Ný nálgun í menntamálum

Það er óásættanlegt að námsárangur nemenda í íslenskum grunnskólum sé lakari í samanburði við önnur Norðurlönd. Mikið brottfall nemenda á efri stigum náms er verulegt áhyggjuefni. Ör tækniþróun kallar á nýja nálgun í menntamálum. Leggja þarf áherslu á greinar sem endurspegla færniþörf framtíðar á sama tíma og grunnundirstöður eru styrktar. Ísland hefur alla burði til að reka framsækið og samkeppnishæft menntakerfi.

Nýtt frumvarp til fjárlaga gerir ráð fyrir að útgjöld til menntamála verði aukin um 6 ma.kr. á árinu 2021, meðal annars vegna áhrifa kórónuveirufaraldursins og aukinnar ásóknar í nám sökum versnandi atvinnuhorfa. Auknum fjármunum  verður varið til háskólastigsins í samræmi við þá stefnumörkun um að Ísland nái meðaltali OECD um fjármögnun fjárveitingar til háskólastigsins. Aukin útgjöld ættu þó aldrei að vera sjálfstætt markmið. Raunar ætti sífellt að leita leiða til að efla árangur með minni tilkostnaði og því ekki sjálfgefið að neikvætt sé að vera undir meðaltali OECD þegar kemur að útgjöldum til tiltekins málaflokks. Takmark menntakerfisins ætti fyrst og fremst að vera að bæta gæði náms og þar með námsárangur og atvinnutækifæri nemenda. Tryggja þarf að aukið fjármagn þjóni því markmiði og að árangur sé mælanlegur.

„Ríki sem hafa markað sér skýra stefnu um að fjárfesta í hugviti, rannsóknum og nýsköpun vegnar vel. Við höfum alla burði til að auka verðmætasköpun sem grundvallast á hugviti. Með því tryggjum við farsælan grunn að sterkara samfélagi,“
-Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.

Veturinn 2019 gáfu Samtök atvinnulífsins út skýrsluna Menntun og færni við hæfi. Þar eru 30 tillögur sem miða að því að bæta öll skólastig, framhaldsfræðslu og umgjörð menntamála.

Frjálsara flæði vinnuafls og ör tækniþróun leiða til grundvallarbreytinga á vinnumarkaði

Áður en farsóttin hófst áttu sér þegar stað þjóðfélagsbreytingar sem kalla á nýja nálgun í menntamálum. Vegna tæknibreytinga eru störf að hverfa og önnur að verða til. Vandinn er að þau sem gegna þeim störfum sem hverfa hafa ekki endilega þá færni sem þarf til að sinna þeim störfum sem verða til. Ný störf munu reyna á stafræna færni auk þeirrar færni sem ekki verður leyst með tölvum og tækni. Farsóttin og efnahagslegar afleiðingar hennar hafa flýtt nokkuð fyrir þessari þróun þannig að einstaklingar sem nú eru atvinnulausir snúa ekki endilega aftur í fyrri störf.

„Breytileg, huglæg verkefni sem krefjast dóm- og tilfinningagreindar, getu til að leysa vandamál, innsæis og sköpunargáfu, sem og líkamlegri verkefni sem krefjast mikillar aðlögunarhæfni eða samskipta við annað fólk, hafa enn ekki verið tæknivædd.”
-Ísland og fjórða iðnbyltingin.  Stjórnarráð Íslands, Forsætisráðuneytið.

Eflum íslenskunám aðfluttra

Þegar atvinnuleysi í september 2020 er skoðað sker hópur erlendra ríkisborgara sig úr, eins og jafnan áður, en hlutur erlendra ríkisborgara í heildaratvinnuleysi hefur farið vaxandi. Atvinnuleysi í september var 9% í heild en 20% meðal erlendra ríkisborgara. Eru þeir nú 42% atvinnulausra en það er 26 prósentustigum meira en þegar það var mest í kjölfar bankahrunsins. Reynslan úr frá efnahagshruninu 2008 sýnir að erlendir ríkisborgarar sem verða atvinnulausir snúa ekki til baka til upprunalands síns nema að litlu leyti. Reikna má með að sama verði upp á teningnum nú, enda gætir áhrifa faraldursins um allan heim og má búast við að atvinnutækifæri séu jafnvel enn færri í upprunalöndum þeirra. Vandi þessa hóps verður ekki leystur í gegnum hið formlega skólakerfi heldur mun fyrst og fremst reyna á framhaldsfræðslu. Í því samhengi má annars vegar nýta starfsmenntasjóði og fræðslusjóði en einnig getur Vinnumálastofnun komið að borðinu með fjölgun átaksverkefna. Þar yrði lögð áhersla á að auka almenna starfshæfni, færni atvinnulausra á þeim sviðum sem vinnumarkaður kallar á og íslenskunám.

Íslenskunám er sérlega mikilvægt fyrir launafólk af erlendum uppruna. Huga þarf að því hvernig hægt er að styðja og styrkja þennan hóp þegar kemur að atvinnuleit og þátttöku. Leita þarf leiða til að bjóða jafnt atvinnuleitendum sem og þeim sem þegar eru starfandi á vinnumarkaði færi á að stunda íslenskunám.

Einnig þarf að huga sérstaklega að börnum innflytjenda. Um 11% grunnskólabarna eru nú með erlent móðurmál. Ljóst er að góður árangur í lestri, sem er grundvöllur að öllu frekara námi, byggir að miklu leyti á góðum stuðningi heima fyrir. Foreldrar með erlent móðurmál eru ekki í jafngóðri stöðu til þess að veita slíkan stuðning. Því þarf skólakerfið að hlúa sérstaklega vel að þessum hópi.

„Við vit­um að krakk­ar sem tala tvö tungu­mál fá í flest­um til­fell­um ekki al­veg sams­kon­ar málþroska og börn sem læra bara eitt mál. Það er alltaf ein­hver mun­ur og við get­um sætt okk­ur við það enda kem­ur á móti að börn­in tala tvö mál. En mun­ur­inn á ekki að vera jafn mik­ill og hann er á Íslandi. Mun­ur­inn er slík­ur hér á landi að það er óviðun­andi líkt og kem­ur ber­lega í ljós þegar ár­ang­ur þeirra í sam­ræmd­um próf­um er skoðaður og töl­ur um brott­fall úr fram­halds­skól­um. Við meg­um ekki hugsa sem svo að óger­legt sé að breyta þessu því það er það alls ekki. Það er ger­legt en til þess þurfa að vera tæki­færi í skóla­kerf­inu og vilji meðal bæði skól­ans og heim­il­anna.“
-Elín Þöll Þórðardótt­ir, pró­fess­or í tal­meina­fræði við McG­ill-há­skól­ann í Montreal í Kan­ada

Styrkjum STEM-greinar með aukinni tengingu við atvinnulífið

Aukin krafa er meðal fyrirtækja um svokallaða STEM-færni (e. science, technology, engineering and mathematics) þ.e.a.s. færni á sviði vísinda, tækni, verkfræði og stærðfræði. Þessar greinar eru lykilþáttur í nýsköpun og því drifkraftur þess að hægt verði að skapa störf til framtíðar. Um 90% starfa þarfnast stafrænnar færni, en  í Evrópu er áætlað að búi aðeins 63% vinnuaflsins búi yfir slíkri færni. Aðeins um 13% grunnnáms á háskólastigi í Evrópu er á sviði verkfræði, en 23% í Asíu.

„Við eigum það til að ofmeta ávinning tækniframfara til skamms tíma en vanmeta til langs tíma."
-Ólafur Andri Ragnarsson, aðjúkt Háskólinn í Reykjavík

Nýsköpunargeta þjóðarbúsins á komandi árum og áratugum mun meðal annars ráðast af aðgangi fyrirtækja að sérfræðiþekkingu en skortur á henni getur hindrað vöxt þeirra. Á Íslandi er hlutfall tæknimenntaðra 16% af háskólamenntuðum en til samanburðar 21-30% á Norðurlöndunum. Mikilvægt er að huga að úrbótum í menntakerfinu meðal annars með því að:

  • Efla tengsl menntakerfis og atvinnulífs.
  • Auka möguleika nemenda á starfsnámi hjá hátækni- og nýsköpunarfyrirtækjum.
  • Útvíkkun á Starfsorku til nemenda eða uppbygging á sambærilegu úrræði þar sem fyrirtæki fá styrk á móti því að taka að sér nema og þjálfa í 3-6 mánuði.
  • Sértæk starfsnámsverkefni í samstarfi við fyrirtæki í tæknigeiranum; til dæmis 10-12 vikna verkefnamiðað starfsnám framhalds- og háskólanema hjá upplýsingatæknifyrirtækjum.
  • Auka framboð af sértækum námsleiðum sem þjóna íslensku atvinnulífi; gott dæmi er tölvuleikjanám hjá Keili.
  • Leggja áherslu á tækni- og raungreinar á grunnskólastigi.
  • Efla nýsköpunar- og frumkvöðlamenntun á öllum skólastigum.
Skattastefna sem skapar störf
Regluverk sem virkar
Endurhugsum opinberan rekstur
Græn viðspyrna
Nýtt vinnumarkaðslíkan