Gerum meira en minna – og hættum að þrasa

Jakob Einar Jakobsson
Eigandi og framkvæmdastjóri Jómfrúarinnar

Gerum meira en minna – og hættum að þrasa

Jakob Einar Jakobsson
Eigandi og framkvæmdastjóri Jómfrúarinnar
Veitingamaðurinn Jakob Einar á Jómfrúnni segir umræðu um að eigi að leyfa ferðaþjónustunni „að rúlla” sé ofureinföldun á flókinni stöðu. Störf spretti ekki upp að sjálfu sér. Jómfrúin muni standa af sér ágjöfina sem heimsfaraldurinn hefur í för með sér, en slík sé ekki raunin alls staðar. Hlutabótaleiðin hafi vissulega haft áhrif, en aðrar leiðir hefðu getað reynst betur. Hann segir brýnt að sveitarfélögin leggist á árarnar með ríkinu í þeirri viðleitni að vernda störf í landinu.

Jakob E. Jakobsson er eigandi og framkvæmdastjóri hins rótgróna veitingastaðar Jómfrúarinnar við Lækjargötu í Reykjavík. Hann á einnig sæti í stjórn Samtaka ferðaþjónustunnar. Hann er veitingamaður fram í fingurgóma og Jómfrúin vel sóttur staður. Staðan var því mjög góð áður en áhrifa veirunnar fór að gæta og stjórnvöld settu á samkomutakmarkanir sem líkt og gefur að skilja höfðu stórkostleg áhrif á rekstur veitingastaðarins. „Við vorum sem betur fer búin að búa vel í haginn fyrir veturinn og þannig ágætlega í stakk búin til að takast á við COVID-höggið. Jólavertíðin í fyrra var frábær og við settum ný viðmið á öllum póstum; í gæðum, fjölda gesta og afkomu. En veitingarekstur er í eðli sínu útsettur fyrir sveiflum, jafnt innan árs og mánaða,“ segir Jakob og bætir við að fyrsti ársfjórðungur sé alltaf rekinn í tapi á Jómfrúnni.

„Það skiptir því öllu máli fyrir okkur að smitum fari fækkandi, slakað verði á aðgerðum og veitingastaðurinn geti verið opinn í jólamánuðinum sem er okkar langstærsti mánuður. Ég segi meira að segja stundum í gríni að það séu allir með óþol fyrir Jómfrúnni eftir jólin,“ segir hann og hlær.

„En í fullri alvöru, miðað við sama tímabil í fyrra þá tók fyrsta bylgja veirunnar okkur niður um 50 prósent í veltu. Það að hafa haldið í helming tekna okkar miðað við eðlilegt árferði þrátt fyrir tuttugu manna samkomuhámark og skerta opnunartíma í ofanálag var ákveðið afrek. Og nú, í þriðju bylgju þegar veitingastöðum er í raun gert að loka með tíu manna samkomutakmörkunum án þess að gert sé ráð fyrir lokunarstyrkjum til þeirra líkt og annarra sem hafa upplifað mikið tekjufall ríður meira á en nokkru sinni fyrr að ákveðins fyrirsjáanleika fari að gæta í þessum efnum. Einungis þannig geta fyrirtækin gert áætlanir og gripið til nauðsynlegra ráðstafana.“

„Ég segi stundum í gríni að það séu allir með óþol fyrir Jómfrúnni eftir jólin,“ segir hann og hlær.

„Þið megið ekki fara neitt“

Jómfrúin brást við samkomutakmörkunum strax í vor og hóf að bjóða upp á heimsendingu á smurbrauði auk þess sem þau lokuðu frá mánudegi til miðvikudags. Óhætt er að segja að heimsendingarþjónustan hafi slegið í gegn meðal tryggra viðskiptavina staðarins.

„Við þá ákvörðun að skerða opnunartíma tókst það sem ég vonaðist til, því segja má að eftirspurnin hafi safnast saman á þá daga sem opið var fyrir heimsendingar og heimtökur á mat. Suma daga náðum við þannig veltu að ekkert vantaði upp á nema auðvitað áfengissöluna, sem er heilmikill hluti af tekjum veitingastaða almennt. Okkur þótti líka vænt um hlýju orðin frá okkar viðskiptavinum, í allri óvissunni, en þeir voru ósparir á hlý orð í okkar garð - „þið megið sko ekki fara neitt“ var gjarnan viðkvæðið þegar við mættum í gættina hjá fólki með matinn.“

Hann lýsir einstakri samheldni á vinnustaðnum, mitt í ástandinu. „Það ríkir einstök frammistöðumenning á Jómfrúnni og það var í rauninni gaman að hamast áfram á þessum undarlegu tímum því við lögðumst öll á eitt. Almennt verklag og starfslýsingar voru bara settar til hliðar og öll gengum við í þau störf sem þörf var á hvort sem það var símsvörun, akstur, eldamennska eða þrif og viðhald.“

„Við þá ákvörðun að skerða opnunartíma tókst það sem ég vonaðist til, því segja má að eftirspurnin hafi safnast saman á þá daga sem opið var fyrir heimsendingar og heimtökur á mat.“

Röng nálgun að skylda fólk til að sitja heima aðgerðarlaust

Með þessum aðgerðum segist Jakob hafa náð að nýta hlutabótaleiðina með sem skilvirkustum hætti. „Þar sem fólk vann eðlilega ekki þegar lokað var, auk þess sem við skiptum starfsfólkinu í hópa og þannig bjuggum við til fleiri vaktir ef svo má segja. Enda ekki þörf á eins mörgum á hverja vakt við þessar aðstæður. Í svona óvissuástandi eru líklega allir þakklátir fyrir þá aðstoð sem gefst og sannarlega reyndist hlutabótaleiðin okkur vel,“ skýrir hann. En með tímanum hafi hann orðið æ staðfastari á þeirri skoðun sinni að aðrar leiðir hefðu getað reynst betur.

„Til dæmis ef fyrirtæki hefðu fengið beina styrki eða ef ríkið hefði yfirtekið ráðningarsamband tímabundið. Í mörgum fyrirtækjum eru mörg verkefni sem eru ekki beinlínis tekjuaflandi en byggja undir tekjuöflun og hefði verið hægt að vinna á þessum tíma í stað þess að skylda fólk til að sitja heima aðgerðalaust. Slíkar leiðir hefðu því getað reynst bæði atvinnurekendum og starfsfólki betur.“

Störf í ferðaþjónustu spretta ekki upp að sjálfu sér

Aðspurður um stöðu veitingageirans í nánustu framtíð segir hann horfurnar dökkar. Margir veitingamenn eigi mikið undir ferðamönnum. Ljóst sé að flóran verði margfalt fátækari ef eitthvað verði ekki að gert. „Við erum að horfa upp á það að ferðaþjónustubálkösturinn er allt í einu orðinn að litlum loga með tilheyrandi áhrifum til hins verra fyrir land og þjóð. Við verðum að passa að hann deyi ekki alveg út. Það eru mörg glæsileg fyrirtæki í ferðaþjónustu sem og afleiddum greinum sem hafa þurft að segja upp 90 prósent starfsmanna sinna og eru alveg tekjulaus eða svo gott sem,“ segir Jakob.

„Það er ofureinföldun að tala á þann veg, eins og margir hafa gert, að það sé best að leyfa þessu öllu saman að rúlla og byrja svo upp á nýtt í stað þess að halda lífi í loganum."

„Því með því að segja það er fólk um leið að gjaldfella fjárfestingar, menntun og ekki síst mannauðinn í greininni.  Þetta mun ekki spretta óstutt upp að nýju. Hlutir gerast ekki af sjálfu sér,“

„Það er búið að ráðstafa miklum fjármunum í að byggja upp Ísland sem áfangastað fyrir ferðamenn allt árið um kring. Ekki bara á sumrin eins og var. Það hefur tekist gríðarlega vel með tilheyrandi uppbyggingu og tækifærum fyrir fjárfestingar og þar með störfum um allt land. Þetta get ég fullyrt að allir finni á eigin skinni í sínu nærumhverfi. Ég er sjálfur alinn upp vestur á fjörðum í þeirri fábreytni sem þar ríkti á árum áður. Í dag er staðan allt önnur þökk sé ferðaþjónustu að miklu leyti,“ segir Jakob og er harður á því að ekki eigi að tala niður það mikla uppbyggingarstarf sem unnið hefur verið vegna ferðamannastraumsins um allt land.

„Því með því að segja það er fólk um leið að gjaldfella fjárfestingar, menntun og ekki síst mannauðinn í greininni.  Þetta mun ekki spretta óstutt upp að nýju. Hlutir gerast ekki af sjálfu sér,“ segir Jakob og bætir við að ekki megi gleyma því að áfangastaðurinn Ísland sé í samkeppni við önnur lönd, sem muni síst minnka eftir COVID. „Það er því enn mikilvægara en annars að tryggja skjótari og faglegri viðspyrnu en samkeppnin.“

Atvinnurekendur eru líka heiðarlegt fólk

Jakob segir fróðlegt að líta til þess sem Norðmenn hafa gert með beinum styrkjum til fyrirtækja til þess að stemma stigu við atvinnuleysi og fjöldagjaldþrotum. „Þar hafa fyrirtæki sem orðið hafa fyrir tekjufalli vegna COVID getað sótt um stuðning til ríkisins. Í heildina er búið að greiða yfir 5 milljarða norskra króna í stuðning og í útfærslunni er tillit tekið til óumflýjanlegs fasts kostnaðar. Gagnsæið er líka 100 prósent, allir geta skoðað listann á netinu yfir þau fyrirtæki sem fengið hafa styrki, og flokkað eftir fylkjum, geira, upphæð og svo framvegis. Oft virðist styrkurinn nema um helmingi tekjufalls og útborganir eru yfir 65.000 talsins,“ bætir hann við.

Það vakti athygli Jakobs að efst á þeim lista yfir ríkisstyrkt fyrirtæki vegna heimsfaraldursins er hótelkeðja Petters Stordalen, eða félags hans Strawberry, með milljarða í ríkisstyrki. „Sá maður er síst þekktur fyrir ráðdeild í rekstri, áhættufælni eða hóflegar arðgreiðslur svo ég máti þetta við íslenskan veruleika. Hér er hin almenna umræða oft á þann veg að það skipti meira máli að ákveðnar persónur og leikendur megi ekki „hagnast“ á aðgerðum stjórnvalda og að fyrirtækjaeigendur séu upp til hópa óheiðarlegt fólk. Það er ekki svo,“ heldur hann áfram.

Sveitarfélögin ættu að leggjast á árarnar líka

„Viðbragðsaðgerðir við COVID eiga að vera aðgengilegar og einfaldar og gagnast sem flestum sem á þurfa að halda. Gerum meira en minna, var viðkvæðið í byrjun faraldursins. Skilyrðin þurfa vissulega að vera ströng því auðvitað á ekki að styðja þá sem ekki þurfa á stuðningi að halda. Þetta rekur mig samt að þeirri hugsun að leiðir og úrlausnir sem lagt er upp með að séu almennar og gagnist öllum geta stoppað í kerfinu vegna útgilda sem njóta einhvers sem þeir hugsanlega þurftu ekki á að halda. Þetta kristallaðist í allri umræðu um hlutabótaleiðina í vor. Af því leiðir að hinn umræddi agnarsmái minnihluti sem hæst hefur getur haft áhrif á hin 99 prósent fyrirtækjanna og þegar upp er staðið fær enginn það sem hann þarf og orkan fer öll í þras í stað aðgerða,“ bendir Jakob á.

Hann segir að í stað þess að ráðast í aðgerðir líkt og gert var í Noregi gerist ríkisvaldið uppvíst að því að greiða beina styrki til sveitarfélaga vegna tekjumissis þeirra. Sá fjárhagsvandi sé hins vegar tilkomin einmitt vegna bágrar stöðu margra fyrirtækja vegna faraldursins og sóttvarnaraðgerða. „Þetta finnst mér skjóta skökku við. Ríkið ætti frekar að hvetja sveitarfélögin til að leggjast á árarnar með fyrirtækjum, til að mynda með niðurfellingu fasteignagjalda svo eitthvað sé nefnt.“

Jakob segir þessa stuðningsleið við fyrirtækin vel færa. „Ríkið er til dæmis með fyrirætlanir um að styrkja einkarekna fjölmiðla myndarlega, án sérstakra krafna að því virðist. Mér þykir það sýna að þetta sé vel hægt, ef viljinn er fyrir hendi.“