Regluverk sem virkar

Óþarflega íþyngjandi regluverk dregur úr hvata til atvinnustarfsemi og skerðir samkeppnishæfni. Tækifæri eru til umbóta á regluverki til einföldunar. Borðleggjandi er að ryðja úr vegi hindrunum sem hafa hamlandi áhrif á frumkvöðlastarfsemi.

Mikilvægt er að atvinnulífið búi við skýrar leikreglur og að almenningur sé varinn gegn ólögmætri háttsemi. Lagaumhverfi má þó ekki vera of íþyngjandi. Það eykur kostnað sem minnkar svigrúm til launagreiðslna og veikir samkeppnishæfni. Minni samkeppnishæfni leiðir til færri starfa og minni skatttekna sem gerir hið opinbera verr í stakk búið til að standa undir grunnþjónustu.

Lögð eru til fimm atriði til umbóta:

1. Sveigjanleg og rafræn kerfi í stað þungrar stjórnsýslu

Leyfisskylda er íþyngjandi hér á landi og dæmi um að fyrirtæki þurfi að sækja leyfi, s.s. starfsleyfi og rekstrarleyfi á ólíka staði, stundum eftir að beðið er eftir umsögnum frá mismunandi stofnunum. Mikilvægt er að leyfisskylda hér á landi sé ekki meira íþyngjandi en brýn nauðsyn krefur, enda hafa slíkar kvaðir verulega hamlandi áhrif á frumkvöðlastarfsemi þar sem nýta þarf kraftana í annað en útfyllingu opinberra plagga með tilheyrandi kostnaði. Því miður er raunin sú að reglubyrðin þyngist jafnt og þétt, en hið gagnstæða þarf að eiga sér stað eigi ný fyrirtæki að verða til og eldri að geta þrifist eins og best verður á kosið.

„Ferlið er gamaldags, óskýrt, ógegnsætt og alltof þungt og langt. Þar af leiðandi er það alltof tímafrekt.”
- Magnús Hafliðason, fyrrverandi framkvæmdastjóri Joe and the Juice, þann 21. ágúst 2019 í viðtali í Fréttablaðinu.

Nú sem aldrei fyrr er mikilvægt að tryggja þeim sem vinna að verðmætasköpun  sveigjanleika og hagstæð skilyrði til árangurs. Mikið hefur borið á kvörtunum atvinnurekenda um ósveigjanleg opinber kerfi, flókna ferla og óvinveitt umhverfi til rekstrar. Reykjavíkurborg hefur sérstaklega verið til umræðu í þessu samhengi. Tafir á afgreiðslu mála og óaðgengilegar reglur hafa reynst fjölda atvinnurekenda í borginni fjötur um fót og valdið íþyngjandi fjármagnskostnaði. Samtök atvinnulífsins hvetja Reykjavíkurborg til að tryggja betri jarðveg fyrir framfarir og verðmætasköpun í höfuðborginni. Einfalda þarf alla stjórnsýslu, fækka skrefum vegna leyfisveitinga og tryggja að umsóknarferli verði að fullu rafræn.

„Þar vil ég að verði hægt að nálgast tæmandi tékklista yfir öll þau skilyrði sem þú þarft að uppfylla til þess að hefja rekstur, hvort sem það er veitingarekstur eða verslunarrekstur eða hvað það er því þetta er algjört völundarhús í dag. Það eru engar leiðbeiningar eða engin leið til að átta sig á hvað það er sem þú þarft að uppfylla.“
- Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi, þann 25.ágúst 2019 í Sprengisandi.
2. Faglegri lagasetning

Stjórnarfrumvörpum og reglugerðum ætti að fylgja mat á áhrifum á fyrirtæki. Þegar um íþyngjandi reglur er að ræða ætti að skilgreina markmið og rökstyðja að því verði ekki náð með öðrum hætti. Þegar EES-gerðir sem hafa áhrif á atvinnulífið eru innleiddar ætti

 • ekki að fara umfram lágmarkskröfur gerðanna
 • gildissvið ekki að vera víðtækara en gerðanna
 • að nýta allar ívilnandi undanþágur og
 • afnema allar kröfur sem skarast og fyrir eru í lögum.

Sé vikið frá ofangreindu ætti að rökstyðja slík frávik. Til bóta væri jafnframt ef komið yrði á fót upplýsingaveitu yfir lög, reglugerðir og auglýsingar í hverri atvinnugrein. Þá er mikilvægt að fella breytingar á reglugerðum jafnóðum inn í stofnreglugerðir.

3. Umbætur á samkeppnislögum  

Nýlega var frumvarp um breytingu á samkeppnislögum samþykkt þar sem gerðar voru ýmsar tímabærar umbætur á lögunum. Mikilvægt er að ráðast í frekari breytingar sem eru til þess fallnar að draga úr óþarfa kostnaði og stuðla að sanngjarnari málsmeðferð.

 • Afnema málskotsheimild Samkeppniseftirlitsins til þess að stytta málsmeðferð og samræma við önnur stjórnsýslumál.
 • Afnema heimild til aðgerða gegn fyrirtækjum sem ekki hafa brotið gegn samkeppnislögum.
 • Afnema heimild til endurupptöku mála því hún veldur réttaróvissu og fer gegn meginreglu réttarfars.
 • Lögbinda tímafresti á mál sem Samkeppniseftirlitið hefur til meðferðar og skýra forgangsröðun.  
 • Gera Samkeppniseftirlitinu skylt að gefa út leiðbeiningar um skilgreiningu á mörkuðum og hvernig framkvæmd verði. 
 • Greiða vexti af ofteknum sektum. 
 • Samkeppniseftirlitið hafi heimild til að gefa út bindandi álit til að auka fyrirsjáanleika. 
 • Færa réttarstöðu málsaðila varðandi húsleitir og haldlagningar nær því sem gildir á Norðurlöndum og fylgja sakamálalögum. 

Fyrirtæki á fallandi fæti

Í samkeppnisrétti er gert ráð fyrir að samkeppnisyfirvöld geti heimilað samruna, sem alla jafna væri ekki heimilaður, ef fyrirtækið sem er yfirtekið er á leiðinni í þrot og önnur skilyrði eru uppfyllt. Í framkvæmd er þetta þungt í vöfum þar sem Samkeppniseftirlitið er lengi að svara. Eðli málsins samkvæmt er tíminn naumur í málum sem þessum og er hætt við að störf og verðmæti fari forgörðum ef félag fer í þrot áður en svör berast frá Samkeppniseftirlitinu. Í ljósi þeirra hagsmuna sem eru í húfi og þess þrönga tímaramma sem fólk hefur væri rétt að lögbinda að Samkeppniseftirlitið hafi viku til að afgreiða mál af þessu tagi.

4. Afnema séríslenskar reglur um persónuvernd  

Rúmlega tvö ár eru síðan ný lög um persónuvernd voru sett á grundvelli persónuverndarreglugerðar Evrópusambandsins (GDPR). Lögin fela í sér tímabærar réttarbætur fyrir almenning. Að sumu leyti var hins vegar gengið lengra en í nágrannalöndum og lengra en þörf var á. Sérkröfur, sem ógna ekki persónufrelsi, leggjast sérstaklega á lítil fyrirtæki . Mikilvægt er að fella á brott séríslenskar reglur og nýta ívilnandi undanþágur, eru hér dæmi um mikilvægar breytingar.

 • Vinnsla um refsiverða háttsemi: Minnka kröfur um vinnslu upplýsinga um refsiverða háttsemi.
 • Takmarkanir á réttindum skráðra: Jafna stöðu fyrirtækja og hins opinbera þegar kemur að takmörkunum á réttindum skráðra.
 • Öryggisbrestir: Skilgreina hvaða tilvik þarf ekki að tilkynna.
 • Leyfisveitingar: Fella brott séríslenskar reglur um leyfisveitingar og viðbótarskyldur.
 • Stjórn Persónuverndar: Heildarsamtök atvinnulífsins fái aðila í stjórn.
 • Kostnaður við eftirlit: Fella brott heimild til að ákveða að fyrirtæki kosti eftirlit.
 • Valdheimildir Persónuverndar: Fella brott þær valdheimildir Persónuverndar sem eru víðtækari en í GDPR.
 • Stjórnvaldssektir og refsiábyrgð: Færa refsiramma vegna brota á lögunum nær nágrannalöndum og gera refsiheimildir skýrari.  
 • Vinnsla í vinnusambandi: Taka meira tillit til vinnslu persónuupplýsinga í vinnuréttarsambandi eins og gert er í Danmörku.  
5. Aðrar umbætur á vinnumarkaði og stofnun fyrirtækja

Efla þarf umgjörð og hvata fyrir erlenda sérfræðinga og ryðja úr vegi hindrunum svo þeir eigi auðveldara með að hefja störf hér á landi.

 • Mikilvægt er að samræma upplýsingagjöf um dvalar- og atvinnuréttindi á Íslandi enn frekar. Upplýsingavefurinn Work in Iceland er fyrsta skrefið í þá átt en samræma þarf upplýsingar frá opinberum stofnunum og auka skilvirkni í umsóknarferli.
 • Sönnunarbyrði á fyrirtækjum um að sérfræðiþekkingu skorti á Íslandi getur verið hamlandi og mikilvægt að sú krafa verði afnumin.

Auðvelda þarf stofnun fyrirtækja eins og unnt er fyrir innlenda og erlenda aðila. Kvaðir um hlutafé, launagreiðslur og ársreikningaskil geta verið verulega íþyngjandi fyrir frumkvöðla sem hafa úr takmörkuðum fjármunum og tíma að moða. Vilji yfirvöld greiða götu þeirra sem vilja virkja nýsköpunarkraftinn væri til mikils unnið að ryðja slíkum hindrunum úr vegi, til að mynda með sérstöku félagaformi fyrir sprotafyrirtæki.

Skattastefna sem skapar störf
Ný nálgun í menntamálum
Endurhugsum opinberan rekstur
Græn viðspyrna
Nýtt vinnumarkaðslíkan