Græn viðspyrna

Við stöndum frammi fyrir tveimur meiriháttar vandamálum á sama tíma, sem ógna lífsgæðum okkar og þar með heilsu; loftslagshlýnun og kórónukreppunni. Það vill svo vel til að lykillausnir að báðum vandamálunum eru þær sömu; nýsköpun og fjárfesting.

Íslensk fyrirtæki og samtök þeirra hafa á undanförnum árum lagt mikla áherslu á umhverfismál í störfum sínum. Aukin vitund almennings um umhverfismál gerir fólk að betri og kröfuharðari neytendum. Fólk vill að fyrirtæki sem það skiptir við sýni ábyrgð, ella beinir það viðskiptum sínum annað. Það er ekki bara siðferðisleg skylda okkar að skila jörðinni í jafn góðu eða betra ástandi til komandi kynslóða, heldur er líka efnahagslega skynsamt.

„Með nýjum markmiðum, nýjum stafrænum leiðum, grænum fjárfestingum og íslensku hugviti viljum við stíga mikilvæg og græn skref inn í framtíðina, innleiða hringrásarhagkerfi og efla mikið flokkun og endurvinnslu. Þetta viljum við gera í samvinnu við fólkið í landinu, stjórnvöld og íslensk fyrirtæki, til að draga úr mengun og gróðurhúsaáhrifum og skapa um leið hagkvæmara og betra þjóðfélag.“
- Gunnar Bragason, forstjóri Terra, Umhverfisverðlaun atvinnulífsins 14. október 2020

Sjálfbær nýting auðlinda er til að mynda undirstaða allra þriggja stærstu atvinnugreinaútflutningsgreina okkar.

  • Iðnaður reiðir sig á greiðan aðgang að umhverfisvænni orku.
  • Meginástæða þess að ferðamenn koma hingað til lands er til að berja óspillta náttúru augum.
  • Sjávarútvegurinn byggir alla afkomu sína á fiskistofnunum í kringum landið og að þeir verði þar til staðar til framtíðar, jafn stórir eða stærri.

Loftslagsbreytingar og tilheyrandi súrnun sjávar er líklega stærsta ógnin sem steðjar að íslenskum sjávarútvegi og þar með afkomu allra landsmanna. Þessu gera fyrirtæki sér fyllilega grein fyrir og leggja því allt kapp á að gæta vel að umhverfi sínu. Við búum svo vel að eiga íslensk fyrirtæki á heimsmælikvarða á sínum sviðum sem eru ekki bara að skapa störf og hagvöxt heldur eru líka að reiða fram mikilvægt framlag til umhverfismála.

„Virðing fyrir náttúru hefur verið okkar leiðarljós og við sjáum að áhersla á umhverfismál og sjálfbærni skilar sér í aukinni arðsemi og miklum ábata fyrir samfélagið í heild.“
-Guðmundur Kristjánsson, forstjóri Brims, Umhverfisverðlaun atvinnulífsins 9. október 2019

Við stöndum frammi fyrir stóru verkefni og það verður ekki leyst eingöngu af hinu opinbera. Þess er minnst um þessar mundir að hálf öld er síðan menn gengu í fyrsta sinn á tunglinu. Þótt verkefnið hafi verið leitt af bandaríska ríkinu var fjöldi verktaka og fyrirtækja ómissandi þáttur í því. Við hefðum aldrei komist til tunglsins án nýsköpunar og hugvits sem varð til í fyrirtækjum.

Hið opinbera, almenningur og fyrirtæki eru öll hluti af sama samfélaginu. Við erum á sama báti og deilum sömu örlögunum. Ef hagur almennings versnar þá minnkar hagnaður fyrirtækja og þau skila minni skatttekjum til hins opinbera. Umhverfisvernd og barátta gegn loftslagsbreytingum er því sameiginlegt verkefni okkar allra.

Grænir skattar og aðrir hvatar

Ríkisstjórnin hefur sett Íslandi það markmið að verða kolefnishlutlaust árið 2040. Yfirvöld geta haft áhrif með tvenns konar hætti. Annars vegar með neikvæðum aðgerðum eins og sköttum, boðum og bönnum og hins vegar með jákvæðum aðgerðum, eins og ívilnunum fyrir fjárfestingu og nýsköpun. Atvinnulífið hefur stutt almennar aðgerðir stjórnvalda til að vinna gegn loftslagsbreytingum og losun gróðurhúsalofttegunda og mun gera það áfram.

Grænum sköttum er ætlað að hafa jákvæð áhrif á neysluhegðun þannig að þeir sem mengi greiði fyrir það. Áætlað er að á árinu 2020 skili grænir skattar tæplega 50 milljörðum króna til ríkissjóðs sem er 8,5 milljörðum meira en fyrir fimm árum.

Grænir skattar eru hannaðir með það eitt að leiðarljósi að hvetja til breyttrar hegðunar en ekki til tekjuöflunar fyrir hið opinbera, enda skila þeir takmörkuðum skatttekjum til framtíðar ef tilætluðum árangri er náð. Því er mikilvægt að stjórnvöld tryggi gagnsæi og birti bókhald yfir tekjur og ráðstöfun grænna skatta til að tilgangur og markmið skattheimtunnar séu skýr.

Það er ekki raunhæft að ná settum markmiðum í loftslagsmálum eingöngu með aukinni skattheimtu. Skapa þarf hvata til fjárfestinga, t.d. í nýsköpun, orkuskiptum í samgöngum, nýjum tækjum, bílum og skipum og flutningskerfi raforku. Græn fjármögnun er þar lykilþáttur.

„Unnið er að útfærslu á skattalegum aðgerðum sem hafa það að markmiði að hvetja og styðja fyrirtæki til fjárfestinga sem ætlað er að efla nýsköpun og samkeppnishæfni atvinnulífsins. Er þar horft til þess að flýta afskriftum á nýfjárfestingu, með áherslu á græna umbreytingu og loftslagsmarkmið, sem gerir fyrirtækjum kleift að ráðast í slíkar fjárfestingar mun fyrr en ella. Jafnframt verða skoðaðar leiðir til að hvetja til þátttöku almennings í atvinnulífinu með kaupum á hlutabréfum.“
-Átta nýjar stöðugleikaaðgerðir, Ríkisstjórn Íslands 29.september 2020
Hvað er græn fjármögnun?

Græn fjármögnun, svo sem græn lán og græn skuldabréf, er fjármögnun verkefnis eða starfsemi sem hefur jákvæð áhrif á umhverfið. Græn skuldabréf, eins og skuldabréf almennt, henta frekar fyrir stærri fjárfestingar ríkja, sveitarfélaga og stórra fyrirtækja. Græn lán geta hins vegar hentað betur í minni fjárfestingar fyrir litla sem stóra lántaka. Sjálfbærnitengd fjármögnun er svo þegar kjör á láni eða skuldabréfi eru tengd því hvernig greiðanda gengur að ná markmiðum um sjálfbærni. Bæði Landsvirkjun og Marel hafa þegar gengið frá slíkum lánum.

„Það þarf að taka á loftlagsmálunum og allir þurfa að leggja sitt af mörkum. Bankar hafa hvað mest áhrif með því að veita fjármagn til vistvænna verkefna og bjóða viðskiptavinum umhverfisvænar lausnir. Í dag eru græn innlán, sem m.a. nýtast við fjármögnun vistvænna bíla- og íbúðalána. Um 20-30% af lánasafni okkar til fyrirtækja teljast græn en markmiðið er að auka hlut grænna lána með markvissum stuðningi við sjálfbæra uppbyggingu.“
-Iða Brá Benediktsdóttir, framkvæmdastjóri viðskiptabankasviðs Arion banka

Evrópusambandið undirbýr nú löggjöf á þessu sviði þar sem búast má m.a. við að skilgreint verði hvaða jákvæðu áhrif fjárfestingar þurfi að hafa á umhverfið og að vottunaraðilar slíkra fjárfestinga verði eftirlitsskyldir. Reikna má með að sú löggjöf muni líka taka til Evrópska efnahagssvæðisins. Alþjóðasamtök markaðsaðila (e. International Capital Market Association) hafa þegar gefið út viðmið fyrir græn skuldabréf (e. Green Bond Principles) sem hægt er að notast við þar til löggjöf ESB er gefin út.

Skattlagning og áhætta

Vextir af lánum og skuldabréfum bera almennt 22% fjármagnstekjuskatt. Lífeyrissjóðir, sem eru stærstu eigendur skuldabréfa á Íslandi, eru þó þar undanþegnir auk þess sem tiltekin skuldabréf eru undanþegin skatti. Vel mætti hugsa sér að fella græn skuldabréf þar undir og afnema þannig skattlagningu á græn skuldabréf og verðbréfasjóði sem fjárfesta í vottuðum, grænum fjárfestingum. Með því væri skapaður hvati fyrir einstaklinga og fyrirtæki til að fjárfesta með grænum hætti.

Löggjafinn stýrir áhættu í útlánum og fjárfestingum banka með flóknu regluverki þar sem áhætta mismunandi tegunda útlána og annarra eigna er metin. Seðlabankar og fjármálaeftirlit eru nú víða að skoða hvort áhætta grænna fjárfestinga sé minni en annarra. Fylgjast þarf vel með þessari þróun og láta það endurspeglast í breyttum reglum ef ljóst er að grænar fjárfestingar séu áhættuminni. Það myndi skapa hvata fyrir banka til að setja meira fé í grænar fjárfestingar.

Aukinn seljanleiki grænna skuldabréfa

Til þess að auðvelda útgáfu grænna skuldabréfa er mikilvægt að eftirmarkaður með þau sé góður þannig að þau séu seljanleg. Aukinn seljanleiki leiðir til lægri viðskiptakostnaðar, beint og óbeint, sem gerir þau að betri fjárfestingarkosti fyrir fjárfesta og þar með útgefendur. Seðlabankinn setur reglur um hvaða skuldabréf teljast veðhæf í viðskiptum við bankann og birtir lista yfir nokkur bréf sem uppfylla skilyrðin, þótt fleiri bréf geri það einnig. Engin græn skuldabréf uppfylla núverandi skilyrði.

Kauphöllin og Verðbréfaskráning hafa mikilvægu hlutverki að gegna á skuldabréfamarkaði og hafa áhrif á kostnað við skuldabréfaútgáfu, seljanleika og hversu auðvelt er að eiga viðskipti með bréf. Það ætti að vera keppikefli þeirra að efla og stækka græna markaðinn.

Hvað má bæta?

Ríkið getur haft áhrif á hegðun, annað hvort með jákvæðum aðgerðum, eins og ívilnunum, eða neikvæðum aðgerðum eins og sköttum, boðum og bönnum. Samtök atvinnulífsins telja að fullreyna ætti allar tiltækar jákvæðar aðgerðir áður en gripið er til þeirra neikvæðu.

  • Í fyrsta lagi gæti ríkið undanþegið græn lán og græn skuldabréf frá skatti, hafi þau hlotið vottun af ábyggilegum aðila.
  • Í öðru lagi gæti ríkið endurgreitt helming kostnaðar við vottun á grænum fjárfestingum með því skilyrði að hún sé framkvæmd af ábyggilegum aðila og að það verði af fjárfestingunni.
  • Í þriðja lagi mætti skoða að búa til aukna hvata fyrir banka til að fjárfesta í grænum skuldabréfum með breyttum áhættureglum.
  • Í fjórða lagi gæti Seðlabankinn breytt reglum sínum þannig að græn skuldabréf verði í auknum mæli veðhæf í viðskiptum við hann.
  • Í fimmta lagi gætu Kauphöll og Verðbréfaskráning breytt verðskrám sínum til að stækka græna markaðinn.

Með þessum einföldu og ódýru aðgerðum væru stór skref stigin í átt til þess að auðvelda grænar fjárfestingar og færa okkur nær kolefnishlutleysi.

Skattastefna sem skapar störf
Ný nálgun í menntamálum
Regluverk sem virkar
Endurhugsum opinberan rekstur
Nýtt vinnumarkaðslíkan