Kórónukreppan tekur enda eins og allar kreppur. Í kjölfarið þurfum við að koma á stöðugleika og sjálfbæru ástandi í hagkerfinu til að takast á við næstu áskoranir. Það gerum við með því að styrkja nýja atvinnuvegi, ryðja úr vegi óþarfa hindrunum, einfalda regluverk, nýta fjármuni hins opinbera betur til að lækka skatta og styrkja þannig atvinnulífið til frekari vaxtar.
Samstillt hagstjórn Seðlabankans, hins opinbera og vinnumarkaðarins stuðlar að minni óstöðugleika. Kjarasamningslíkan sem tekur mið af verðmætasköpun, fjármálastefna sem magnar ekki hagsveiflur og hófsöm vaxtastefna spila þar lykilhlutverk.
Leggja þarf áherslu á hvað fæst fyrir opinbert fé enda eru aukin útgjöld ekki ávísun á bætta þjónustu við neytendur. Með því að árangurstengja útgjöld hins opinbera aukum við gagnsæi og hagkvæmni í opinberum rekstri og fáum þannig meira fyrir peninginn.
Til að tryggja sjálfbæra fjölgun starfa þurfa störfin að verða til á almennum vinnumarkaði en ekki hjá hinu opinbera. Einföldum skattkerfið og afnemum hindranir í rekstrarumhverfi fyrirtækja til dæmis hvað varðar stofnun fyrirtækja, leyfisveitingar og erlenda fjárfestingu. Tryggjum fyrirtækjum umhverfi sem stenst alþjóðlega samkeppni.
Við þurfum að framleiða meira og hraðar til að standa undir sambærilegum lífskjörum í framtíðinni. Tryggjum sveigjanleg starfslok þannig að þeir sem vilja vinna lengur hafi kost á því. Þá þarf að endurmóta menntakerfið til að gera fólki kleift að flytjast milli atvinnugreina.
Framkvæmum meira og minnkum flækjustigið á móti. Með aukinni skilvirkni í ákvörðunartöku og léttara regluverki getum við auðveldað fyrirtækjum að byggja húsnæði. Nú þegar eru 316 tillögur frá OECD til úrbóta í regluverki í byggingariðnaði. Fylgjum þeim eftir.
Heimild: Fjármálaráðuneytið
Kórónukreppan tekur enda eins og allar kreppur. Í kjölfarið koma nýjar áskoranir sem þarf að bregðast við. Skuldasöfnun er mikil og samkvæmt áætlun sér ekki fyrir endann á þeim skuldakúf.
Aukin skuldasöfnun dregur úr getu okkar til að bregðast við stærstu vandamálum nútímans eins og vaxandi atvinnuleysi og hraðri öldrun þjóðarinnar.
Heimild: Hagstofa Íslands og útreikningar efnahagssviðs