„Kokka er fjölskyldufyrirtækið okkar. Mamma og systur mínar tvær komu að stofnun verslunarinnar með mér og lögðu inn hlutafé, en það var ekki nóg. Þannig að við settum upp Excel-skjal, allt reiknað mjög knappt. Við vildum alls ekki fá meira lánað en við töldum okkur þurfa. Fórum svo í viðtal í þrjá banka og það nennti eiginlega enginn þeirra að tala við okkur. Kannski þótti þeim þetta eitthvað ómerkilegur rekstur. Einn útibússtjórinn hringdi reyndar í þáverandi eiginmann systur minnar og sagði eitthvað á þá leið að hann væri ekki vanur að lána í svona nýjan rekstur, en að hann gæti svo sem alveg lánað „konunni hans“ pening. Sönn saga,” rifjar Guðrún upp.
Einn útibússtjórinn hringdi reyndar í þáverandi eiginmann systur minnar og sagði eitthvað á þá leið að hann væri ekki vanur að lána í svona nýjan rekstur, en að hann gæti svo sem alveg lánað „konunni hans“ pening. Sönn saga.
Engin sala í lokaðri búð
En lánið fengu þær að lokum og nú næstum tuttugu árum síðar lifir Kokka góðu lífi við Laugaveginn. Guðrún segir að stórsjái á þessari verslunargötu Reykvíkinga eftir faraldurinn. „Það er erfitt að horfa upp á Laugaveginn. Það hafa mikið af búðum gefist upp. Það voru sennilega of margir sem skertu opnunartímann eða lokuðu alveg. Það er náttúrulega engin sala í lokaðri búð. Það gefur augaleið. Margir fóru bara heim, settust niður og misstu móðinn,” útskýrir hún. „Við vorum að lenda í því að fólk kom á Laugaveginn á morgnana, ætlaði að nota tímann þegar færri eru til að útrétta og það kom að lokuðum dyrum. En þetta var víða svona, Kringlan og Smáralind með skerta opnun. Það þýðir bara eitt; minni velta."
Guðrún og fjölskyldan hennar, sem öll koma á einn eða annan hátt að rekstrinum, settust niður og ákváðu að snúa vörn í sókn. „Auðvitað var maður skelkaður, eins og allir. Maður vissi ekkert hvað þetta þýddi. Við vorum nýbúin að ráðast í mikla fjárfestingu til að stækka búðina og svona. En við settum sóttvarnarreglur í fyrirtækinu strax, sem þýddi það að ég og maðurinn minn og starfsmaður sem við réðum góðu heilli sama mánuð og faraldurinn skall á stóðum hérna vaktina. Auður systir var heima við eldhúsborðið að vinna í bókhaldinu og tók svo helgarnar á gólfinu, með þeirri vakt. Það þýddi að hún vann klárlega alltof mikið, en svona er þetta þegar maður stendur í eigin rekstri,” segir Guðrún. „Og það var sérstaklega ánægjulegt þegar ég kom heim og mín beið nýbakað súrdeigsbrauð á tröppunum sem hún hafði hent í á milli bókhaldsfærslna,” segir hún og hlær.
Fólk er líka kannski að átta sig á að það er alls konar til hér heima, sem er á samkeppnishæfu verði og er bæði fallegt og vandað.
600 prósent aukning í vefsölu á milli ára
Kokka brást strax við með að bjóða upp á snertilausa heimsendingu samdægurs á höfuðborgarsvæðinu ef keypt var á netinu.
„Svo var maðurinn minn úti að keyra eftir hádegi og fór með sendingarnar í pósthús sem þurftu að fara lengra, samdægurs. Fólk á landsbyggðinni var kannski að fá pakkann til sín daginn eftir. Þessu var gríðarlega vel tekið. Við vorum með 600 prósent aukningu milli ára í vefsölu í mars. Það er heill hellingur,” segir hún frá, en sögulega hefur vefverslun á Íslandi verið tiltölulega lítill hluti af sölu almennt hjá verslunum.
„Það var þannig hjá okkur eins og annars staðar. Meðaltalið hjá íslenskum verslunum er um fjögur prósent af heildarsölu. Miklu minna en hjá nágrannalöndunum. En Íslendingar hafa hins vegar alltaf verið duglegir að panta sér frá útlöndum. Það er auðvitað leiðinlegt, en kannski er það að breytast núna. Bæði hefur verið erfiðara með aðföng utan frá og fólk er líka kannski að átta sig á að það er alls konar til hér heima, sem er á samkeppnishæfu verði og er bæði fallegt og vandað.”
Sér ekki að atvinnurekendur hafi efni á hækkunum
Aðspurð segist Guðrún hreinlega ekki vita hverju megi eiga von á á íslenskum vinnumarkaði nú í haust og í vetur. „Það er útlit fyrir að atvinnuleysi aukist. Við erum þó að vonast til að verði mikil verslun innanlands, því ekki er von á að Íslendingar flykkist út í verslunarferðir. Desember er mikilvægur fyrir verslunarmenn og enginn vill sitja uppi með heilmikinn lager í janúar – en við ætlum heldur ekki að lenda í því að allt sé uppselt um miðjan desember,” útskýrir hún. Hún segir erfitt að gera áætlanir í svona árferði.
„Ástandið er svo ótryggt. Ef krónan heldur áfram að veikjast er von á að verslanir þurfi að taka eitthvað af hækkunum á sig. Það er ekki hægt að velta öllum hækkunum beint út í verðlagið. Því á ég erfitt með að sjá fyrir mér að svigrúm verði fyrir launahækkanir í vetur. Maður er auðvitað stressaður og ekki síður fyrir hönd annarra atvinnugreina. Það var þungt högg í vor þegar launin hækkuðu og margir sem réðu hreinlega ekki við það. Ég óttast að staðan geti orðið ansi svört, þó ég hafi þá trú að alla atvinnurekendur langi að starfsfólkið sitt sé metið að verðleikum og líði vel. Það vita það allir að þannig eru góð fyrirtæki uppbyggð. Ég held að það sé erfitt að sjá fyrir sér launahækkanir án þess að komi til frekari uppsagna. Þó staðan sé góð hjá okkur og í ákveðnum geirum verslunar er sú því miður ekki raunin alls staðar.
Íslendingar hafa alltaf verið duglegir að panta sér frá útlöndum. Það er auðvitað leiðinlegt, en kannski er það að breytast núna.
Ég held að það sé erfitt að sjá fyrir sér launahækkanir án þess að komi til frekari uppsagna.
Óvön atvinnuleysinu
Guðrún segir það atvinnuleysi sem blasi við okkur vera skelfilega mynd. „Í sögulegu samhengi höfum við verið mjög heppin. Atvinnuleysi hefur alla tíð verið mjög lágt. Þegar ég vann hjá vinnumálastofnun í Þýskalandi var atvinnuleysið tíu til tólf prósent á því svæði og það þótti bara eðlilegt. En við erum svo óvön þessu hér og þannig kannski ekki í stakk búin til að takast á við félagslegu afleiðingarnar. Hér er líka hefð fyrir því að það sé á einhvern hátt skömm að vera atvinnulaus.”
Þegar ég vann hjá vinnumálastofnun í Þýskalandi var atvinnuleysið tíu til tólf prósent á því svæði og það þótti bara eðlilegt. En við erum svo óvön þessu hér og þannig kannski ekki í stakk búin til að takast á við félagslegu afleiðingarnar.
Guðrún heldur þó áfram að vera bjartsýn. „Ég hef þá trú að við getum verið fljót upp úr þessari lægð þegar sóttin fer að réna. Ég fór með manninum mínum í ferð um Suðurlandið í sumar og við hittum þar fyrir breskt par. Þau sögðust hafa verið innilokuð í íbúðinni sinni í London í átta vikur og urðu að komast einhvert burt. Þau völdu Ísland vegna fámennisins og víðernisins. Ég hugsaði með mér, jess - þetta er frábær sölupunktur. En til þess að selja ferðina þarf landið að vera opið. Við megum ekki gleyma að það starfa þúsundir við gisti- og veitingaþjónustu, auk allra þeirra sem starfa í verslun sem ferðamenn bera uppi. Það á sérstaklega við um landsbyggðina,” segir hún.
„Það er að minnsta kosti klárt að það þarf að halda vel á spöðunum til að koma okkur í gegn um þetta. Það á við bæði um yfirvöld og aðila vinnumarkaðarins. Mikilvægast er að halda hér uppi atvinnustigi,“ segir Guðrún að lokum.