Nýtt vinnumarkaðslíkan

Aðilar vinnumarkaðar, sem þriðji armur hagstjórnar, verða að sýna ábyrgð og festu því annars er stefnu ríkisfjármála og peningamála ógnað. Endurbætur þarf að gera á kjarasamningalíkaninu til að stuðla að almannagæðum, stöðugu verðlagi og gengi, og lágum vöxtum.

Heildarsamtök aðila vinnumarkaðarins hófu umræður um breytingar á umgjörð kjarasamninga árið 2011, þegar sameiginlegur skilningur ríkti á því að undirbúning kjarasamninga mætti bæta og efnahagslegar forsendur skiptu höfuðmáli fyrir bætt lífskjör og aukinn kaupmátt launa. Horft var til Norðurlandanna í þessum efnum. Í framhaldinu var skipaður starfshópur af aðilum vinnumarkaðarins sem í maí 2013 gaf út skýrslu þar sem fjallað var kjarasamningsgerð á Norðurlöndunum. Í kjölfarið gerðu heildarsamtök launafólks og vinnuveitenda, ásamt stjórnvöldum, samkomulag um að setja á stofn „Samstarfsnefnd um launaupplýsingar og efnahagsforsendur kjarasamninga“. Nefndin gaf út þrjár skýrslur á árunum 2013-2016 með það að markmiði að bæta kjarasamningsgerð.

Lokaáfanginn í samstarfi aðila vinnumarkaðarins um bætt kjarasamningalíkan var að fá Steinar Holden, prófessor við Oslóarháskóla, til að semja tillögur að nýju ferli við gerð kjarasamninga á Íslandi sem hann skilaði í maí 2016. Megin niðurstöður skýrslu Holdens voru eftirfarandi:

  • Íslendingar hafa ekki dregið lærdóm af dýrkeyptri og síendurtekinni reynslu sem fylgir því að hækka laun umfram getu atvinnulífsins. Afleiðingin er aukin verðbólga, hærra vaxtastig og skert samkeppnisstaða íslenskra fyrirtækja á erlendum mörkuðum.
  • Til að tryggja að launahækkanir verði sjálfbærar væri gagnlegt fyrir Íslendinga að taka upp samningalíkan að norrænni fyrirmynd (e. wage leadership model) í líkingu við hið norska „frontfags“-líkan. Til að koma á fót nýju samningalíkani hér á landi þarf að uppfylla þrjú skilyrði:
  1. Tryggt sé að aðilar vinnumarkaðarins hafi sameiginlegan skilning á þeim úrlausnarefnum sem við stöndum frammi fyrir á íslenskum vinnumarkaði og nauðsyn þess að tryggja sjálfbæra launaþróun.
  2. Valinn sé undanfari sem semur fyrst og gefur þar með „merkið“ um launaþróun á vinnumarkaðinum öllum.
  3. Tryggt sé að merkinu um launaþróun sé fylgt á vinnumarkaðinum öllum.

Eftir fimm ára ferli náðist ekki samstaða um leiðir og ferlið stöðvaðist árið 2016.

Í fjármálaáætlun stjórnvalda er lögð áhersla á endurskoðun samningalíkansins, þ.m.t. gerð grænbókar um framtíðarumhverfi kjarasamninga sem stjórnvöld munu hafa forystu um í nánu samstarfi við heildarsamtök á vinnumarkaði.

„Ef vel á að takast til við að hrinda úr vör slíku framfaraskeiði [stuðla að atvinnusköpun og skapa skilyrði fyrir meiri kaupmátt heimilanna] þurfa hins vegar aðrir haghafar samfélagsins að leggja sitt af mörkum með umbótum á uppbyggingu hagkerfisins.“

...

„Þar er þungt á metunum að aðilar vinnumarkaðarins sammælist um nýtt og skilvirkara kjarasamningslíkan sem getur í senn veitt atvinnulífinu festu og stöðugleika og skilað sanngjarnri niðurstöðu um það sem er til skiptanna hverju sinni.“
- Fjármálaáætlun 2021-2025

Mikið er í húfi enda hvergi hærra hlutfall launafólks í stéttarfélögum en á Íslandi, eða rúmlega 90%. Næst komast önnur Norðurlönd þar sem samsvarandi hlutfall er 50-65%, en í flestum öðrum ríkjum er hlutfallið mun lægra. Ljóst er að aukin sátt á vinnumarkaði verður að haldast í hendur við breytt vinnubrögð við gerð kjarasamninga. Nú er rétti tíminn til að halda áfram þeirri vinnu sem frá var horfið árið 2016.

Í þeirri vinnu þarf að huga að eftirfarandi þáttum:

Í fyrsta lagi þarf að ganga út frá stöðu útflutningsgreina við samningagerð líkt og gert er á Norðurlöndum. Launahækkanir umfram svigrúm útflutningsgreina valda verðbólgu eða atvinnuleysi og grafa undan samkeppnishæfni þjóðarbúsins. Á Norðurlöndum gefa útflutningsgreinar merkið, sem felst einfaldlega í því að óformlegt samkomulag er um það meðal aðila vinnumarkaðar og stjórnmálaflokka að samningsaðilar í útflutningsgreinum geri fyrstu kjarasamninga í hverri samningalotu og að önnur samningssvið fylgi þeim tóni sem þar er sleginn. Jafnframt er almenn samstaða um að embætti ríkissáttasemjara leggi ekki fram tillögur til lausnar deilum sem fari umfram merkið.

Undanfarna áratugi hafa árlegar launahækkanir og verðbólga hér á landi verið allt að þrefalt meiri en á hinum Norðurlöndunum og vaxtastig margfalt hærra. Það hefur ekki breyst. Aðilar vinnumarkaðarins þurfa að ná samstöðu um bætt vinnubrögð við gerð kjarasamninga í því skyni að standa vörð um störf og stöðugleika. Þeir þurfa að horfa til þess sem er til skiptanna hverju sinni og deila því með sanngjörnum hætti án þess að ógna efnahagslegum stöðugleika. Slík vinnubrögð skila betri lífskjörum og meiri kaupmætti en óreiða og upplausn.

Í öðru lagi er mikilvægt að vinna við gerð kjarasamninga verði skilvirkari. Á Íslandi er nær óþekkt að kjarasamningar séu endurnýjaðir strax í kjölfar þess síðasta. Algengt er að allt að hálft ár frá því stefnumarkandi samningar á almennum vinnumarkaði renna út þar til samkomulag næst um endurnýjun þeirra. Í framhaldinu tekur við langt tímabili endurnýjunar hundruða kjarsamninga sem getur staðið yfir í allt að tvö ár. Óstöðugleiki kjaramála veldur mikilli óvissu og kostnaði. Á Norðurlöndum eru vinnubrögð í föstum skorðum þannig að stefnumótandi kjarasamningar eru endurnýjaðir skömmu áður en þeir renna út og í kjölfar þeirra eru langflestir kjarasamningar endurnýjaðir á örfáum vikum.

„Samningalota sú sem hófst hjá ríkissáttasemjara í janúar 2019 stendur enn, þrátt fyrir að langt sé um liðið síðan heildarsamkomulag tókst á almennum vinnumarkaði. Á tímabilinu hefur 79 kjaradeilum verið vísað til sáttameðferðar, þar af hefur sátt náðst í 64 málum, en 15 mál voru enn í sáttameðferð hjá embættinu 1. september 2020. Að baki liggja 428 formlegir sáttafundir með aðkomu ríkissáttasemjara.“
- Aðkoma ríkissáttasemjara að kjaradeilum samningalotunnar 2019-2020, Skýrsla kjaratölfræðinefndar

Þegar kjarasamningar losna hefst tímabil þar sem af stað fara margar og langdregnar samningalotur. Undanfarna áratugi hefur reglan verið sú að í upphafi  hverrar lotu hafa Samtök atvinnulífsins og landssambönd ASÍ gert stefnumarkandi kjarasamninga, sem ná til flestra atvinnugreina, og mótað launastefnu sem gengið hefur verið út frá að aðrir samningsaðilar fylgi. En svo einfalt er það ekki, því í framhaldi tekur jafnan við langt tímabil þar sem mikill fjöldi stéttarfélaga reynir með öllum ráðum að knýja fram meiri launahækkanir en felast í markaðri stefnu í samningum við ríki, sveitarfélög og aðila utan SA.

„Í septemberbyrjun 2020 höfðu verið gerðir 285 formlegir kjarasamningar milli hinna ýmsu aðila í samningalotunni sem hófst í ársbyrjun 2019. U.þ.b. 45 var ólokið þannig að heildarfjöldi kjarasamninga í samningalotunni 2019-2020 gæti orðið um 330.“
- Skýrsla kjaratölfræðinefndar

Þrír armar eru í aðalhlutverki við stjórn efnahagsmála og þeir verða að róa í sömu átt. Fjármálastefna hins opinbera var styrkt með setningu laga um opinber fjármál í árslok 2015. Umgjörð peningastefnunnar hefur einnig verið styrkt með víðtækari markmiðum og öflugri stjórntækjum Seðlabankans. Aðilar vinnumarkaðar, sem þriðji armur hagstjórnar, hafa hins vegar engu breytt, en þeir verða að sýna ábyrgð og festu því annars er stefnu ríkisfjármála og peningamála um stöðugleika ógnað. Efnahagslegur stöðugleiki er almannagæði, eins og Steinar Holden bendir á í skýrslu sinni, og þarf að vera æðri öðrum markmiðum. Endurbætur þarf að gera á kjarasamningalíkaninu til að stuðla að þessum almannagæðum, þ.e. stöðugu verðlagi, stöðugu gengi krónunnar og lágum vöxtum.

Skattastefna sem skapar störf
Ný nálgun í menntamálum
Regluverk sem virkar
Endurhugsum opinberan rekstur
Græn viðspyrna