Efnahagsmál

Öflugt atvinnulíf eykur velsæld
Ítarefni

Öflugt atvinnulíf eykur velsæld

Eftir kórónukreppuna er verkefnið að koma aftur á stöðugleika og sjálfbæru ástandi í hagkerfinu og fjármálum hins opinbera. Skarðið sem höggvið var í landsframleiðsluna mun fela í sér aukið atvinnuleysi og viðvarandi hallarekstur með aukinni skuldsetningu ríkissjóðs. Í því felst áhætta og kostnaður fyrir komandi kynslóðir. Þær kynslóðir munu kljást við sínar eigin áskoranir, meðal annars vegna lýðfræðilegrar þróunar en fyrirséð er að sífellt færri vinnandi hendur munu koma til með að standa undir rekstri hins opinbera.

Efnahagsleg áföll sýna okkur fram á mikilvægi þess að búa yfir fjölbreyttum stoðum í atvinnulífinu og því er mikilvægt að styrkja nýja atvinnuvegi og útflutningsgreinar til muna. Til að bæta lífskjör til framtíðar og fjölga störfum þarf að auka framleiðni og nýta fjármuni hins opinbera betur svo draga megi úr þörf fyrir íþyngjandi skattheimtu. Við búum í haginn fyrir öflugra atvinnulíf með því að ryðja úr vegi óþarfa hindrunum í rekstrarumhverfi fyrirtækja, einfalda regluverk og lækka skatta.

Áskorun: Efnahagslegur óstöðugleiki hamlar blómlegu atvinnulífi

Ein forsenda bættra lífskjara er efnahagslegur stöðugleiki. Forsenda stöðugleika er samstillt hagstjórn allra þriggja arma hagstjórnar; hins opinbera, Seðlabankans og aðila vinnumarkaðar. Efnahagslegur óstöðugleiki er að miklu leyti heimatilbúinn vandi en birtingarmynd hans er hærra vaxtastig en vera þyrfti. Launabreytingar hafa oft verið úr takti við verðmætasköpun og því ekki samrýmst verðstöðugleika. Aga hefur skort í fjármálum hins opinbera þar sem útgjöld hafa vaxið ár frá ári og magnað hagsveifluna. Seðlabankinn hefur því þurft að bregðast við með hækkun vaxta til að stuðla að verðstöðugleika.  

Lausn: Þriggja arma ábyrg hagstjórn stuðlar að hóflegu vaxtastigi og stöðugu verðlagi

Samstillt hagstjórn stuðlar að minni gengissveiflum, stöðugara verðlagi og þar með lægra vaxtastigi. Aðilar vinnumarkaðar leika þar mikilvægt hlutverk en innistæðulausar launahækkanir brjótast iðulega fram í verðbólgu og gengisfalli og/eða auknu atvinnuleysi. Nýtt kjarasamningslíkan sem tekur mið af verðmætasköpun er hagur allra. Tryggja þarf að fjármálastefna hins opinbera magni ekki hagsveifluna – að hún feli í sér aðhaldssama fjármálastjórn á tímum uppgangs en tilslakanir í niðursveiflu. Núverandi afkomuregla hins opinbera gerir það ekki. Þetta má leysa með hagsveifluleiðréttri afkomureglu eða útgjaldareglu. Með ábyrgri stjórn ríkisfjármála og breyttum vinnubrögðum hjá aðilum vinnumarkaðar þarf Seðlabankinn síður að takast á við efnahagslegan veruleika með hækkun vaxta.

Áskorun: Útgjaldavöxtur og skuldasöfnun ríkis og sveitarfélaga er ósjálfbær

Fjármunir hins opinbera eru takmarkaðir á meðan borgararnir gera ríka kröfu um fjölbreytta þjónustu og almannatryggingar. Áætlanir gefa til kynna að á næstu árum muni vanta mikla fjármuni inn í reksturinn og að skuldsetning fari því vaxandi. Hvergi innan OECD eru umsvif hins opinbera þó meiri en hér. Eftir því sem umsvif hins opinbera vaxa og kröfur um þjónustu aukast verða skilvirkni, hagkvæmni og árangursmælingar nauðsynlegri fyrir ábyrga nýtingu opinbers fjár. Flest OECD ríki eru komin mun lengra en Ísland þegar kemur að árangurstengingu ríkisfjármála, sem felst í því að meta skipulega árangur af útdeilingu fjármuna. Frá árinu 2000 hafa útgjöld hins opinbera, að fjármagnsgjöldum undanskildum, aukist um 1.350 þúsund krónur eða 58% á mann að raunvirði. Vitum við hvort árangurinn er eftir því?

Lausn: Ný nálgun í opinberum rekstri tengir opinber útgjöld við árangur

Hagræðing hjá hinu opinbera er ein forsenda þess að jafnvægi náist í ríkisfjármálunum. Til að forðast hagvaxtarletjandi skattahækkanir eða sársaukafullan niðurskurð þarf að nýta opinbert fé betur. Innleiðum kerfislægt hugarfar sem leggur áherslu á hvað fæst fyrir opinbert fé, fremur en hversu mikið fé er hægt að fá. Árangurstengd fjárlagagerð tekur beint tillit til þess í hvað fjármunirnir eiga að fara, markmið nýtingar fjármunanna er skilgreint og árangur er mælanlegur. Árangurstenging felur þannig í sér aukið gagnsæi, skýrari ábyrgð stjórnmála- og embættismanna og meiri hagkvæmni þegar kemur að meðförum opinbers fjár. Samkvæmt lögum um opinber fjármál ber ráðherrum að móta stefnu fyrir málefnasvið og málaflokka þar sem markmiðum, áherslum, ábyrgð og nýtingu fjármuna er lýst ítarlega. Sú vinna er ekki nægilega langt á veg komin. Í könnun OECD árið 2018 kom að auki fram að Ísland var eitt sex landa af 33 OECD löndum þar sem ekki var búið að koma á fót útgjaldagreiningum í opinberum fjármálum. Hér liggja því tækifæri til umbóta.

Áskorun: Atvinnuleysi er mikið en hindranir standa atvinnusköpun fyrir þrifum

Gert er ráð fyrir miklu og viðvarandi atvinnuleysi á næstu árum með tilheyrandi kostnaði fyrir samfélagið. Sú hætta er fyrir hendi að mikilvæg þekking og reynsla glatist og að langtímaatvinnuleysi festi sig í sessi með neikvæðum áhrifum á hagvöxt til langs tíma. Uppsafnaður beinn kostnaður ríkissjóðs vegna aukins atvinnuleysis hleypur á um 200 milljörðum króna miðað við fjármálaáætlun til næstu fimm ára. Ísland er nú þegar háskattaríki í alþjóðlegum samanburði sem hamlar fjölgun starfa og ekki er fýsilegt að hækka skatta enn frekar til að vinna á fjárlagahallanum. Að auki eru mun fleiri hindranir í rekstrarumhverfi íslenskra fyrirtækja en gengur og gerist á Norðurlöndunum. Slíkt umhverfi hvetur ekki til atvinnuskapandi rekstrar.

Lausn: Auðveldum stofnun og rekstur fyrirtækja með einföldun regluverks og skattkerfis

Sjálfbær fjölgun starfa á sér stað á almennum vinnumarkaði en ekki hjá hinu opinbera. Til þess að atvinnusköpun geti átt sér stað þarf að tryggja fyrirtækjum umhverfi sem stenst alþjóðlega samkeppni. Afnema þarf hindranir í rekstrarumhverfi svo sem hvað varðar stofnun fyrirtækja, leyfisveitingar og erlenda fjárfestingu eins og OECD hefur gert ítarlega úttekt á í ferðaþjónustu og byggingariðnaði. Einföld og gagnsæ skattastefna er annar lykilþáttur í átt að markmiði um eftirsóknarvert rekstrarumhverfi.

Áskorun: Öldrun þjóðar þýðir að sífellt færri hendur munu standa undir samneyslunni

Íslenska þjóðin er enn ein sú yngsta innan OECD en spár gera ráð fyrir að hún eldist hratt og verði ein sú elsta meðal efnaðra ríkja við lok þessarar aldar. Eftir því sem þjóðir eldast fækkar þeim sem standa undir samneyslunni á sama tíma og útgjöld hins opinbera til ýmissa tengdra málefna aukast. Útgjöld til heilbrigðismála eru nú þegar mikil hér á landi í norrænum samanburði þegar tekið er tillit til aldurssamsetningar. Veita þyrfti þessum vandamálum aukið vægi og viðameiri umfjöllun í áætlunum. Kerfi hins opinbera þurfa að vera hönnuð með með tilliti til allra réttinda sem lofað hefur verið og að samtímis sé gætt að fjármögnun þeirra til lengri tíma litið.

Lausn: Aukin framleiðni er lykillinn að áframhaldandi lífskjarabata. Sveigjanleg starfslok og ný nálgun í menntamálum stuðla að aukinni atvinnuþátttöku.

Stefna í opinberum fjármálum þarf að taka mið af fyrirsjáanlegum breytingum. Til að gera færri höndum kleift að standa undir áframhaldandi lífskjarabata er aukin framleiðni grundvallarforsenda. Nýting tækniframfara gerist hins vegar ekki af sjálfu sér. Hið opinbera þarf að styðja vel við fjárfestingar og innleiðingar tæknilausna meðal annars með því að styrkja sprotastarfsemi, hvetja til atvinnuvegafjárfestingar og minnka hindranir í vegi erlendrar fjárfestingar. Halda þarf áfram á stafrænni vegferð á öllum sviðum opinberrar þjónustu til að auka skilvirkni í samskiptum við hið opinbera. Einnig væri unnt að stuðla að aukinni atvinnuþátttöku svo sem með sveigjanlegra fyrirkomulagi starfsloka og umbótum í menntakerfinu sem auðvelda starfsfólki að færast milli atvinnugreina.

Áskorun: Sveiflukenndur íbúðamarkaður eykur húsnæðiskostnað

Húsnæðismarkaður hér á landi hefur einkennst af miklum sveiflum. Til að bæta umhverfi húsnæðisuppbyggingar þarf að auka aðgengi  upplýsinga og stytta ferli skipulagsákvarðana. Skortur er á rauntímagögnum og þar með yfirsýn yfir ýmis málefni sem varða byggingar- og mannvirkjagerð, svo sem stöðu verkefna sem þegar eru í framkvæmd. Lóðaframboð er enn talið vera af skornum skammti. Að auki getur framkvæmdatími oft verið allt of langur vegna þess að leyfisveitingar eru óskilvirkar og þungar en tækniframfarir síðastliðinna áratuga virðast ekki hafa ratað inn í stjórnsýslu í byggingar- og mannvirkjagerð. Talsverðar verðhækkanir mælast nú á húsnæðismarkaði og gefa talningar og kannanir til kynna að skortur á íbúðarhúsnæði geti myndast í fyrirsjáanlegri framtíð. Íbúðarhúsnæði er grunnþörf og umbætur í málaflokknum varða almannahagsmuni.

Lausn: Tryggjum nægt lóðaframboð, skilvirkari ákvarðanir, einfaldara regluverk og skynsamlegri kröfur sem lækka byggingarkostnað og hraða framkvæmdum.

Til að bæta yfirsýn í málaflokknum þarf að koma húsnæðis-, byggingar- og skipulagsmálum fyrir í samgöngu- og sveitastjórnarráðuneyti þannig að auka megi skilvirkni ákvarðana hins opinbera sem snúa að uppbyggingu húsnæðis. Þá er unnt að bæta skilvirkni ferla til muna með aukinni áherslu á rafræna stjórnsýslu. Ótækt er að framkvæmdatími sé lengdur að óþörfu um marga mánuði með tilheyrandi kostnaði fyrir framkvæmdaraðila og þar með íbúðarkaupendur. Í nýlegri skýrslu OECD voru gerðar 316 tillögur til úrbóta á regluverki í byggingariðnaði, meðal annars hvað varðar þungt ferli skipulagsákvarðana sveitarfélaga, íþyngjandi kröfur og takmarkað lóðaframboð. Tilvalið væri að fylgja þeim tillögum eftir hið fyrsta.