Förum ekki í sama gamla farið

Berglind Rán Ólafsdóttir
framkvæmdastýra Orku náttúrunnar

Förum ekki í sama gamla farið

Berglind Rán Ólafsdóttir
framkvæmdastýra Orku náttúrunnar
‍Berglind Rán Ólafsdóttir hefur mestar áhyggjur af því langtímaatvinnuleysi sem er fyrirséð næstu misseri. Hún vill að passað sé upp á fólkið, þeim gert kleift að stunda nám og þar sé lögð áhersla á græna nýsköpun. Þannig getum við nýtt sérstöðu okkar sem land endurnýjanlegrar orku. Hún er ánægð með breytingar á fundamenningu og segir sjálfsagt að fólk starfi heima í meira mæli til framtíðar.

„Ég tel að úr því sem komið er sé mikilvægt að atvinnulífið reyni að nýta það jákvæða sem hefur komið út úr faraldrinum. Áfallið er risavaxið og atvinnulífið hefur tekið bylmingsþungt högg, en þeir sem geta verða að líta á þetta sem tækifæri til að gera breytingar hjá sér til framtíðar og leggja sín lóð á vogarskálarnar við að tækla loftslagsvánna. Þar eru heilmikil tækifæri fyrir ferðaþjónustuna, til dæmis. Það er ekki heillavænlegt að mínu viti að fara aftur í sama farið. Heimurinn hefur ákveðið í sameiningu að við þurfum að verða kolefnishlutlaus árið 2050 og það er líka stórt verkefni. Mögulega, í einhverjum tilvikum, getur þessi faraldur orðið stökkpallur til þess að þróunin verði hraðari í þá átt,” segir Berglind Rán Ólafsdóttir, sem er framkvæmdastýra Orku náttúrunnar.

Hún segir að rekstur Orku náttúrunnar hafi ekki farið jafn illa út úr COVID og mörg önnur fyrirtæki, vegna eðlis rekstursins. „Við erum í því að framleiða rafmagn og heitt vatn sem hefur þetta samfélagslega mikilvægi. Það byggir meira og minna allt annað á því að þessar grunnþarfir séu til staðar,” segir Berglind.

Vitaskuld hafi verið talsverð röskun á starfseminni þó. „Við gengum mjög fljótt mjög kröftuglega fram í því að breyta öllu skipulagi. Þann 6. mars var tekin ákvörðun af neyðarstjórn Orkuveitu Reykjavíkur, sem  ég á sæti í, um að gjörbreyta öllu vinnufyrirkomulagi þar sem sú starfsemi sem samstæðan veitir er samfélagslega mjög mikilvæg. Allt starfsfólk sem gat unnið heima gerði það, tæknifólkið og framlínan sinnti sínum störfum t.d. upp í virkjununum en í hópum og eftir algjörlega nýjum reglum. Það gekk raunar ótrúlega vel,” lýsir Berglind.

„Þetta er krísa af þannig stærðargráðu að við höfum ekki áður séð annað eins. Þá er mikilvægt að rjúfa ekki samstöðuna.”

Sjálfsagt að vinna heima – til frambúðar

„Ég held að mörg fyrirtæki eigi það sameiginlegt með okkur að við áttuðum okkur mjög fljótt hversu vel fjarfundir virka og forrit á borð við Teams hjálpa okkur í fjarvinnunni. Við höfðum til dæmis nýhafið stefnumótun hjá fyrirtækinu í aðdraganda COVID og ákváðum að halda dampi í því. Við tókum vinnufundi með yfir hundrað manns, stefnumótandi fundi, á Teams og það gekk betur en maður þorði að vona. Ég er sannfærð um að þetta námskeið í tækni sem var í rauninni þröngvað upp á alla landsmenn í faraldrinum muni skilja eitthvað eftir sig. Ég vona að fundarmenningin breytist til frambúðar og öll vinnustaðamenning. Þetta þýðir líka að ef þú sinnir þannig starfi og ert með börn eða aðstæður eru þannig að þú vilt frekar vinna heima, þá er það vel hægt,” segir Berglind.

„Ég vona að fundarmenningin breytist til frambúðar og öll vinnustaðamenning. Þetta þýðir líka að ef þú sinnir þannig starfi og ert með börn eða aðstæður eru þannig að þú vilt frekar vinna heima, þá er það vel hægt”

Hún nefnir einnig ferðalög milli staða, að þau hafi snarminnkað á meðan á faraldrinum stendur. Samtök iðnaðarins reiknuðu út að níu milljónum klukkustunda hafi verið sóað í umferðartafir innan höfuðborgarinnar í fyrra. „Þetta er líka jákvætt. Við eigum ekki að ferðast að óþörfu. Það sama á við um fundi og ráðstefnur úti í heimi. Nú er boðið upp á allt rafrænt og það mun spara tíma og peninga og um leið hafa minni áhrif á umhverfið ef við hættum að fljúga á stutta fundi og ráðstefnur um allan heim."

Mestu áhrifin á reksturinn hjá Orku náttúrunnar voru við Jarðhitasýninguna í Hellisheiðarvirkjun á Hengilssvæðinu. Hana sækja um hundrað þúsund gestir árlega og níutíu prósent þeirra erlendir ferðamenn. „Við tókum ákvörðun strax í upphafi að að loka henni og hún var lokuð á meðan á fyrri bylgju stóð. Við opnuðum svo aftur í sumar en lokuðum aftur þegar seinni bylgjan skall á. Hvað Jarðhitasýninguna varðar sjáum við tækifæri í því að kynna hana betur fyrir Íslendingum. Þar getur fólk upplifað græna, sjálfbæra orkuvinnsluí einni glæsilegustu jarðhitavirkjun í heimi, Hellisheiðarvirkjun, innan um mosa og hraun í stórbrotinni íslenskri náttúru. Þar að auki er Hengilssvæðið kjörið til útivistar allan ársins hring, þar eru fjöldi merktra gönguleiða og um að gera fyrir fólk að nýta þetta fallega svæði,” segir hún frá.

Mikilvægt að rjúfa ekki samstöðuna

„Við framleiðum og seljum heimilum, fyrirtækjum og farartækjum rafmagn. Við verðum eins og mörg vör við að hluti viðskiptavina okkar á í greiðsluerfiðleikum og höfum komið til móts við fyrirtæki og heimili með því að fresta greiðslum. En mikilvægt er að viðskiptavinir hafi samband séu þeir í erfiðleikum og saman reynum við að finna lausnir." Hún bætir við að mikilvægt sé að allir hlutaðeigandi séu sveigjanlegir við fyrirtæki í erfiðleikum. „Þetta er krísa af þannig stærðargráðu að við höfum ekki áður séð annað eins. Þá er mikilvægt að rjúfa ekki samstöðuna.”

„Enn og aftur sér maður mikilvægi þess að eiga til sjóði þegar eitthvað ófyrirséð skellur á. Að því leytinu til stóð ríkissjóður vel, en sveitarfélögin eru misvel í stakk búin til að takast á við þetta og það er áhyggjuefni.”

Sveitarfélögin hafi komið misvel út úr áfallinu. „Við sjáum að Suðurnesin eru að fara langverst út úr þessu. Enn og aftur sér maður mikilvægi þess að eiga til sjóði þegar eitthvað ófyrirséð skellur á. Að því leytinu til stóð ríkissjóður vel, en sveitarfélögin eru misvel í stakk búin til að takast á við þetta og það er áhyggjuefni.”

Fókusinn á græna nýsköpun

Hún vill einnig sjá ríkara samráð stjórnvalda við hagsmunaaðila. „Sérstaklega þegar við erum að horfa til aðgerða stjórnvalda sem munu vara í lengri tíma. Þá verður samtalið að eiga sér stað. Maður hefur á tilfinningunni að umræðan sé aðallega tekin í fjölmiðlum – það er svosem allt í lagi – en opið og hreinskiptið samtal er það sem skiptir höfuðmáli þegar ákvarðanirnar sem verið er að taka eru svona stórar og hafa svona mikil áhrif. Ég vil þó taka fram að sjálf hef ég heilt yfir verið nokkuð ánægð með aðgerðir stjórnvalda. Og ég hef raunar samúð með þeim sem þurfa að taka þessar stóru og afdrifaríku ákvarðanir. Það er sannarlega ekki einfalt mál,” segir hún. „En sennilega er betra til lengri tíma litið að fara of varlega en of geyst.”

Mestar áhyggjurnar hefur Berglind af langtímaatvinnuleysi. „Það er algjörlega ljóst að það þarf að grípa til aðgerða vegna þess. Atvinnuleysi getur haft hræðileg félagsleg og samfélagsleg áhrif. Við þurfum að passa upp á fólkið okkar, gera þeim kleift að stunda nám – í allri þeirri vinnu er tækifæri til þess að setja fókus á þætti og greinar þar sem er hægt að stuðla að minni losun til framtíðar. Við þurfum að stuðla að því að hagkerfið fari hratt í átt að hringrásarhagkerfi. Við þurfum að leggja þunga áherslu á  nýsköpun og þá sérstaklega græna nýsköpun Þar liggja okkar stærstu tækifæri og þar getum við nýtt sérstöðu okkar sem land endurnýjanlegrar orku. Við Jarðhitagarð ON erum við að sjá síaukna gerjun eiga sér stað í nýsköpun þar sem áherslan er á bætta nýtingu auðlinda. Það er spennandi þróun í gangi hjá samstarfsaðilum okkar þar. Mikilvægast er að ekki setja allt púður í að gera allt eins og það var áður. Frekar að hugsa hvað við getum gert betur og öðruvísi og breytt áherslunum í þá átt.”