Umhverfismálin eru það sem allir eru að tala um

Áslaug Hulda Jónsdóttir
Viðskipta- og þróunarstjóri Pure North Recycling

Hlustaðu á hlaðvarpsviðtal við Áslaugu Huldu hér

Umhverfismálin eru það sem allir eru að tala um

Áslaug Hulda Jónsdóttir
Viðskipta- og þróunarstjóri Pure North Recycling

Áslaug Hulda Jónsdóttir, einn eigandi Pure North Recycling, hóf að pæla í endurvinnslu þegar vinkona hennar og samstarfskona, Katrín Pétursdóttir eigandi og forstjóri Lýsis, sagði það ótækt að Íslendingar væru komnir á þann stað að það þyrfti að sigta örplast úr lýsinu, því plastið væri komið í fiskinn. „Við þurfum að koma í veg fyrir það að plastið fari í hafið, við þurfum forvarnir,” sagði Katrín við Áslaugu.

Áslaug Hulda hafði enga reynslu af endurvinnslu og hafði lítið beitt sér í umhverfismálum. „Ég spurði Katrínu einfaldlega um hvað hún væri eiginlega að tala. Ég vissi ekkert um endurvinnslu á plasti,” segir hún og hlær. „En Kötu var alvara. Ég þorði því ekki öðru en að hlusta – og á endanum hlýða. Katrín er kona sem framkvæmir það sem hún segir. Og við fórum að skoða leiðir til að endurvinna plast á Íslandi og í upphafi vorum við mest að horfa á veiðarfærin.”

Það var svo yfir sjónvarpsglápi sem Áslaug Hulda rambaði á viðtal við Sigurð Halldórsson, stofnanda og framkvæmdastjóra Pure North Recycling. „Ég var bara að flakka í sjónvarpinu í letikasti heima og sé viðtal á N4 við Sigga, skólafélaga úr grunnskóla sem ég hafði ekki hitt lengi, og hugsaði; já hann er í þessum bransa, ég fæ mér kaffibolla með honum. Við þrjú hittumst og þannig hófst þetta ævintýri fyrir um þremur árum síðan.”

Pure North Recycling endurvinnur plast með umhverfisvænum orkugjöfum og er jarðvarminn þar í aðalhlutverki. Í dag er fyrirtækið það eina á Íslandi sem endurvinnur plast að fullu á iðnaðarskala. „Þetta er ótrúlega skemmtilegur bransi. Hringrásarhagkerfið, umhverfismálin, sjálfbærni, þetta er það sem allir eru að tala um og það vantar lausnir og betri farvegi. Tækifærin eru mörg.”

Eins og Homeblest

En með umhverfismálin almennt, það eru nokkrir skólar í þessu. Þeir sem vilja að ríkið stígi inn í og setji reglur – setji á skatta og staðla – svo eru þeir sem segja að markaðurinn muni einfaldlega ráða fram úr þessu sjálfur. Hvar stendur þú í því?

„Ég segi, þetta er eins og Homeblest. Við þurfum bæði. Eitt virkar ekki eitt og sér og auðvitað þarf hið opinbera að setja kröfur, markmið um hvert við stefnum. En svo má hið opinbera ekki þvælast fyrir því atvinnulífið verður að fá að finna sínar leiðir og lausnir. Ef við hugsum til dæmis um endurvinnsluna, þá sé ég ekki fyrir mér einhverja ríkisendurvinnslu. Þarna eigum við að búa til virðiskeðju - skapa störf og tækifæri og atvinnulífið er best til þess fallið að leysa slík verkefni. Hins vegar þarf hið opinbera að spila með. Við erum í dag með kerfi sem er í grunninn mjög gott en það verður að uppfæra þannig að það sé í takti við þau verkefni og þau markmið sem við erum sameiginlega að vinna að,” segir Áslaug og tekur dæmi.

„Þetta er eins og Homeblest. Við þurfum bæði. Eitt virkar ekki eitt og sér og auðvitað þarf hið opinbera að setja kröfur, markmið um hvert við stefnum. En svo má hið opinbera ekki þvælast fyrir því atvinnulífið verður að fá að finna sínar leiðir og lausnir. Ef við hugsum til dæmis um endurvinnsluna, þá sé ég ekki fyrir mér einhverja ríkisendurvinnslu.“

„Ég er til að mynda almennt ekki hrifin af skattahækkunum, en hvaðan kemur hvatinn og stopparinn? Tökum dæmi. Við erum með batterí sem heitir Úrvinnslusjóður sem útdeilir fjármunum sem innheimtir erum með sköttum og gjöldum. Þarna getum við gert miklu betur því á tímum hringrásarhagkerfis er kerfið hér enginn hringur, heldur bein lína þar sem fjárhagslegir hvatar eru flestir í þá átt að flytja allt óunnið úr landi. 

Innflytjandi sem flytur inn vöru sem óendurvinnanleg og hálfgerður bastarður hvað varðar endurvinnslu getur sloppið við úrvinnslugjald á meðan sá sem flytur inn umhverfisvæna vöru sem er kjörin til endurvinnslu eða endurnýtingar greiðir meira. Þetta er auðvitað galið og þveröfugt við það sem við hljótum öll að vilja stefna að,” útskýrir Áslaug Hulda.

Úrgangsmálin eru risastórt mál

Hún tekur annað dæmi af sveitarfélögum. „Íbúi sem er duglegur að flokka og fara á grenndarstöðvar þannig að úrgangur við hans heimili er miklu minni og umhverfisvænni en nágrannans, af hverju borgar hann ekki lægri sorphirðugjöld en sá sem flokkar ekki neitt? Úrgangsmálin eru risastór. Sveitarfélög borga um sex milljarða á hverju ári í þennan málaflokk. Hér er tækifæri til að gera betur, bæði fjárhagslega og fyrir umhverfið. Í þessum málaflokki er ákveðin kerfisvilla og hún liggur aðallega í því að fjárhagslega hvatann vantar eða hann er öfugur. Við þurfum að gera betur gagnvart umhverfinu og hið opinbera á að koma að því með því að gera það fýsilegt fyrir fólk og fyrirtæki að vera umhverfisvænna.”

„Svo er það óneitanlega sérstakt, og nokkuð sem verður að breyta, að við sem erum að byggja upp nýsköpunarfyrirtæki erum að keppa um styrki frá hinu opinbera við hið opinbera. Þarf þarf augljóslega að skilgreina þarna á milli.”

Í sjómann við kerfið

Pure North er sex ára fyrirtæki. Áslaug Hulda lýsir því sem hálfgerðri tilraunastofu. Þar hafi verið fundin upp ný leið til endurvinnslu með orkuskiptum, jarðvarmi og umhverfisvænir orkugjafar eru nýttir í vinnsluferlinu. Umhverfisávinningurinn sé ótvíræður.

„Við erum að tala um allt að 90% minni kolefnislosun samanborið við endurvinnslur í Evrópu og Asíu. Við notum minna vatn, umhverfisvænni orku og engin kemísk efni. Við erum líka að tryggja að plast verði aftur plast. Fyrir hvert plast sem er endurunnið spörum við 1,7 tonn af olíu, því það er magnið sem þarf af olíu til að búa til eitt tonn af nýju plasti. Mér finnst þetta vera algjör ,,no brainer.” En okkar helsta hindrun hefur einfaldlega verið kerfið sjálft,” útskýrir Áslaug Hulda og heldur áfram.

„Það er ótrúlegt að árið 2021 þegar lögð er áhersla á hringrásarhagkerfið, sjálfbærni og mikilvægi innlendrar endurvinnslu erum við  á sama tíma í sjómann við kerfið. Hvatarnir eru þannig að það er alltaf verið að reyna að troða okkur í gamalt mót, mót sem við pössum ekki í! Það hefur reynst okkur mjög erfitt að fá breytingar í gegn hjá Úrvinnslusjóði og að tekið sé tillit til innlendrar endurvinnslu. Það er ekki í neinum takti við það sem er að gerast í löndunum í kringum okkur og megnið af plasti er enn sent óunnið úr landi. Á sama tíma erum við að reyna að byggja upp nýja atvinnugrein á Íslandi. Efla hringrásina, sjálbærnina, skapa störf. Og við erum í þeirra stöðu að okkur vantar plast til endurvinnslu þegar allt er stútfullt af plasti. Kerfið sjálft hefur verið okkar helsta áskorun. Nú hef ég starfað innan annarra geira, lengst af í menntamálunum og um tíma í heilbrigðisgeiranum, og maður hefði haldið að þar væri mesta íhaldssemin og erfiðast að ná fram breytingum.  Þetta er því miður ekkert auðveldara í kringum þessi umhverfismál. Kerfið hefur hvata til að verja sjálft sig. En við erum ekkert hætt, við erum að rétt að byrja. Þetta skal verða í lagi. Ísland hefur alla möguleika til að vera til fyrirmyndar í þessum málum. Og þangað förum við.”

„Og við erum í þeirra stöðu að okkur vantar plast til endurvinnslu þegar allt er stútfullt af plasti.“

Við erum búnar að ræða um hringrásarhagkerfi og sjálfbærni og svona. Þetta eru stór orð og þau eru flókin og kerfið sem þú lýsir líka. Eru umhverfismálin ekki líka að glíma við það að fólki finnst ef til vill dálítið talað yfir hausamótunum á sér? Eru ekki langflestir atvinnurekendur bara að reyna að greiða starfsmönnum sínum laun og halda fyrirtækjunum sínum gangandi?

„Þetta er nákvæmlega málið. Ef þú ert ekki umhverfisvænn og tekur þetta ekki alla leið þá geturðu á einhverjum tímapunkti lokað búllunni því kröfur neytandans og regluverk eru á leið í þessa átt. Og þau fyrirtæki sem eru ekki að huga að þessum málum af alvöru, þau munu lenda í miklum erfiðleikum, þau munu sitja eftir. Svo er annað, þetta er kostnaðarsamur málaflokkur fyrir fyrirtækin og með því að flokka betur og tryggja að þessi mál séu í góðum farvegi, þá eru fyrirtækin að spara. Því þetta eru verðmæti. Þegar við flokkum erum við að auka verðmætin,” segir hún.

„Fyrir fyrirtækin sem taka þetta föstum tökum er þetta hið besta mál, fyrir reksturinn og umhverfið.  Það höfum við hjá Pure North séð enda erum við að vinna með mörgum fyrirtækjum, stórum og smáum – og þegar grafið er dýpra í þessi mál, þá er yfirleitt svigrúm til hagræðingar. Þetta er bæði umhverfisvænna og sparar kostnað og þá er ekki annað hægt en að vera með.”

Erfitt að byggja upp fyrirtæki og þurfa að bíða endalaust

Og er fólk að hlusta?

„Já mér finnst allir vera að hlusta en það eru svo ekki allir að gera eitthvað,” segir Áslaug Hulda og hlær.

„Ég vil reyndar að hlutirnir gerist hratt, en það er óneitanlega sérstakt að sex ára gamalt fyrirtæki sem er að fara fram á einfaldar breytingar nái þeim ekki í gegn þegar ávinningurinn blasir við. Ég get tekið dæmi, því heyrúlluplastið er megnið af því plasti sem við erum að endurvinna – meirihlutinn af heyrúlluplasti er fluttur óunninn úr landi, þrátt fyrir það að í Hveragerði erum við með umhverfisvænustu endurvinnslu í heimi.

Bóndi í Eyjafirði fær meðgjöf frá Úrvinnslusjóði til að fara með plastið sitt niður á Akureyrarhöfn því það er skilgreindur sem einhver núllpunktur Úrvinnslusjóðs – en fær ekki meðgjöf til að fara með plastið sitt til okkar í Hveragerði. Af hverju, kann einhver að spyrja. Svarið sem við fáum er að það sé styttra í höfnina á Akureyri en endurvinnsluna í Hveragerði. Þetta er auðvitað galið því svo fer plastið frá Akureyri til Evrópu og oftar en ekki þaðan til Asíu. Undanfarin ár hefur megnið af heyrrúlluplasti frá Íslandi endað í Malasíu. Við vitum hvernig innviðir eru þar. Það eru svona dæmi sem ég er svo ósátt við,” skýrir hún frá og bætir við að fleiri atriði mætti bæta innan Úrvinnslusjóðs. „Það er því miður allt of algengt að kerfi fari að snúast um kerfið sjálft en ekki úrlausnarefnið.“ Á meðan er erfitt að byggja upp fyrirtæki sem er endalaust að bíða, næstum utan kerfis. Við erum á sjötta ári í okkar starfsemi.

Stundum bölvaðir sóðar

Hún segir hins vegar ansi margt jákvætt í gangi í því hvernig þjóðin er að takast á við umhverfismálin. „Og atvinnulífið mun leysa stærsta þáttinn. Það eru mörg spennandi fyrirtæki að koma fram með mikilvægar og góðar lausnir. Auðvitað eru fyrir í atvinnulífinu aðilar sem hafa hagsmuni af því að hafa hlutina eins og þeir hafa verið. Og vilja því engar breytingar. Það eru heldur ekki allir sammála. Eigum við að taka umhverfisvænustu leiðina eða ódýrustu? Það kostar ekki það sama að fara með skip til niðurrifs til Hollands eða Indlands. Það er ljóst.”

„Undanfarin ár hefur megnið af heyrrúlluplasti frá Íslandi endað í Malasíu. Við vitum hvernig innviðir eru þar.“

Áslaug Hulda segir vanta heildarhugsun í umhverfismálin á Íslandi. „Við tölum í hátíðarræðum um hvað við viljum og þurfum að gera, en það gengur alltof hægt að breyta. Við getum ekki bara einblínt á eitthvað eitt, beðið eftir því að allir þessir skógar rísi til að kolefnisjafna Ísland. Þeir eru mikilvægir en það er ódýrt að tala um það sem einhverja eina allsherjarlausn. Ég gróðursetti tré í garðinum hjá mér fyrir tveimur árum og þau varla sjást. Við búum á Íslandi sko. Ég veit ekki hvenær þau fara að kolefnisjafna” segir hún og hlær.

Með plastið segir Áslaug Hulda okkur til að mynda hafa sett reglur um að hætta notkun á plaströrum og eyrnapinnum. „Fínt, ýtir undir vitundarvakningu hjá okkur sem einstaklingum. En Pure North getur tekið öll plaströr og eyrnapinna sem falla til á Íslandi á einu ári og við erum ekki klukkutíma að endurvinna ársbirgðirnar. Þetta snýst um magnið. Hættum að flytja verðmæti óendurunnin úr landi eitthvert sem við vitum ekki alltaf hvar endar. Tökum hringrásina hér, tökum ábyrgð á okkar úrgangi, byggjum upp kerfi sem er ekki bein lína heldur hingrás. Og við sem þjóð eigum svo mikið undir með hreinni ímynd landsins. Við getum gert svo margt en á sama tíma erum við bara bölvaðar sóðar og erum að senda úrganginn okkar til vanþróaðra landa. Við höfum alla burði til að gera betur.”

Hvernig er samt haldið utan um árangurinn af því sem þó er vel gert hér á landi eða því sem mætti gera betur? Það er oft sagt að tölfræðin í þessum geira sé ekki nægilega góð.

„Það er alveg rétt. Í mínum huga er það alvarlegt að úrgangstölfræðin okkar sé ekki betri en hún er. Við erum hluti af alþjóðasamstarfi þar sem við þurfum að ná settum markmiðum í slíku samhengi þarf tölfræðin að vera rétt. Hvernig getum við byggt upp fyrirtæki, nýja atvinnugrein þegar tölur og upplýsingar eru ekki réttar. Hér er enn eitt dæmið þar sem stjórnvöld þurfa að stíga inn í.”

Hún heldur áfram. „Hvernig getur það til dæmis staðist að það sé meira magn af heyrúlluplasti flutt úr landi en flutt var til landsins? Af hverju erum við með tölur sem segja að endurvinnsla sé meiri en hún í rauninni er?”

„Í mínum huga er það alvarlegt að úrgangstölfræðin okkar sé ekki betri en hún er. Við erum hluti af alþjóðasamstarfi þar sem við þurfum að ná settum markmiðum í slíku samhengi þarf tölfræðin að vera rétt. Hvernig getum við byggt upp fyrirtæki, nýja atvinnugrein þegar tölur og upplýsingar eru ekki réttar?“

Sá sem framleiðir, beri ábyrgð

Áslaug Hulda segir að svokölluð framleiðendaábyrgð, sem felur í sér að þeir sem framleiða vörur beri ákveðna ábyrgð á því hvað verður svo um hana, sé nú verið að innleiða í meira mæli. Það sé jákvætt og í þá átt sem eigi að vera stefna.

„Við þurfum nefnilega að hugsa þetta ferli sem hring, við erum að tala um hringrásarhagkerfi, en kerfið okkar núna er bara bein lína. Í grunninn þarf sá sem er að framleiða vöru og selja hana að bera ábyrgð á henni, hvar hún endar líka. Hann þarf að tryggja að hægt sé að endurvinna eða endurnýta það sem við framleiðum og seljum.

Gerum þetta auðveldara, eflum hringinn og styrkjum keðjuna. Á tímum hringrásarhagkerfis erum við að senda meirihlutann af okkar endurvinnanlega hráefni óunnið úr landi. Með því erum við ekki að skapa virðiskeðjuna hér heima. Við verðum að fara að hugsa um úrgang sem afurðir, verðmæti. Með því eykst sjálfbærni og við eflum hringrásarhagkerfið.”