Lykillinn að leyfa nýsköpun og einkaframtakinu að blómstra

Sigríður Margrét Oddsdóttir
Framkvæmdastjóri Lyfju

Hlustaðu á hlaðvarpsviðtal við Sigríði Margréti hér

Lykillinn að leyfa nýsköpun og einkaframtakinu að blómstra

Sigríður Margrét Oddsdóttir
Framkvæmdastjóri Lyfju
Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Lyfju, segir að samhliða breyttri aldurssamsetningu þjóðarinnar ríði á að gera nauðsynlegar breytingar í heilbrigðisþjónustu. Í því muni nýsköpun og einkaframtakið gegna lykilhlutverki.

„Við lítum á okkur sem hluta af heilbrigðisþjónustu Íslendinga. Lyf eru engin venjuleg söluvara,“ segir Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Lyfju. Að sögn Sigríðar er fyrirtækið merkilegt fyrir margra hluta sakir. Fyrirtækið var stofnað árið 1996, þegar sérleyfin voru afnumin í apóteksrekstri.

Í upphafi var Lyfja eitt apótek í Lágmúla en apótekin telja nú 46, tuttugu og fimm árum síðar. Sigríður hóf störf hjá fyrirtækinu í upphafi árs 2019 og síðan hefur farið fram mikil stefnumótunar- og sóknarvinna, áherslan hefur verið lögð á breytingar sem þau vildu ná fram auk stafrænna lausna. Lyfsalan er aðeins hluti af rekstrinum því Sigríður segir Lyfju eiga að vera stað sem þú leitar til þegar þú vilt finna vörur til þess að lifa heilbrigðum lífsstíl og auka vellíðan almennt. Hjá Lyfju starfa um það bil 350 starfsmenn og af þeim er þriðjungur með sérmenntun á sviði heilbrigðismála. Ári áður en heimsfaraldurinn hófst var undirbúningur að nýju persónusniðnu snjallapóteki hafinn og því hleypt af stokkunum í október í fyrra.

Sérsniðið snjallapótek er framtíðin

„Þegar við lítum á heilbrigðisþjónustu og vörusölu og þjónustu á heilbrigðissviðinu fram á veginn þá sjáum við það fyrir að hún á eftir að verða persónulegri, byggja á tækninni, á eftir að verða sjálfstýrðari og líka heildrænni. Það sem við höfðum verið að undirbúa smellpassaði inn í þetta umhverfi og er eins konar persónusniðið snjallapótek. Ég geri mjög mikinn greinarmun á því sem Lyfju appið er og hefðbundinni vefverslun vegna þess að þegar ég opna appið sé ég bara mín gögn. Ég kemst ekki inn öðruvísi en að vera með rafræn skilríki og sé þá mínar lyfjaávísanir og ég sé mín verð byggt á því hvar ég stend í greiðsluþrepakerfi Sjúkratrygginga og þú þín verð - algjörlega sérsniðið að notandanum,“ segir hún.

„Við búum því miður við það hér á Íslandi að það er oft lyfjaskortur og fólk þarf að fara á milli apóteka, en með appinu er alveg tryggt að þú sérð í hvaða apóteki lyfin þín eru til. Við erum að spegla þjónustuna sem við erum að veita í apótekunum, það eru í rauninni okkar sérfræðingar í apótekunum hringinn í kringum landið sem eru að vinna í því að svara fyrirspurnunum, taka vörurnar til eða lyfin.Þannig að við erum þarna að nýta innviðina okkar og koma með tæknina inn til þess að leysa vandamál fyrir viðskiptavini. Svo kemur þessi heimsfaraldur og við höfum öll orðið vitni af því að það hafa verið stigin ótrúlega mikilvæg skref í tækniþróun og í því að tileinka sér tæknilausnir,“ segir Sigríður.

„Svo kemur þessi heimsfaraldur og við höfum öll orðið vitni af því að það hafa verið stigin ótrúlega mikilvæg skref í tækniþróun og í því að tileinka sér tæknilausnir.“

Maður sér fyrir sér að séu heilmikil tækifæri í því að einkaframtakið sé að þróa svona lausnir. Einkafyrirtæki hlaupa hraðar en hið opinbera – en hverjar eru helstu hindranir þegar fólk eins og þið eruð að koma með nýjar lausnir inná markaðinn?

Sigríður Margrét segir að þegar komi að heilbrigðisútgjöldum sé ekkert mikilvægara en að líta til nýsköpunar annars vegar og samvinnu einkageirans og hins opinbera hinsvegar. „Í fyrsta lagi erum við að horfa fram á það að á næstu fimmtíu árum mun fólki eldri en fimmtíu ára fjölga um fimmtíu prósent. Í öðru lagi hafa útgjöld hins opinbera og einkaaðila til heilbrigðismála verið að vaxa að meðaltali um 8 til 9 prósent síðustu 20 ár á ári staðvirt. Það eiginlega segir sig sjálft að þetta er ekki sjálfbært,“ útskýrir Sigríður og bætir við að það verði að finna nýjar leiðir til þess að leysa úr því hvernig við ætlum að stuðla heilbrigði og vellíðan.

„Þarna skiptir gríðarlega miklu máli að nýta einkaframtakið í því að búa til lausnir sem að stuðla að því að við getum fengið betri og persónusniðnari heilbrigðisþjónustu. Þar þarf til samvinnu milli opinbera geirans og einkaframtaksins.“

Heilbrigðiskerfið mun brjóta hagkerfið verði ekkert að gert

Sigríður Margrét segir heilbrigðisþjónustu í eðli sínu mjög íhaldssama grein. „Þetta er svona sú grein þar sem þér líður mjög vel vitandi að sá sem er að þjónusta þig hafi verið í greininni í tuttugu eða þrjátíu ár. Það þarf alltaf að vera góð samvinna og samtal, en ég held að það skipti höfuðmáli núna að horfa á það hvað einkaframtakið er að gera í þessari grein og hvaða árangri hefur verið náð þar. Því ef við horfum á útgjöldin í einhverri heildarmynd þá sjáum við til að mynda að lyfjakostnaður hefur ekki verið að vaxa í sama hlutfalli og önnur heilbrigðisútgjöld.“

Fyrir tíu árum síðan hafi lyfjakostnaður verið 13 prósent af heilbrigðisútgjöldum en í dag sé hann 9 prósent. „Þarna eru einkarekin apótek sem eru að keppa á hverjum degi og eru í gríðarlegri samkeppni á markaðnum. Þar er verið að veita mjög góða þjónustu, við erum til dæmis hér á landi með fleiri starfandi lyfjafræðinga en á hinum norðurlöndunum og við búum flest í innan við fimm mínútna fjarlægð frá apóteki. Það er verið að veita góða þjónustu, á lágum verðum. Þarna finnst mér að við eigum að horfa og segja, hvernig getum við nýtt módelið sem þarna er inní öðrum geirum heilbrigðisþjónustunnar?“

Hún vísar til þess að sérfræðilæknar hafi verið samningslausir um árabil. „Maður fær það stundum á tilfinninguna að það sé því miður verið að vinna öllum árum að því að færa okkur í áttina frá einkarekstri. Þar eru tækifæri og það er einfaldlega nauðsynlegt að líta til aukins einkarekstrar í heilbrigðisþjónustu almennt.“

Um þetta hefur verið rætt í mörg ár, klassíska dæmið eru liðskiptaaðgerðirnar sem við virðumst vera tilbúin að greiða fyrir þreföldu verði í útlöndum svo það sé örugglega ekki gert á af lækni á einkarekinni stofu á Íslandi. Dæmin eru mun fleiri um allt að því óskiljanlega tregðu í kerfinu. Hvernig er hægt að leysa það? Verður bara að gera það með því að næsti ráðherra verði heilbrigðis- og nýsköpunarráðherra?

Sigríður Margrét hlær. „Það væri náttúrulega algjörlega frábært að hafa slíkan ráðherra. Þetta er einn stærsti útgjaldaliður ríkisins og við sjáum það einmitt að ef við gerum ekkert mun heilbrigðiskerfið brjóta hagkerfið. Við þurfum að finna lausnir. Við eigum þegar ótrúlega mikið af hrikalega flottum nýsköpunarfyrirtækjum og þegar þú þróar nýsköpunarlausnir á þessu sviði þá virka þær oft á tíðum alls staðar um allan heim. Við eigum alveg klárlega að nýta krafta einkaframtaksins og stunda nýsköpun í heilbrigðisþjónustu en þó aldrei auðvitað á kostnað fagmennskunnar og öryggisins.“

„Maður fær það stundum á tilfinninguna að það sé því miður verið að vinna öllum árum að því að færa okkur í áttina frá einkarekstri. Þar eru tækifæri og það er einfaldlega nauðsynlegt að líta til aukins einkarekstrar í heilbrigðisþjónustu almennt.“

Í glímunni við heimsfaraldurinn spilaði Íslensk erfðagreining, einkafyrirtæki á sviði heilbrigðisþjónustu, lykilhlutverk í viðbragðinu. Er ekki einmitt tíminn til að fara að slá í klárinn í þessari umræðu?

„Ég er bara algjörlega þar.“

Finnst þér þú tala fyrir daufum eyrum?

„Ekki þegar ég er að tala við þig,“ segir hún og hlær. „Það sem ég held að skipti miklu máli er að það sé samtal og umræðugrundvöllur og líka bara pólítísk stefna að fara í þessa vegferð. Ég held að þetta sé viðfangsefni sem við þurfum að vera tala um einmitt núna. Við höfum verið að fara í gegnum heimsfaraldur og okkur hefur tekist vel til á Íslandi en það má líka segja að við höfum séð það svart á hvítu hvað heilbrigðiskerfið okkar er brothætt. Við tókum hagkerfið og ýttum á stopp-takkann fyrir heilbrigðiskerfið og fyrir heilsu landsmanna. Það sem er hins vegar áhugavert er að hér erum við með eina tegund af sjúkdóm sem hefur haft þetta mikil áhrif,“ segir hún og heldur áfram.

„Staðreyndin er sú að það deyja í hverri einustu viku tugir Íslendinga, hvert og eitt okkar lifir að meðaltali 30.149 daga. Við deyjum öll einhverntíma. En þegar horft er af hvaða ástæðum við erum að deyja, og það eru skýrslur sem hafa verið gefnar út sem sýna það, er ljóst að rúmlega þriðjungur dauðsfalla er af hegðunartengdum ástæðum. Við viljum öll lifa lengi og við viljum lifa vel svo það blasa við tækifæri til að gera betur. Það eru mörg verkefni sem þarf að vinna til að auka heilbrigði og vellíðan almennt.“

Með heilsu á heilanum

En eins og í ykkar fyrirtæki - þú talar um lífsstílstengda sjúkdóma og svo um öldrun þjóðarinnar, hvernig sjáið þið fyrir ykkur þróunina næstu tíu árin?

„Það sem við höfum verið að gera síðustu tvö ár er að móta stefnu og á síðasta ári hófum við innleiðingu hennar af fullum krafti. Við höfum verið að endurskipuleggja verslanirnar okkar, endurskipuleggja vöruvalið og þjónustuna. Koma inn með nýjar lausnir, stafrænar og svo höfum við verið að fjárfesta í tengdri starfsemi. Við höfum til dæmis endurskipulagt verslanir okkar með þeim hætti að við erum að gera þjónustuna mjög sýnilega. Inni í apótekunum er mikill mannauður- einn þriðji af okkar starfsfólki er sérmenntað heilbrigðisstarfsfólk og fólk hefur aðgengi að apótekum allan hringinn í kringum landið, sum eru opin alla daga ársins. Við erum að gera ráðgjafarherbergin okkar og þjónustuna miklu sýnilegri. Það eru tækifæri fyrir apótekin og fyrir lyfjafræðinga til þess að koma miklu meira inn að þeirri þjónustu sem verið er að veita á öðrum stöðum í heilbrigðiskerfinu. Við höfum líka verið að taka vöruúrvalið okkur í gegn. Þú kaupir til dæmis ekki lengur hjá okkur sykrað gos,“ segir Sigríður Margrét og segir að Lyfja vilji vera meira en apótek.

„Það eru tækifæri fyrir apótekin og fyrir lyfjafræðinga til þess að koma miklu meira inn að þeirri þjónustu sem verið er að veita á öðrum stöðum í heilbrigðiskerfinu. Við höfum líka verið að taka vöruúrvalið okkur í gegn. Þú kaupir til dæmis ekki lengur hjá okkur sykrað gos.“

„Við erum auðvitað apótek í grunninn, en við viljum líka vera staðurinn sem þú leitar til þegar þú vilt finna vörur sem henta til þess að lifa heilbrigðum lífsstíl og auka vellíðan almennt. Undanfarið höfum við til að mynda tekið þátt í alls kyns sérverkefnum. Við byrjuðum á því að fara í verkefni sem heitir Betri svefn, með Dr. Erlu Björnsdóttur og vekja athygli á mikilvægi svefnsins. Það er því miður þrautseig og gömul mýta að þeir sem nái miklum árangri þurfi lítið að sofa, en staðreyndin er sú að svefn er gríðarlega virkt ástand. Það er ofboðslega margt mikilvægt sem gerist í líkamanum þegar þú sefur.“

Síðar fóru þau í átaksverkefni sem snerist um meltingarflóruna. „Við unnum í samvinnu við Birnu Ásbjörnsdóttur sem er einn af okkar helstu sérfræðingum á þessu sviði og er núna að vinna rannsóknir á Mass General Hospital við Harvard á meltingarflórunni. Verkefnið sem við erum í þessa dagana er unnið í samvinnu við barnahjúkrunarfræðinga og ljósmæður til að sýna fram á allt sem við getum gert til þess að aðstoða við getnað, meðgöngu, fæðingu og umönnun ungabarna. Við tókum til í sölu í fyrsta sinn á síðasta ári mikið af sjálfsprófum, DNA próf til dæmis og nýlega tókum við inn frjósemispróf fyrir karlmenn,“ segir hún frá.

„Sjálfsprófin eru nokkurs konar heilsugæslan heima hjá þér, og við viljum að þau séu sýnileg þegar þú kemur inn í apótekið til okkar. Við erum með heilsu og vellíðan á heilanum og allt okkar starf tekur mið af því.“

Þið eruð þá væntanlega með þessum aðgerðum að minnka lyfjanotkun eða að minnsta kosti gera tilraun til þess?

„Já, algjörlega. Okkar sýn er ekki að selja lyf. Okkar sýn er að lengja líf og bæta lífsgæði. Við vitum að við stöndum frammi fyrir fjölmörgum áskorunum á því sviði. Þegar við vorum að fjalla um betri svefn þá höfðum við milligöngu um að selja svefnmeðferðir hjá Betri svefn, sem er annað fyrirtæki en okkar. Þetta snýst um heilsu almennt.“

„Það er því miður þrautseig og gömul mýta að þeir sem nái miklum árangri þurfi lítið að sofa, en staðreyndin er sú að svefn er gríðarlega virkt ástand. Það er ofboðslega margt mikilvægt sem gerist í líkamanum þegar þú sefur.“

Sérstakt að skattleggja lífsnauðsynlega vöru

Sigríður Margrét segir stóru áskorunina sem Lyfja standi frammi fyrir, og raunar íslensk fyrirtæki almennt, sé hár launakostnaður. Auk þess finna þau áþreifanlega fyrir því að vera í samkeppni um starfsfólk við hið opinbera. „Við sjáum það að ríkið hefur verið leiðandi þegar kemur að launaþróun. Við finnum áþreifanlega fyrir því að við erum að keppa við hið opinbera þegar kemur að þekkingu og starfsmönnum. En það eru líka aðrir þættir í umhverfi hins opinbera sem skipta mjög miklu máli fyrir okkar rekstur. Það að reka lyfjaverslanakeðju er engin venjuleg smásala. Það er ofboðslega þungt regluverk í kringum þennan markað, sem er að hluta til nauðsynlegt. Það var til dæmis starfandi lyfjagreiðslunefnd sem ákveður heildsöluverð og hámarksálagningu í smásölu en í dag er það hlutverk á hendi Lyfjastofnunar. Þegar umhverfið er með þessum hætti skiptir fyrirsjáanleiki miklu máli, eins og reyndar í öllum rekstri,“ greinir hún frá.

Hún nefnir dæmi um breytingu á framkvæmd á lögum sem hefur mikil áhrif á reksturinn. „Um lyfjafræðinga gildir það að það þurfi að vera að jafnaði alltaf tveir lyfjafræðingar á vakt í apóteki samkvæmt lyfjalögunum. Þetta hefur sögulega skýringu og er einstakt fyrir Ísland. Þetta er líka einstakt hvað varðar starfstéttir í heilbrigðisgeiranum, því þú ferð ekki til hjúkrunarfræðings eða læknis og þau sitja tvö á móti þér. Þetta á uppruna sinn skilst mér, þegar sérleyfin voru afnumin fyrir apótek. Þá höfðu menn áhyggjur af því að lyfjafræðingum myndi fækka og þess vegna var þetta innleitt. Í dag hefur það svo breyst að tilkomin er tækni sem tryggir öryggi og aðstoðar lyfjafræðingana þegar þeir eru að taka til lyfin. Svona hefur þetta verið inn í lögunum og er svosem óbreytt í nýju lögunum, en nú er Lyfjastofnun að breyta sinni framkvæmd á þessu og ætlar að framfylgja þessu með breyttum hætti. Það hefur bein áhrif á okkar mönnun í apótekunum,  leiðir af sér beinan kostnað og mun fækkaapótekum.

Af hverju er þessi framkvæmd eða túlkun að breytast núna ef lagabókstafurinn hefur ekki breyst?

„Það er stóra spurningin.“  

En svona almennt með það að ríkið sé að hafa afskipti af verðlagningu lyfja. Hvernig sæirðu það fyrir þér í fullkomnum heimi?

„Í fullkomnum heimi? Staðreyndin er sú að það ríkir gríðarleg samkeppni á þessum markaði. Ef þú tekur tvo stærstu aðilana á þessum markaði þá hafa þeir samtals misst 20-25 prósent markaðshlutdeild á síðustu fimmtán árum, meðal annars með tilkomu alþjóðlegra risa eins og Costco. Auk þess hafa á þessum tíma orðið til margar litlar keðjur og mörg einstaklingsapótek. Í mínum huga eru þessi afskipti ríkisins af verðlagningunni barns síns tíma. Mér finnst apótekin vera að gera mjög vel að mörgu leyti, við leggjum til dæmis mikla áherslu á það í Lyfju að bjóða alltaf samheitalyf, ódýrasta kostinn. Í appinu er ódýrasti valkosturinn alltaf efst. Í þessum fullkomna heimi sem við erum að ræða um, þá væri líka ráð að afnema virðisauka af lyfjum. Mér finnst óneitanlega mjög sérstakt að lyf sem eru lífsnauðsynleg vara í sumum tilvikum beri 24 prósent virðisauka. Það er alls ekki þannig í öllum löndum sem við berum okkur saman við. Víða er enginn virðisauki á heilbrigðisþjónustu. Ríkið ætti kannski frekar að huga að því sem leið til að draga úr kostnaði – að vera ekki að skattleggja lífsnauðsynlega vöru.“