Það þarf að virkja fólkið – í gegnum nýsköpun

Fida Abu Libdeh
Stofnandi

Það þarf að virkja fólkið – í gegnum nýsköpun

Fida Abu Libdeh
Stofnandi
Fida Abu Libdeh er stofnandi nýsköpunarfyrirtækisins GeoSilica. Að hennar sögn felst heilmikið tækifæri í því að koma á auknu samstarfi milli nýsköpunarfyrirtækja og Vinnumálastofnunar. Fjöldi hámenntaðra einstaklinga sjái fram á atvinnuleysi í haust vegna COVID-19. Nýsköpunarfyrirtæki séu í eðli sínu ólík mörgum öðrum fyrirtækjum, vegna þeirrar yfirgripsmiklu vinnu sem felst í rannsóknum og þróun. Alltaf sé hægt að nota „fleiri hendur og hausa,” líkt og Fida kemst að orði.

„Þetta ástand hefur haft heilmikil áhrif á okkur og það byrjaði strax. Við vinnum mikið með Kína og sendum þangað vörur. Svo áhrifanna fór að gæta hjá okkur í janúar; tollurinn var lokaður og DHL skrifstofurnar líka. Það var enginn til að tolla vörurnar og þær festust í nokkra mánuði í vöruhúsi í Kína. Varan var uppseld í fjóra eða fimm mánuði og við höfum ekki náð sölunni upp aftur síðan. Viðskiptavinir okkar fundu aðra vöru sem var til og fóru að kaupa hana í staðinn. Það var heilmikið högg,” segir Fida. „Það var Asía, höggið í Evrópu kom síðar. Salan var fín þangað til í maí eða júní þar.”

Á móti kemur að netsalan hjá fyrirtækinu hefur verið að byggjast upp. „Og við erum að senda vörur um allan heim, á markaði sem við höfðum ekki verið að sækja á áður.”

Fida þurfti að bregðast við minnkandi tekjum með því að segja upp fólki, tveimur af fimm starfsmönnum fyrirtækisins. „Við þurftum því miður að segja upp góðu fólki því það varð minna að gera. Maður veit ekkert hvað er framundan. Við ætlum bara að lifa þennan faraldur af, halda kostnaði í lágmarki og vona það besta.”

„Maður veit ekkert hvað er framundan. Við ætlum bara að lifa þennan faraldur af, halda kostnaði í lágmarki og vona það besta.”

Farin að taka tveggja tíma hádegismat

Hún segir ljósu punktana snúa að tækniframförum sem hafa óumflýjanlega fylgt heimsfaraldrinum. „Vegna þess að við erum hér suður í Keflavík, þá hafði faraldurinn þau jákvæðu áhrif í för með sér að maður græddi heilmikinn tíma. Áður fyrr sat ég tvo til þrjá tíma á dag í bíl en nú eru allir til í fjarfundina. Þetta sparar mér svo mikinn tíma að ég er farin að taka tveggja tíma hádegismat,” segir Fida, létt í bragði.

GeoSilica hefur undanfarin ár verið í gríðarlegum vexti. Félagið hafði nýverið fengið fleiri hluthafa og mikla innspýtingu í formi fjármagns í markaðssetningu erlendis, nýja dreifiaðila og þar fram eftir götunum. „Þegar Covid skall á voru minni dreifiaðilarnir að rifta samningum, treystu sér ekki til að koma með nýja vöru inn á markaðinn og þessir stærri voru að fresta okkur. Þarna vorum við búin að stækka framleiðsluna til þess að mæta þessari auknu eftirspurn, svo ársreikningurinn kemur ekki til með að líta vel út. Það er ljóst.”

„Áður fyrr sat ég tvo til þrjá tíma á dag í bíl en nú eru allir til í fjarfundina. Þetta sparaði mér svo mikinn tíma að ég er farin að taka tveggja tíma hádegismat."

Ekki bara flugfélög sem lentu í COVID

Fida segir að þó að það sé mikilvægt að stjórnvöld beini sjónum sínum að ferðaþjónustu og afleiddri starfsemi, verði líka að horfa til nýsköpunarfyrirtækjanna. „Við byggjum á vexti og arðurinn sem skapast fer allur í áframhaldandi vöruþróun. Ég gat ekki nýtt mér mörg af úrræðum ríkisstjórnarinnar því ég uppfyllti ekki skilyrðin um tekjutap, en ég var samt búin að stórauka framleiðsluna og vöxturinn sem var í kortunum varð ekki. Þetta mun hafa áhrif inn í næstu rekstrarár og svo hefur einfaldlega hægt á mörkuðum víða. Okkar fyrirtæki byggir allt á vexti, við fáum inn styrki og hluthafa og erum alltaf að tala um framtíðina og hversu björt hún er. Það er vont að fá ekki stuðninginn til að brúa bilið.”

Þegar Fida sá fram á í vor að áætlanir stæðust ekki, fór starfsfólkið að einblína frekar á rannsóknir og þróun og minna á markaðsstarfið, dreifingu og sölu. „Ég hugsaði bara, ókei – heimurinn er lokaður. Við getum ekki fengið nýja sölusamninga, en við getum þróað vöruna okkar og hugverkið áfram. En ég þarf fjármagn til að lifa það af. Ég hefði viljað sjá stjórnvöld ráðast í almennari aðgerðir. GeoSilica sótti til dæmis um lán en fékk það svar að málið yrði skoðað en slíkt væri aðallega hugsað  fyrir fyrirtæki í ferðaþjónustu. Það voru ekki bara flugfélög og hótel sem lentu í heimsfaraldrinum.”

„Það á bara að setja í fjármálaáætlun að öll nýsköpunarverkefni með A í einkunn og þar af leiðandi styrktarhæf, fái úthlutað fjármagni.”

Atvinnuleysi er ekkert grín

Fida vill stórefla nýsköpun og koma á samningum milli Vinnumálastofnunar og nýsköpunarfyrirtækja. Hún vill efla Tækniþróunarsjóð enn meira og sjá sjóðinn gefa meira til fyrirtækja sem eru þegar starfandi, en ekki eingöngu til sprotafyrirtækja sem eru nýjar hugmyndir. „Það eru allir að spyrja sig, hvernig komumst við út úr kófinu? Það á bara að setja í fjármálaáætlun að öll nýsköpunarverkefni með A í einkunn og þar af leiðandi styrktarhæf, fái úthlutað fjármagni. Svo finnst mér blasa við að Vinnumálastofnun fari í samstarf með okkur í nýsköpun. Það eru sögulega margir vel menntaðir einstaklingar sem eru að horfa fram á langtímaatvinnuleysi. Við getum rannsakað og þróað endalaust, en ég hef því miður ekki efni á að ráða til mín allt þetta fólk,” heldur hún áfram.

„Það er ekkert grin að vera atvinnulaus. Þetta myndi nýtast fyrirtækjunum og fólkinu. Allir í nýsköpun vita að verðmætin eru fólgin í fólkinu sem vinnur þar. Að fá fleiri hendur og hausa inn í GeoSilica væri draumur í dós. Ég er sérfræðingur í jarðvarmaorku, ég væri til í að fá sérfræðing úr fjármálageiranum, markaðssmanneskju, PR-manneskju, úr lyfjageiranum og svo mætti áfram telja. Þverfaglegt samstarf við fólk sem kann annað en ég. Það var svipað verkefni sett af stað í kreppunni 2008 og nú vona ég bara að forsætisráðherra og forstjóri Vinnumálastofnunar lesi þetta. Það er fullt af hæfu, atvinnulausu fólki þarna úti sem eru að leita af vinnu hjá fyrirtæki eins og okkar. Það þarf bara að koma okkur saman.”