarkaði. Almenn samstaða þarf að ríkja um að embætti ríkissáttasemjara leggi ekki fram tillögur til lausnar á deilum sem fara umfram gefið merki. Með því yrði dregið úr höfrungahlaupinu en miklu meira þarf til að koma svo það heyri sögunni til.

Áskorun: Mörg en fámenn stéttarfélög ýta undir ósamstöðu

Hætta á höfrungahlaupi skapast þegar viðsemjendur eru margir og félögin fámenn. Sveitarfélög eru veikasti hlekkurinn í samningakeðjunni. Sveitarfélög ættu undir venjulegum kringumstæðum að hafa einn viðsemjanda, bæjarstarfsmannafélagið, en viðsemjendur eru 80 sem stendur. Höfrungahlaup á vinnumarkaði er afleiðing kjarasamningaumhverfisins. Því er hægt að breyta ef viljinn er fyrir hendi.

Lausn: Fækkum stéttarfélögum og veitum stærri einingum meiri ábyrgð

Löggjöf þarf að stuðla að verulegri fækkun samningsaðila og kjarasamninga. Útséð er um að slík þróun verði af sjálfu sér. Þannig verði gert að skilyrði að stéttarfélög, með þeim réttindum sem lög veita þeim, séu landsfélög og innan þeirra verði starfrækt landshlutafélög ef þörf er talin á því. Setja verður skilyrði um lágmarks félagsmannafjölda stéttarfélaga. Sama ætti að gilda um kjarasamninga, þeir verði að ná til tiltekins lágmarksfjölda félagsmanna stéttarfélags. Fækkun viðsemjenda ríkis og sveitarfélaga og afnám stéttarfélaga sem taka einungis til ákveðins landshluta myndi draga verulega úr hættunni á höfrungahlaupi.