Ísland er fljótandi og vannýtt eldisstöð

Pétur Hafsteinn Pálsson
framkvæmdastjóri

Hlaðvarp: Pétur Hafsteinn Pálsson - Ísland er fljótandi vannýtt eldisstöð

Ísland er fljótandi og vannýtt eldisstöð

Pétur Hafsteinn Pálsson
framkvæmdastjóri
Pétur Hafsteinn Pálsson er framkvæmdastjóri Vísis, framsækins sjávarútvegsfyrirtækis með höfuðstöðvar í Grindavík. Vísir hefur verið meðal þeirra fyrirtækja sem dregið hafa vagninn í nýtingu hátækni í fiskvinnslu hér á landi og leggja mikla áherslu á fullnýtingu afurða og ábyrgar veiðar. Hjá fyrirtækinu starfa um þrjú hundruð manns. Pétur segir mikilvægra en nokkru sinni fyrr að líta til þeirra tækifæra sem leynast víða, þegar um auðugt land af náttúruauðlindum líkt og Ísland er að ræða. Sérstaklega nú þegar skórinn kreppir. Matarframleiðsla sé framtíðin og geti skapað fjölda fjölbreyttra starfa í náinni framtíð. Hátt atvinnuleysisstig líkt og nú er reyndin, sé nefnilega eitur í beinum Íslendinga.

Sjávarútvegurinn hefur borið sig vel í kjölfar heimsfaraldursins miðað við margar aðrar greinar, þó veiran hafi leitt til óhagræðis fyrir starfsemi þeirra eins og annarra. „Við höfum haldið okkar starfsemi gangandi, með röskun þó, og skattgreiðslum inn í ríkissjóð sem er mjög mikilvægt. Það sem ríður á er að halda tekjuflæðinu gangandi svo það verði eitthvað til skiptanna. Nú tekur sjávarútvegurinn að sér það hlutverk að vera mikilvægasta mjólkurkúin og verður að fá að ganga og halda áfram að greiða skatta, búa til störf og það sem þarf til að halda samfélagi gangandi,” segir Pétur og segir ljóst að til þess að ná upp fyrri hagsæld í samfélaginu þurfi að líta til þeirra tækifæra sem hér eru, þrátt fyrir tilkomu COVID-19.

„Það liggja heilmikil vannýtt tækifæri í framleiðslu matvæla hér á landi og þar hefur sjávarútvegur vissulega lagt sitt af mörkum. Þróunarstarf er á fullu í þessum fiskvinnslum, sem aftur kallar á mikla vinnu hjá iðnfyrirtækjum og þar fram eftir götunum. Hvað okkur varðar í sjávarútveginum þá liggja tækifærin í því gera betur og komast nær endamarkaðnum, þangað sem afurðin er seld. Þannig er hægt að spara allar milliumbúðir og kostnað við milliliði, ef sem mest yrði gert hér heima – frá veiði til vinnslu til endanlegrar söluvöru – svokölluð fullvinnsla.”

Nú tekur sjávarútvegurinn að sér það hlutverk að vera mjólkurkúin og verður að fá að ganga og halda áfram að greiða skatta, búa til störf og það sem þarf til að halda samfélagi gangandi.

Umdeild starfsemi en vel þess virði

Pétur segir að ef litið sé heimsframleiðslu á fiski, hafi undanfarna áratugi orðið lítil breyting á því sem veiðist af villtum fiski. Vöxturinn sé í eldi. Vissulega sé deilt um sjóeldi sem atvinnugrein. „En það er ekki hægt að líta fram hjá því að við höfum þessa auðlind sem er heita vatnið. Það er risavaxið verkefni að efla fiskeldi og ef ekki í sjó, þá allavega á landi. Ísland er fljótandi eldisstöð sem er vannýtt og ónýtt í heimi þar sem eftirspurn eftir matvælum verður sífellt meiri. Það sem við eigum að gera núna er að kortleggja þessi risatækifæri sem eru fyrir augunum á okkur; matarframleiðsla og tækjaframleiðsla til matarframleiðslu. Við erum rík af flottum iðnfyrirtækjum sem gætu gert ótrúlegustu hluti í þessum efnum,“ segir Pétur og leggur áherslu á að einnig eigi að leggja áherslu á sjóeldi, að uppfylltum ströngum kröfum um umhverfisvernd.

Greinin hefur staðið sig vel í því að minnka olíuneyslu, en umhverfisspor umbúðanna er enn of mikið. Með tækninni sjáum við fram á að geta pakkað vörunni hér heima í endanlegar umbúðir sem svo rata á endamarkaðinn, þar sem varan verður svo keypt í stað þess að eiga millilendingu einhvers staðar annars staðar til þess eins að pakka henni inn upp á nýtt og flytja á enn annan stað.

„Það sem við eigum eftir að gera er að finna nægilega ódýra leið til að gera landeldi hagkvæmt. Heita vatnið sem hægt er að nota er affall úr húsum landsmanna sem er um 30 - 40 gráður. Við þurfum að finna leið til að hefja uppbyggingu sem fyrst. Þá eru okkur engin takmörk sett með nær óendanlegu magni af heitu vatni og fullt af landi. Þetta yrði gríðarlega atvinnuskapandi því afleidd starfsemi í rafmagni, orku og fleiri sérfræðistörfum myndi óhjákvæmilega fylgja. Þarna er okkar sérstaða og þekking. Þangað eigum við að líta, beina menntuninni og aflinu öllu í að byggja þetta upp.“

Tæknin flytur fjöll

Sérstaða Vísis er að fyrirtækið gerir nær eingöngu út línubáta. Þá heldur Vísir úti saltfiskvinnslu og hátæknifrystihúsi. Tæknin spilar stóra rullu í starfseminni og er stór ástæða þess að fyrirtækið gat aðlagað sig fljótt að breyttum veruleika þegar veiran breytti öllu. „Skurðartæknin er lykillinn í þessari nýju sýn í fiskvinnslu og það sem hún leiðir af sér er þessi róbótavæðing. Skurðartæknin gerir það að verkum að þú getur skorið flakið á mun nákvæmari hátt eftir pöntunum kúnna. Þannig nýtir maður flakið miklu betur um leið og vöruúrvalið verður mun fjölbreyttara. Í kjölfarið komu til róbótar sem svo raða vörunni í kassana. Þarna er stórt tækifæri fyrir atvinnugreinina. Það er mikil eftirspurn eftir okkar vörum,“ útskýrir Pétur.

„Það sem ég vil fara leggja áherslu á núna, og held að öll greinin sé á sama stað, er að vinna að því að hætta þessum milliflutningum afurðanna og milliumbúðum. Greinin hefur staðið sig vel í því að minnka olíuneyslu, en umhverfisspor umbúðanna og flutninganna er enn of mikið. Með tækninni sjáum við fram á að geta pakkað vörunni hér heima í endanlegar umbúðir sem svo rata á endamarkaðinn, þar sem varan verður svo keypt í stað þess að eiga millilendingu einhvers staðar annars staðar til þess eins að pakka henni inn upp á nýtt og flytja á enn annan stað. Því meira sem við fullvinnum á Íslandi, því meiri atvinna skapast og því minna verður umhverfissporið.“  

Þessi nákvæmni og fullnýting afurða var til þess að Pétur og félagar voru mjög fljótir að bregðast við þegar hótel- og veitingageirinn nánast lagðist af í einni svipan. „Þá gerðist það að fólk hætti að panta sér fisk á veitingastöðum og fór að kaupa hann út í búð. Við einfaldlega aðlöguðum okkur að því. Það var átak og það var mikið haft fyrir því, en okkur tókst að nýta þennan sveigjanleika í framleiðslunni til breyta því sem breyta þurfti.“

En maður hefur auðvitað spurt sig að því hvort tjónið hefði orðið eitthvað minna ef við hefðum ekki lokað landamærunum. Ég held að sé alveg óreynt með það, hvort það sé dýrara að hafa gert það eða hafa ekki gert það.

Hann segir þó óvænt tækifæri stundum koma upp úr krafsinu. „Við höfum verið að upplifa ákveðin jákvæð dæmi með viðskiptavini erlendis, eins og með hinn klassíska rétt Breta, fish and chips, að okkar stærsti viðskiptavinur þar í landi var fljótur að aðlaga sig að breyttum veruleika þar með því að bjóða markvisst upp á heimsendingu eða þann möguleika að panta í gegnum síma eða netið og fólk gat þá sótt fiskinn og frönskurnar með snertilausum hætti. Í því tilfelli hefur orðið söluaukning í ákveðinni afurð hjá okkur. Svo eigum við eftir að sjá betur, eftir COVID og til lengri tíma litið, hvað situr svo eftir af því.”

Allir sjómenn skimaðir

Pétur lýsir því þó að lífið sé langt í frá eins fyrir og eftir heimsfaraldurinn. „Jú, vissulega er sparnaður í utanlandsferðum, tímasparnaður að þurfa ekki að ferðast til og frá funda – en á móti kemur að meira er sett í sóttvarnir. Þar er aukinn kostnaður. Við skimum til dæmis alla sjómenn sem fara um borð og í landi er hólfaskipting starfseminnar í fyrirrúmi. Ég hugsa að við komum bara út á sléttu þarna. Gengið hefur líka vissulega hjálpað okkur í að mæta verðlækkunum sem faraldurinn olli. En við erum brött og eigum því vitaskuld ekki síst að þakka mætu starfsfólki okkar sem hafa sýnt ótrúlegan sveigjanleika og verið lausnamiðuð. Því þetta er auðvitað ekkert eðlilegt árferði. Við höfum á móti borið kostnaðinn af því þegar til dæmis börn eða heimilismenn eru að lenda í sóttkví og fleira í þeim dúr. Það hafa allir reynt að sýna þessu ástandi skilning, held ég.“

Hann segir stjórnvöld hafa staðið sig ágætlega í sínum ákvörðunum á erfiðum tímum. „Mér finnst stjórnvöld hafa spilað nokkuð vel. Við höfum öll getað orðið sæmilega við þessum tilmælum og svona. Eftir á er áreiðanlega hægt að sigta eitthvað út og segja að það hafi verið ýmist of eða van og auðvitað er auðvelt fyrir mig að tala því landamærin eru opin fyrir mínar vörur – annað en fyrir ferðaþjónustuna. Veiran fer ekki á milli landa með fiski, heldur fólki. En maður hefur auðvitað spurt sig að því hvort tjónið hefði orðið eitthvað minna ef við hefðum ekki lokað landamærunum. Ég held að sé alveg óreynt með það, hvort það sé dýrara að hafa gert það eða hafa ekki gert það.“

Massaferðamennskan sé liðin undir lok

Svo er það hitt, segir Pétur. „Hvort og hvernig ferðamennirnir koma aftur. Ég held að það verði ferðamennska en ekki massaferðamennska eins og hér áður. Ég hef fulla trú á því að þessir atburðir muni breyta ferðavenjum fólks. Þessi ferðalög voru auðvitað orðin alveg súrrealísk, þú gast stökkið til Japans eða Kína eftir mörgum leiðum með nokkurra klukkustunda fyrirvara. Þetta held ég að muni breytast – og talandi um umhverfismálin, þá er ljóst það munu allir þurfa að endurskoða hversu mikið flug er notað almennt til ferðalaga og flutninga. Það er og verður Íslendingum mjög mikilvægt að  almenn sátt sé um umhverfisspor flugsins.“

Versta afleiðing veirunnar á íslenskt samfélag segir Pétur hins vegar án efa vera atvinnuleysið. „Á því þarf að taka. Fyrir utan tekjumissinn getur maður ekki hugsað sér að fá ekki að vakna til einhvers á morgnana. Það er nokkuð sem við eigum aldrei að sætta okkur við að hér festist í sessi eitthvert atvinnuleysisstig að nokkru ráði. Það er versta bölið og Íslendingar þekkja þetta ekki. Þessu verðum við að ráða bót á.“

Fyrir utan tekjumissinn getur maður ekki hugsað sér að fá ekki að vakna til einhvers á morgnana. Það er nokkuð sem við eigum aldrei að sætta okkur við að hér festist í sessi eitthvert atvinnuleysisstig að nokkru ráði. Það er versta bölið og Íslendingar þekkja þetta ekki. Þessu verðum við að ráða bót á.