Stærsta verkefnið að vinda ofan af atvinnuleysinu

Sigurður R. Ragnarsson
Forstjóri Íslenskra aðalverktaka

Stærsta verkefnið að vinda ofan af atvinnuleysinu

Sigurður R. Ragnarsson
Forstjóri Íslenskra aðalverktaka
Íslenskir aðalverktakar er rótgróið fyrirtæki sem á sér 66 ára sögu. Fyrirtækið hefur komið að hönnun og byggingu margra þekktra mannvirkja, til að mynda tónlistarhússins Hörpu, jarðgangna og virkjana en verkefnin skipta hundruðum í gegnum áratugina og spanna allt svið byggingariðnaðarins. Að sögn Sigurðar R. Ragnarssonar, forstjóra félagsins hafði heimsfaraldurinn talsverð áhrif á starfsemina. Hann telur almennt að aðgerðir stjórnvalda hafi heppnast ágætlega. Hann hefur þó áhyggjur af atvinnuleysinu sem er mikið og er fyrirséð að muni aukast á næstunni og ekki síður af stöðu fyrirtækja sem er mjög alvarleg hjá mörgum hverjum.

„Langvarandi atvinnuleysi getur haft mikil sálræn og félagsleg áhrif sem ekki má gera lítið úr. Þetta er áhyggjuefni nú þegar við erum að fara inn í veturinn, myrkrið er að færast yfir og æ fleiri eru að missa lifibrauð sitt. Það verður að passa upp á þetta fólk,” segir Sigurður, sem tekur þó fram að hann sé almennt sáttur við þær aðgerðir sem stjórnvöld hafa þegar gripið til í tengslum við heimsfaraldurinn.

„Fyrst hertum við tökin í upphafi faraldursins með góðum árangri og svo aftur þegar faraldurinn fór að bæra á sér síðsumars og í haust. Mér finnst yfirvöld hafa gengið langt í aðgerðum núna miðað við alvarleika veirunnar sem þarf að setja í samhengi við t.d fjölda dauðsfalla ár hvert af völdum hefðbundinnar inflúensu. Þau félagslegu áhrif sem af þessum aðgerðum hljótast eru svo mikil. Það verður allt annað en einfalt verkefni að vinda ofan af því þótt að við förum að sjá til sólar í efnahagslegu tilliti,” skýrir hann frá.

„Að þessu sögðu hef ég samt skilning á því sjónarmiði að menn séu að reyna að verja okkur innanfrá, passa að skólakerfið geti haldið eðlilegum takti og að heilbrigðiskerfið virki eins og skildi. Engu að síður er það skoðun mín að það hafi verið býsna langt gengið undanfarnar vikur. Þær atvinnuleysistölur sem blasa við okkur eru skýrasta dæmi þess. Og ég endurtek, það má ekki vanmeta þau áhrif sem atvinnuleysi hefur á sálarlíf fólks og þarf að taka inn í jöfnuna þegar heildaráhrifin eru metin.”

Mér finnst yfirvöld hafa gengið langt í aðgerðum núna miðað við alvarleika veirunnar sem þarf að setja í samhengi við t.d fjölda dauðsfalla ár hvert af völdum hefðbundinnar inflúensu.

Afkastaminnkun og gengisfall krónunnar 

COVID hafði nokkur áhrif á rekstur ÍAV. „Það er eins með okkur og flest önnur fyrirtæki. Beinu áhrifin fólust einna helst í afkastaminnkun á okkar verkstað. Sérstaklega í vor og snemmsumars, þegar óvissan var sem mest og nú aftur í haust í þriðju bylgjunni. Þá dró verulega úr afköstum þar sem starfsfólk var bæði óttaslegið og að passa sig að halda fjarlægð sín í milli. Það er svo sem erfitt að meta í krónum hvað það hefur kostað fyrirtækið, en tjónið var umtalsvert. Þess utan féll til ýmiss kostnaður við að skipta fólki upp á verkstað, í mötuneytum, búningsherbergjum og kaffiaðstöðu; við að útvega grímur, hanska, þrífa og þar fram eftir götunum. En það var sjálfsagt mál að gera, auðvitað, og starfsfólkið var fljótt að aðlaga sig að breyttum tímum sem við erum afskaplega þakklát fyrir,” segir Sigurður.

Og það var engin vanþörf á, uppbyggingu í orkukerfinu eða í vegakerfinu. Við munum öll njóta góðs af því auk þess sem hið opinbera er að virka til sveiflujöfnunar eins og vera ber, en það hefur ekki alltaf tekist sem skyldi í gegnum áratugina.

Óbeinu áhrifin fólust fyrst og fremst í gengisfalli krónunnar. „Krónan hefur veikst um meira en 20 prósent síðan faraldurinn reið yfir. Það hefur bein áhrif á allt efni og aðföng sem við kaupum inn, sem er töluvert magn auk þess sem umtalsverðar seinkanir urðu á afhendingu efnis erlendis frá vegna COVID-áhrifa þar. Til að bæta gráu ofan á svart voru aðgerðir stjórnvalda í þá veru að hækka endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna vinnu á byggingarstað, aðgerð sem gerð var í því skyni að örva hagkerfið, hafði þau hliðaráhrif að byggingarvísitalan lækkaði. Þetta olli byggingargeiranum í heild miklum skaða. Þetta er enn þrætuepli milli greinarinnar og ráðuneytanna sem málið fellur undir. Þetta er stórmál. Greinin er að velta hundruðum milljarða á ári og þessi einstaka aðgerð varð til þess að tekjur verktakanna minnka um rúmlega þrjú prósent á mánuði. Þetta eru stórar upphæðir sem ekki veitir af inn á íslenskan vinnumarkað um þessar mundir. Það er líka óeðlilegt að hið opinbera geti „hagnast” með þessum hætti á sínum eigin stjórnvaldsaðgerðum.”

Sigurður tekur þó fram að COVID hafi ekki eingöngu haft slæm áhrif á reksturinn. „Ég nefni fundarmenninguna. Faraldurinn flýtti fyrir því sem sennilega hefði orðið með tímanum og gerir fundarhald að mörgu leyti skilvirkara, sem eru þessir fjarfundir. Manni dettur ekki lengur í hug að keyra í hálftíma til þess að sækja einn fund og svo aftur til baka, heldur tekur þá rafrænt. Fundirnir ganga býsna vel og ég tala ekki um hagræðinguna sem mun felast í þessu til lengri tíma. Maður þekkir mýmörg dæmi þess að fólk sé til að mynda að að sækja fundi erlendis, fyrir kannski einn dag. Þetta held ég að verði gjörbreytt eftir COVID og er bæði ódýrara og umhverfisvænna.”

Hvað varðar verktakabransann almennt er Sigurður ánægður með þá ákvörðun stjórnvalda að setja aukna fjármuni inn í innviðauppbyggingu sem viðbragð við faraldrinum. „Og það var engin vanþörf á, uppbyggingu í orkukerfinu eða í vegakerfinu. Við munum öll njóta góðs af því auk þess sem hið opinbera er að virka til sveiflujöfnunar eins og vera ber, en það hefur ekki alltaf tekist sem skyldi í gegnum áratugina.”


Saknar uppbyggilegra tillagna frá verkalýðshreyfingunni 

Sigurður nefnir að flest svið samfélagsins sýni sveigjanleika og skilning um þessar mundir og reyni að leggja sitt af mörkum. „Ég vil þó  nefna verkalýðshreyfinguna sem aðila sem mér finnst að gæti komið að borðinu með fleiri hugmyndir að lausnum á því ástandi sem hefur skapast í samfélaginu,” útskýrir Sigurður og heldur áfram.

„Þegar Lífskjarasamningurinn var undirritaður komu að því stjórnvöld, atvinnurekendur og verkalýðshreyfingin. Þetta eru þessir þrír stóru sem hafa með málið að gera. Nú þegar þessar hamfarir ganga yfir hafa stjórnvöld lagt sinn pakka á borðið, atvinnulífið og ekki síst launþegar lagt sitt af mörkum en ég hef saknað þess að verkalýðshreyfingin komi að málunum með opinn hug og reyni í sameiningu við hina að leita lausna.”

„Við erum ekki að fara til útlanda núna og eyða peningum. Þeir sem geta og eru aflögufærir eiga að gera það og kaupa innlendar vörur og þjónustu og styðja við íslenska framleiðslu og ekki síst að ferðast um Ísland."

Viðspyrnan þurfi að hefjast strax 

Sigurður imprar á mikilvægi þess að hvert og eitt okkar fari varlega. „Í baráttunni við veiruna verðum við öll að taka ábyrgð á því að gæta að persónulegum sóttvörnum. Gæta þess að veiran fari ekki á flug. Þannig getum við minnkað skaðann og fyrr hafist handa við að glíma við þau risavöxnu vandamál sem við stöndum frammi fyrir sem samfélag eftir að óværunni linnir,” segir Sigurður og bætir við að mikilvægt sé að þeir Íslendingar sem séu aflögufærir séu virkir neytendur.

„Við erum ekki að fara til útlanda núna og eyða peningum. Þeir sem geta og eru aflögufærir eiga að gera það og kaupa innlendar vörur og þjónustu og styðja við íslenska framleiðslu og ekki síst ferðast um Ísland. Fleiri Íslendingar ferðuðust um Ísland í sumar og held ég að það muni skila sér í fleiri innlendum ferðamönnum þegar fram líða stundir. Við verðum að spýta peningum inn í íslenska hagkerfið á meðan við heyjum þessa varnarbaráttu við veiruna. Þannig sköpum við störf og verðmæti og hjálpumst að í því að halda íslenska hagkerfinu gangandi.”