Skattastefna sem skapar störf

Atvinnuleysi kemur 200 sinnum fyrir í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar. Brýnt er að skapa jarðveg fyrir verðmæt störf. Hvetjandi skattkerfi sem stuðlar að fjölgun starfa er því hagsmunamál allra landsmanna, ekki bara fyrirtækja.

Atvinnuleysi er um og yfir 10% á síðustu mánuðum ársins 2020 og þar við bætast 3-4 þúsund starfsmenn á hlutabótum. Áhrifa kórónukreppunnar gætir með beinum eða óbeinum hætti í langflestum atvinnugreinum, þótt þau séu mest í ferðaþjónustu. Atvinnuleysi er böl, bæði fyrir þá sem fyrir því verða og samfélagið allt. Langan tíma tekur að ná niður svo miklu atvinnuleysi og bregðast þarf við með fjölþættum aðgerðum. Mikilvægasta framlag stjórnvalda til starfasköpunar væri  að leggja grunn að aukinni verðmætasköpun og með því draga úr álögum og hleypa súrefni inn í aðþrengt atvinnulíf.

„Skynsamlegast er að takmarkað svigrúm stjórnvalda í kjölfar veirufaraldursins verði í auknum mæli nýtt til að örva nýsköpun, fjárfestingar og framleiðslu einkageirans í því skyni að stuðla að atvinnusköpun og skapa skilyrði fyrir meiri kaupmátt heimila."
- Fjármálaáætlun 2021-2025

Skattbyrði hins opinbera leggst alltaf beint eða óbeint á einstaklinga, þ.e.  starfsmenn, eigendur eða viðskiptavinir fyrirtækja.  Hófleg skattlagning er því hagsmunamál allra. Ísland fær lága einkunn í alþjóðlegum samanburði á samkeppnishæfni skattkerfis og því er tækifæri til umbóta á skattkerfinu til að tryggja öflugan endurbata í atvinnulífinu.

Horfa þarf með raunsæjum augum á stöðu ríkissjóðs. Skatttekjur standa ekki undir samneyslu án tiltektar í opinberum rekstri eða aukinna efnahagsumsvifa. Mikilvægt er að skattkerfisbreytingar séu markvissar og lúti eftirfarandi meginreglum um gott skattkerfi:

  • Skatttekjur skulu standa undir samneyslunni
  • Skattkerfið skal vera einfalt, gagnsætt og skilvirkt
  • Skattkerfið skal vera stöðugt, fyrirsjáanlegt og ekki draga úr samkeppnishæfni

Eftirfarandi tillögur að umbótum byggja á þessum meginreglum.

1. Hvatar til að draga úr langtímaatvinnuleysi og heildstæð endurskoðun á tryggingagjaldi

Tryggingagjald er skattur sem leggst á launagreiðslur. Hátt tryggingagjald eykur kostnað fyrirtækja og hamlar fjölgun starfa. Atvinnuleysi er í sögulegum hæðum og verður áfram mikið næstu árin. Viðvarandi atvinnuleysi er kostnaðarsamt fyrir þá sem fyrir því verða og samfélagið allt. Reynsla og þekking hverfur sem bitnar á framleiðni og verðmætasköpun til framtíðar. Nú skiptir höfuðmáli að varðveita og skapa störf og hækkun tryggingagjalds í þeim tilgangi að lagfæra stöðu ríkissjóðs væri misráðin. Með þumalfingursreglu má áætla að hver prósenta tryggingagjalds sé ígildi 1.300 starfa.

Áhersla stjórnvalda hlýtur að vera á aðgerðir til að draga úr atvinnuleysi, sporna við langtímaatvinnuleysi og tryggja sveiflujöfnun tryggingagjaldsins. Hér eru lagðar til tvær leiðir.

Leið 1. Vinna bug á atvinnuleysi með vel útfærðum hvötum til ráðninga

Langtímaatvinnuleysi fer sívaxandi og hefur langtímaatvinnulausum fjölgað um ríflega 4.300 frá ársbyrjun 2019. Í kjölfar fjármálahrunsins var svipuð þróun, en þá var átaksverkefnið Vinnandi vegur innleitt með góðum árangri. Verkefnið var samstarf Vinnumálastofnunar, atvinnurekenda, sveitarfélaga, stéttarfélaga og ríkisins til að sporna gegn langtímaatvinnuleysi.

Markmið verkefnisins var að 1.500 einstaklingar yrðu ráðnir af atvinnuleysisskrá í gegnum átakið en í því fólst að atvinnurekendur gátu ráðið atvinnuleitendur með styrk sem samsvaraði grunnatvinnuleysisbótum. Með þessum hætti átti að draga úr líkum á langtímaatvinnuleysi – atvinnurekendur gátu ráðið inn starfsfólk með minni tilkostnaði en ella, en atvinnuleitendur sóttu sér þekkingu og reynslu. Ávinningur var gagnkvæmur.

Atvinnuleitendur án atvinnu í 12 mánuði eða lengur voru í forgangi og atvinnurekendur gátu gert samning um að fá greiddan styrk með honum í allt að 12 mánuði. Aðrir atvinnulausir gátu fengið samning til allt að 6 mánaða.

Alls voru 1.400 samningar undirritaðir í átaksverkefninu sem hrint var af stað á árinu 2012. Þátttaka í verkefninu var því mikil og minnihluti einstaklinganna fór aftur á atvinnuleysisskrá að verkefninu loknu.

„Þar sem launakostnaður er stærstur hluti kostnaðar hjálpar allt sem snýr að launakostnaði, t.d. lækkun tryggingagjalds"
- Könnun SA apríl 2020

Við stöndum nú frammi fyrir sömu áskorun og grípa þarf til aðgerða til að sporna gegn því að langtímaatvinnuleysi festist í sessi. Vinnumálastofnun hefur frá ársbyrjun boðið upp á ráðningastyrk til fyrirtækja sem ráða atvinnuleitendur sem hafa verið í mánuð hið minnsta á atvinnuleysisskrá. Á tímum sem þessum er mikilvægt að vekja athygli á slíku úrræði. Með réttum hvötum gæti skapast rými hjá mörgum fyrirtækjum til að ráða einstaklinga í atvinnuleit til starfa með því að draga tímabundið úr kostnaði. Átakið örvar atvinnulífið til skamms tíma og getur skapað varanleg störf. Vel útfærðir hvatar til ráðninga sporna gegn stighækkandi atvinnuleysi. Talsverðir hagsmunir eru í húfi.

Leið 2. Heildstæð endurskoðun tryggingagjalds er tímabær

Lög um tryggingagjald kveða á um að breyta skuli þeim hluta þess sem á að standa undir atvinnuleysisbótum, gefi horfur á vinnumarkaði tilefni til að útgjöld Atvinnuleysistryggingasjóðs breytist verulega milli ára. Í því felst að tryggingagjaldið skuli hækkað þegar atvinnuleysi eykst en lækkað þegar það minnkar. Slík nálgun hefur sveiflumagnandi áhrif á hagkerfið.

Hækkun launakostnaðar fyrirtækja þegar atvinnuleysi eykst gengur gegn markmiðum um fjölgun starfa. Gjaldið hefur þó hækkað á síðustu samdráttarskeiðum eða í kjölfar þeirra; á árunum 1993-1995, 2000-2001 og á árunum 2008-2011 þegar tryggingagjaldið náði methæðum. Nú, þegar afleiðingar kórónukreppunnar endurspeglast í margföldun atvinnuleysis, blasir við að sú leið er ófær.

Afnema þarf ákvæði í lögum um sveiflumagnandi áhrif tryggingagjalds. Sá hluti tryggingagjalds sem stendur undir atvinnuleysisbótum þarf að vera fast hlutfall, óháð árferði, og tryggja jafnframt fulla fjármögnun réttinda. Þannig yrði staða Atvinnuleysistryggingasjóðs sterk þegar atvinnuleysi er lítið en gengið yrði á sjóðinn þegar atvinnuleysi eykst. Sveiflujafnandi atvinnutryggingagjald myndi auk þess stuðla að almennari sátt um gjaldstofninn enda fyrirsjáanleiki meiri.

Endurskoðun atvinnutryggingagjalds gæti haldist í hendur við vinnu í tengslum við grænbók um framtíðarumhverfi kjarasamninga sem stjórnvöld hafa forystu um í samstarfi við aðila vinnumarkaðarins.

2. Lækkun fasteignagjalda – skattbyrði fasteigna ein sú mesta í Evrópu

Tekjur af fasteignasköttum nema um 1,5% af landsframleiðslu og nær hvergi í Evrópu er skattbyrði vegna fasteigna meiri. Skattbyrðin leggst þyngst á atvinnuhúsnæði þar sem fyrirtæki greiða árlega rúmlega 1% af landsframleiðslu, eða um 28 milljarða króna, til sveitarfélaga í formi fasteignaskatta.

Fasteignagjöld á atvinnuhúsnæði hafa aldrei verið hærri og meira en helmingur sveitarfélaga er með álagningarprósentu við lögbundið hámark. Skatturinn byggir á fasteignamati sem er tregbreytanleg stærð með takmarkaða fylgni við tekjusveiflur fyrirtækja. Við mikið tekjufall er erfitt fyrir atvinnurekstur að standa undir þessum skatti sem tekur mið af háu eignaverði í sögulegu tilliti.

„Fasteignamatið hækkar og hækkar sem leiðir til hærri fasteignagjalda og á endanum smitast hækkanirnar að öllum líkindum út í leiguverðið. Það stuðlar aftur að hærra fasteignamati. Úr verður vondur spírall.“
- Guðjón Auðunsson, forstjóri Reita, Fréttablaðið júlí 2018

Samkvæmt fasteignamati Þjóðskrár fyrir árið 2021 verður skattheimta sveitarfélaga á atvinnuhúsnæði áfram sögulega há. Ef tekið er mið af hækkun fasteignamats á atvinnuhúsnæði hafa skattar hækkað um nær 50% að raunvirði frá árinu 2015 og 20% frá árinu 2018, samkvæmt útreikningum Samtaka iðnaðarins. Í Reykjavík, þar sem um helmingur af heildarverðmæti atvinnuhúsnæðis er staðsett, er álagningarhlutfall fasteignaskatta atvinnuhúsnæðis í lögbundnu hámarki. Meirihluti hækkunar fasteignagjalda undanfarin ár hefur því runnið í borgarsjóð.

Fasteignagjöld eru óheppileg skattheimta á fyrirtæki þar sem þau leggjast á eigið fé þeirra óháð afkomu. Sveitarfélögin geta ekki setið hjá meðan ein versta efnahagskreppa sögunnar gengur yfir. Þau, líkt og ríkið, þurfa að bregðast við niðursveiflunni og létta álögum af atvinnulífi. Í þessu tilliti sker Reykjavíkurborg sig úr öðrum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu. Álagning borgarinnar á atvinnuhúsnæði hefur verið við lögbundið hámark frá árinu 2015 en önnur sveitarfélög hafa lækkað sínar álögur, að Seltjarnarnesbæ undanskildum sem þrátt fyrir það innheimtir nú lægstu fasteignaskattana af atvinnuhúsnæði af sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu. Mikið vantar því upp á að borgin veiti fyrirtækjum samkeppnishæft rekstrarumhverfi.

Nú liggur fyrir að ríkið hyggst styrkja sveitarfélögin um fimm milljarða króna, en fyrirséð er að stór hluti þeirrar fjárhæðar komi í hlut Reykjavíkurborgar. Mikilvægt er að Reykjavíkurborg nýti þennan fjárstuðnin, styðji við viðspyrnu atvinnulífs og lækki álögur og verji störf í borginni, enda forsenda þess að blómlegt atvinnulíf dafni í þessu stærsta sveitarfélagi landsins.

„Í stað þess að ráðast í aðgerðir líkt og gert var í Noregi gerist ríkisvaldið uppvíst að því að greiða beina styrki til sveitarfélaga vegna tekjumissis þeirra. Sá fjárhagsvandi sé tilkomin einmitt vegna bágrar stöðu margra fyrirtækja vegna faraldursins og sóttvarnaraðgerða. Þetta finnst mér skjóta skökku við. Ríkið ætti frekar að hvetja sveitarfélögin til að leggjast á árarnar með fyrirtækjum, til að mynda með niðurfellingu fasteignagjalda svo eitthvað sé nefnt.“
- Jakob Einar Jakobsson, eigandi Jómfrúarinnar

Staðan er líka erfið hjá mörgum smærri sveitarfélögum en við blasir að nýta tækifæri sem felast í frekari sameiningu sveitarfélaga. Sameining skilar öflugri sveitarfélögum og skapar svigrúm til þess að draga úr álögum á heimili og atvinnulíf, t.a.m. í formi lægri fasteignaskatta.

„Kerfisumbætur sem gætu skilað markverðum framförum í efnahagsþróuninni væri að efla og samþætta sveitarstjórnarstigið með það að markmiði að það gæti bæði átt virkari hlutdeild í farsælli hagstjórn og verið betur í stakk búið til að veita landsmönnum skilvirka og hagkvæma þjónustu.“
- Fjármálaáætlun 2021-2025

3. Lækkun almenna VSK þrepsins – skref í átt að einföldun kerfisins

Virðisaukaskattkerfið er með þrjú þrep, tvö skattþrep og eitt undanþáguþrep. Slíkt margþrepa kerfi skapar aukið flækjustig þegar kemur að skattskilum og eftirliti. Íslenska neysluskattkerfið er óskilvirkt í samanburði við nágrannaríkin því flækjustigið er meira. Almenna þrep virðisaukaskattsins er hærra hér á landi en í flestum öðrum ríkjum. Það er 24% en samsvarandi skatthlutfall er að meðaltali 19% meðal OECD-ríkjanna.

Lækkun almenna þrepsins niður í 22%, sem þó teldist hátt í alþjóðlegu tilliti, myndi ýta undir eftirspurn og örva viðskiptahagkerfið og kæmi til móts við framleiðslutap vegna kórónukreppunnar. Lækkun almenna þrepsins er almenn aðgerð sem nær til heimila í landinu, hvetur til aukinnar neyslu og umsvifa í hagkerfinu.

Með ofangreindri aðgerð væri stigið skref í átt að langtímamarkmiði um að auka skilvirkni kerfisins, fækka skattþrepum, afnema undanþágur og þar með breikka skattstofninn.

4. Auknir hvatar til þátttöku einstaklinga á hlutabréfamarkaði

Í árslok 2019 var verðbréfaeign heimila aðeins 7,5% af heildareignum þeirra og hefur ekki verið minni frá upphafi slíkra mælinga. Hæst fór hlutfallið í 14% árið 2007 en minnkaði töluvert við fjármálahrunið 2008 og hefur ekki náð sér á strik síðan. Verðbréfaeign íslenskra heimila er ekki aðeins lítil sögulega heldur einnig í norrænum samanburði en hún er um helmingi minni hér á landi en í Svíþjóð.

Þó heimilin taki óbeint þátt á markaði í gegnum lífeyrissjóði er lítil bein þátttaka þeirra áhyggjuefni. Lífeyrissjóðir kjósa að fjárfesta í stærri fyrirtækjum og því má ætla að fjármögnunarmöguleikar smærri og meðalstórra fyrirtækja séu lakari en ella, þ.e. ef sparnaður heimila rynni í auknum mæli til fjárfestingar í atvinnulífinu með beinum hætti. Það getur skapað hættu á því að íslensk fyrirtæki telji hag sínum best borgið utan landsteinanna, einkum smærri vaxtarfyrirtæki.

„Jafnframt verða skoðaðar leiðir til að hvetja til þátttöku almennings í atvinnulífinu með kaupum á hlutabréfum.“

- Yfirlýsing stjórnvalda í tilefni af viðræðum um forsendur Lífskjarasamnings

Skattaafsláttur vegna hlutabréfakaupa er rökrétt skref til þess að hvetja einstaklinga til þátttöku á hlutabréfamarkaði, en slíkur afsláttur var við lýði fram til ársins 2002. Hugmyndir sem þessar eru ekki nýjar af nálinni og hafa verið viðraðar áður, nú síðast í frumvarpi Óla Björns Kárasonar sem lagt var fyrir Alþingi í nóvember 2019. Slíkur skattaafsláttur, bæði vegna kaupa í sjóðum og stökum hlutabréfum, hvetur til sparnaðar heimila og skapar meiri dýpt á markaði. Aukin viðskipti drægju úr flökti á markaði og ykju möguleika fyrirtækja til fjármögnunar. Þá tvinnar þátttaka heimila á hlutabréfamarkaði saman hagsmuni þeirra og atvinnulífs í auknum mæli.

Ný nálgun í menntamálum
Regluverk sem virkar
Endurhugsum opinberan rekstur
Græn viðspyrna
Nýtt vinnumarkaðslíkan